Á meðan ástandið er óbreytt hlýtur það að vera spurning um hvenær en ekki hvort einhver lætur reyna, fyrir dómstólum, á lögmæti gjaldeyrishafta og þá mismunun sem þau hafa í för með sér.

Óhætt er að segja að vel gangi í íslensku efnahagslífi þessa stundina og er gríðarleg styrking krónunnar líklega nokkuð gott merki þess. Jafnvel mætti ganga svo langt að tala um góðæri hér á landi. Þrátt fyrir gott gengi erum við enn að útskýra fyrir erlendum aðilum að á Íslandi séu við lýði gjaldeyrishöft sem rökstudd eru með vísan til neyðarsjónarmiða sem sköpuðust í hruni fjármálakerfisins í lok árs 2008, fyrir röskum átta árum. Eins og allir vita er Ísland aðili að EES-samningnum, sem gerir kröfu um frjálst flæði fjármagns milli landa. Á þeim vettvangi berum við okkur samt illa, á sama tíma og við stærum okkur af því á öðrum alþjóðavettvangi að efnahagslífið blómstri.

Þótt fæstir finni mikið fyrir gjaldeyrishöftum frá degi til dags skapa þau gríðarlega ójafna stöðu, sem undir venjulegum kringumstæðum standast hvorki meginreglur stjórnarskrár, stjórnsýslulaga, laga um Evrópska efnahagssvæðið og svo mætti áfram að telja. Fjöldamargar reglur hafa verið settar í því skyni að takmarka rétt einstaklinga og lögaðila í þessa veru og sem nýlegt dæmi má nefna lagaákvæði frá 2016, nánar tiltekið grein 13.b. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sem felur í sér að til þess að lögaðili geti nýtt sér rýmri heimildir til erlendra fjárfestinga þarf hann að sýna fram á að hann hafi átt eignir 1. ágúst 2016 sem standa undir fjárfestingunni. Við erum orðin svo vön sérkennilegum lagaákvæðum í sambandi við gjaldeyrishöft að við gerum ekki einu sinni athugasemdir við þá mismunun sem svona ákvæði hafa í för með sér. Rétt er að taka fram að hér er aðeins um eitt lítið dæmi að ræða en frá því að reglur um gjaldeyrishöft voru fyrst settar hefur innlendum og erlendum aðilum verið skipt upp í hópa með þeim afleiðingum að sumir fá hagstæða meðferð en aðrir fá hana ekki.

Á meðan ástandið er óbreytt hlýtur það að vera spurning um hvenær en ekki hvort einhver lætur reyna, fyrir dómstólum, á lögmæti gjaldeyrishafta og þá mismunun sem þau hafa í för með sér. Í því sambandi er athyglisvert að rifja upp athugasemd í forsendum EFTA-dómstólsins frá árinu 2011 sem fjallaði um umrædd höft: „Til þess að unnt sé að réttlæta takmarkanir á frjálsum fjármagnsflutningum verða reglur EES-ríkis að vera til þess fallnar að ná markmiðinu sem að er stefnt og mega í því sambandi ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Þessar kröfur verður að gera til þess að reglurnar teljist samræmast meðalhófsreglunni [...] Þar að auki verða þau úrræði sem gripið er til að samrýmast meginreglunni um réttarvissu.“

Takmarkanir á tilfærslu fjármuna milli landa innan EES mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur og verða að vera til þess fallnar að ná markmiði sínu. Kinnroðalaust má fullyrða að löggjafinn og stjórnvöld á Íslandi hafi, frá því framangreindur dómur frá 2011 féll, gengið langt í mörgum tilvikum í breytingum á gjaldeyrishöftunum. Á það sérstaklega við þegar hafðar eru í huga þær breytingar sem orðið hafa á efnahagsástandinu hér á landi undanfarin ár.

Í júní 2016 bárust ESA tvær kvartanir vegna lagasetningar um eign á aflandskrónum. Kvartanirnar byggðust á því að rök íslenskra stjórnvalda og tilvísun í verndarsjónarmið ættu ekki lengur við í núverandi efnahagsástandi á Íslandi. Niðurstaða ESA í nóvember 2016 var sú að þrátt fyrir að efnahagur íslenska ríkisins hefði styrkst á undanförnum árum teldi stofnunin það ekki fela í sér að greiðslujöfnunarvandi Íslands hafi verið leystur. Því væri enn ekki tryggt að ekki yrði óstöðugleiki í kjölfar afnáms hafta.

Öllum er ljóst að frá árinu 2011 hefur orðið mikill efnahagsbati og markmiðinu um efnahagslegan stöðugleika hefur verið náð. Lagasetning sem sett er undir ákveðnum kringumstæðum getur gengið of langt ef aðstæður breytast. Vonandi ber íslenska ríkið gæfu til að aflétta höftum áður en það verður of seint.