Fimmtíu Glódís Perla Viggósdóttir hefur nú leikið fimmtíu landsleiki þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul.
Fimmtíu Glódís Perla Viggósdóttir hefur nú leikið fimmtíu landsleiki þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul. — Morgunblaðið/Eggert
Algarve Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafnaði í 9. sæti í Algarve-bikarnum þetta árið, í sinni þrettándu heimsókn á þetta sterka, árlega mót í Portúgal. Ísland vann Kína 2:1 í bráðfjörugum leik um 9.

Algarve

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hafnaði í 9. sæti í Algarve-bikarnum þetta árið, í sinni þrettándu heimsókn á þetta sterka, árlega mót í Portúgal. Ísland vann Kína 2:1 í bráðfjörugum leik um 9. sætið, eftir að hafa endað í 3. sæti í sínum riðli.

Ísland, sem þrívegis hefur unnið til verðlauna í Algarve-bikarnum, hefur aðeins einu sinni endað neðar á mótinu en það var fyrir tveimur árum. Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hafði enda gefið það skýrt til kynna fyrir mótið, og á meðan á því stóð, að úrslit leikja og endanleg niðurstaða um sæti skipti nákvæmlega engu máli að þessu sinni. Hann og leikmenn eru fyrir löngu farin að horfa til Evrópumótsins í Hollandi í júlí og leikirnir fjórir í Portúgal voru nýttir til þess að skoða nýjar leikaðferðir, nýjar áherslur og nýja leikmenn. Óhætt er að ætla að Freyr haldi heimleiðis með fullt fang af upplýsingum sem hann mun vinna úr á næstu vikum og mánuðum, nú þegar aðeins rúmir fjórir mánuðir eru í að Ísland mæti Frakklandi í fyrsta leik sínum á EM.

Fyrri hálfleikur gegn Kína í gær var mjög opinn, og hið sama má segja um varnarleik íslenska liðsins. Kínverjar fengu urmul góðra færa og gátu ítrekað fundið leiðir í gegnum illa verndaða, miðja vörn íslenska liðsins. Það var hins vegar Ísland sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir hornspyrnu Thelmu Bjarkar. Guðmunda, sem var mjög lífleg á hægri kantinum, hafði náð í hornspyrnuna og hún skallaði boltann áfram eftir spyrnuna, á Málfríði við fjærstöng. Hún virtist ætla að skora sitt fyrsta landsliðsmark en Sigríður Lára átti síðustu snertinguna, á marklínu, og skoraði þar með sitt fyrsta landsliðsmark. Í Algarve-bikarnum hefur Sigríður Lára fengið að spila sína fyrstu leiki með aðallandsliðshópnum og fengið nasaþefinn af því hvernig yrði að fara með á EM.

Kínverjar sköpuðu sér eins og fyrr segir góð færi, en fengu líka nokkur á silfurfati eins og þegar Wang Shanshan skoraði auðveldlega, eftir sjaldséð en hryllileg mistök Glódísar í hennar 50. landsleik. Þessi magnaði miðvörður hefur varla stigið feilspor í landsliðstreyjunni en gerði það í gær og samvinna þeirra Önnu Bjarkar hefur oftast litið betur út en í fyrri hálfleiknum.

Ísland fékk óskabyrjun í seinni hálfleik og þá skoraði Málfríður svo sannarlega mark. Hún var aftur á hárréttum stað á fjærstöng og skoraði eftir hornspyrnu Margrétar Láru. Varnarleikur íslenska liðsins var mun þéttari og betri í seinni hálfleiknum en Kína fékk þó tvö mjög góð færi og endaði annað þeirra með stangarskoti, korteri fyrir leikslok. Jafnræði var með liðunum á lokakaflanum og Ísland tryggði sér sigur.

Hver mínúta í leikjum þessa árs er dýrmæt í baráttunni um sæti í EM-hópnum í sumar. Guðmunda, sem var óvænt kölluð inn í hópinn þegar Sandra María Jessen meiddist í síðustu viku, átti góðan leik og sýndi að þrátt fyrir að hafa sjálf verið meidd mestallt síðasta sumar getur hún plumað sig vel í þessu liði. Málfríður Erna átti stærstan þátt í báðum mörkum liðsins og Elín Metta átti frísklega innkomu í sóknina þegar hálftími lifði leiks. Vandinn sem fylgir brotthvarfi Hörpu Þorsteinsdóttur virðist hins vegar standa óleystur. Ísland getur skorað mörk eftir föst leikatriði og skapaði sér mörg færi í gær, en þau þarf að nýta.