Góð ávöxtun Uppboðsgestir við málverk Peters Doig sem var selt fyrir metfé.
Góð ávöxtun Uppboðsgestir við málverk Peters Doig sem var selt fyrir metfé. — AFP
Metverð fékkst á uppboði Christie's á samtímamyndlist fyrir málverk eftir kanadíska listmálarann Peter Doig, þegar tveggja og hálfs metra breitt málverk hans „Coburg 3 +1 More“ frá árinu 1994 var slegið hæstbjóðanda fyrir nær 1,7 milljarða...

Metverð fékkst á uppboði Christie's á samtímamyndlist fyrir málverk eftir kanadíska listmálarann Peter Doig, þegar tveggja og hálfs metra breitt málverk hans „Coburg 3 +1 More“ frá árinu 1994 var slegið hæstbjóðanda fyrir nær 1,7 milljarða króna. Doig er einn vinsælasti myndlistarmaður samtímans. Hollenskt tryggingafélag keypti málverkið upphaflega, árið sem hann málaði það, fyrir tíu þúsund pund, 1,3 milljónir króna að núvirði, og hefur því ávaxtað fé sitt vel.

Hátt verð hefur fengist fyrir fjölda verka á uppboðum stóru uppboðshúsanna á samtímalist undanfarna daga. Til að mynda voru slegin met fyrir verk eftir sjö listamenn á uppboði Christie's. Auk verks Doig voru það myndverk eftir Cecily Brown, Njideka Akunyili Crosby, Carol Rama, Henry Taylor, Wolfgang Tillmans og Günther Uecker. Hins vegar féllu verk eftir aðra listamenn í verði og mesta athygli vakti að málverk eftir Mark Rothko, sem rússneski milljarðamæringurinn Dmitry Rybolovlev keypti fyrir 36 milljónir dala árið 2008, var nú selt aftur fyrir „aðeins“ 13 milljónir dala, um 1,4 milljarð króna.