Kristján Andrésson
Kristján Andrésson
Sænska landsliðið í handknattleik karla, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, glansaði í gegnum viðureignina við Katar í gærkvöldi. Svíar unnu með 11 marka mun, 36:25, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 19:12.

Sænska landsliðið í handknattleik karla, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, glansaði í gegnum viðureignina við Katar í gærkvöldi. Svíar unnu með 11 marka mun, 36:25, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 19:12. Svíar eru þar með í öðru sæti D-riðils fyrir lokaumferðina á föstudaginn, en þá mæta þeir Egyptum, sem eru í þriðja sæti með sex stig eins og Svíar. Markatala Svía er hins vegar mikið betri en Egypta. Þar af leiðir dugir Svíum jafntefli í leiknum.

„Leikmennirnir skiluðu fínu starfi á vellinum,“ sagði Kristján Andrésson, þjálfari Svía, við sænska fjölmiðla eftir leikinn.

„Sóknarleikurinn var beittur. Fyrri hálfleikur var sérstaklega góður,“ bætti Kristján við, en hann hefur hlotið mikið lof til fram til þessa fyrir frammistöðu sænska landsliðsins í keppninni.

Katarbúar hafa ekki á að skipa eins sterku liði að þessu sinni og þeir höfðu fyrir tveimur árum á heimavelli þegar þeir hlutu silfurverðlaun. iben@mbl.is