Sæmundur Elíasson og Ragnar Jóhannsson ásamt Guðlaugi Þóri Pálssyni frá Frostmarki. Nokkur fyrirtæki vinna að verkefninu og m.a. mun Sæplast vinna að þróun betri umbúða sem eiga að bæta meðferð aflans við löndun..
Sæmundur Elíasson og Ragnar Jóhannsson ásamt Guðlaugi Þóri Pálssyni frá Frostmarki. Nokkur fyrirtæki vinna að verkefninu og m.a. mun Sæplast vinna að þróun betri umbúða sem eiga að bæta meðferð aflans við löndun.. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Fimm fyrirtæki vinna að gerð kerfis sem bætir meðhöndlun aflans allt frá blóðgun til löndunar og safnar um leið upplýsingum um veiðistað og -tíma.

Nýtt kælikerfi fyrir smábáta er í þróun og gæti snarbætt gæði aflans. Þróun og smíði kælikerfisins fékk fyrr skemmstu veglegan styrk úr Tækniþróunarsjóði og þar er verkefnið kallað Hraðkæling fyrir hraðfiskibáta . Segir Sæmundur Elíasson að orðið hraðfiskibátar lýsi best nýrri gerðum smábáta í dag, enda margir þeirra orðnir mjög öflug veiðitæki og einkum notaðir til dagróðra. „Er hægt að haga veiðunum þannig að tveggja eða þriggja manna áhöfn nái að landa allt að 2.000 tonnum af fiski á ári, en getur verið komin aftur í land nógu snemma dags til að sækja börnin á leikskólann.“

Sæmundur er verkefnisstjóri hjá Matís og átti frumkvæði að verkefninu ásamt kollega sínum Ragnari Jóhannssyni, nú hjá Hafrannsóknastofnun, með aðkomu kæliþjónustunnar Frostmark. Að auki taka þátt í verkefninu bátasmiðjan Trefjar, sem smíðar Kleópötrubátana, umbúðaframleiðandinn Sæplast og útgerðin Blakknes á Bolungarvík.

Sveiflur í gæðum

Í dag er afli smábáta ýmist kældur með ís eða með krapa. „Verklagið er almennt þannig að settur er ís í botninn á hverju kari. Eftir að hann hefur verið blóðgaður er fiskinum komið fyrir í karinu með ísnum og sjó sprautað í karið líka, og á þá blóðtæmingin og kælingin sér stað á sama tíma, í sama vökvanum. Er allur gangur á því hvort ísinn endist alla veiðiferðina og getur því gerst að fiskurinn er í fínu lagi einn daginn, en ef veiðist vel um miðjan júlí þegar heitt er úti gætu komið upp vandamál. Þessi handvirka aðferð við blóðgun og kælingu hefur skilað því að afli smábátanna getur verið gríðarlega misjafn að gæðum og fiskurinn allt frá því að vera fyrsta flokks og vel kældur yfir í að hafa fengið ónóga kælingu og legið of lengi í blóðvatni,“ útskýrir Sæmundur.

„Þegar komið er í land er aflanum síðan yfirleitt sturtað í önnur kör, án tappa, til að láta blóðvatnið leka frá. Þessi sturtun veldur hnjaski á fiskinum og getur rýrt gæðin enn frekar.“

Tæknin sem á að þróa í verkefninu mun bæði bæta blæðingu og kælingu en líka kynna til sögunar hentugri umbúðir sem eiga að bæta meðferð fisksins við löndun. Sæmundur segir tæknina þegar til staðar og helsta áskorunin að geta komið búnaðinum vel fyrir í fleyi á stærð við Kleópötru bátana sem eru aðeins um 15 metrar að lengd:

Kældur sjór í hringrás

„Fyrst er fiskurinn blóðgaður og látið blæða út í sérstöku kari í ákveðinn tíma. Þaðan rennur aflinn síðan sjálfkrafa niður í lest og ofan í kar þar sem undirkældum sjó er dælt í hringrás. Enginn ís er í kælikarinu heldur eru það varmaskiptar sem kæla sjóinn niður t.d. í -1 °C. Er fiskurinn síðan geymdur þar fram að löndun,“ segir Sæmundur og bætir við að kæling með þessum hætti þurfi minni orku en krapakerfi.

Með því að hafa fiskinn í kældum sjó má líka koma í veg fyrir þær skemmdir sem stundum geta orðið á aflanum neðst í hefðbundnum körum. „Algengt er að fiskikör séu að jafnaði um 40 cm á dýpt og skýrist það af því að þegar búið er að fylla karið af fiski og ís hvílir mikil þyngd á fiskinum sem er á botninum. Þetta er ekki lengur vandamál ef fiskurinn flýtur í kældum vökva og veitir okkur möguleika á að hugsa umbúðir og kör upp á nýtt.“

Til viðbótar við bætta blæðingu, kælingu og meðferð aflans mun nýja kerfið skrásetja ýmsar upplýsingar um aflann svo að rekja megi þætti á borð við hvar fiskurinn var veiddur og við hvaða hitastig hann hefur verið geymdur. „Þessar upplýsingar eru settar í gagnaský og geta hjálpað kaupendum við valið, og jafnvel að rekjanleikinn geti leikið mikilvægt hlutverk í markaðssetningu fisksins til neytenda.“

Rakin gæði

Öll mun þessi tækni vinna saman til að skapa verðmætari afurð: „Markaðurinn kallar ekki bara eftir hágæðafiski heldur leggur líka áherslu á rekjanleika, minni orkunotkun og sótspor, og jákvæð samfélagsleg áhrif. Sjáum við fyrir okkur að hraðfiskibátar muni þá standa mjög vel að vígi enda er líklegt að í nánustu framtíð verði þessir bátar rafknúnir og því mjög umhverfisvænir, og ljóst að smábátaveiðar eru fjölskyldu- og samfélagsvænar.“

Bendir Sæmundur þó á að fyrst þurfi markaðurinn að taka við sér. Segir hann íslenska fiskmarkaðinn oft ekki verðlauna nógu vel þá sem skaffa besta hráefnið. „Markaðurinn getur verið hálfgert skrímsli á köflum og ef skortur er á hráefni er allt keypt sem í boði er, svo að ekki fæst endilega mikið betra verð fyrir besta fiskinn en fyrir fisk í lakari gæðum. Myndi það vera sterkur hvati fyrir sjómenn að huga enn betur að gæðum aflans ef kaupendur myndu hreinlega hafna slæmum fiski.“