Kvískerjabörn Ragnar Axelsson og Laufey Helgadóttir synda í Kvískerjalæknum. Börnin undu sér vel og höfðu nóg að gera í sveitinni.
Kvískerjabörn Ragnar Axelsson og Laufey Helgadóttir synda í Kvískerjalæknum. Börnin undu sér vel og höfðu nóg að gera í sveitinni. — Ljósmynd/Helgi Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laufey Helgadóttir, ljósmóðir á Smyrlabjörgum, var barn á Hornafirði þegar hún kynntist Sigurði Björnssyni á Kvískerjum. Hann kom tvisvar í viku í heimsókn til ömmu hennar og afa í Odda á Hornafirði. Síðar fór Laufey í sveit að Kvískerjum.

„Sigurður náði í póstinn á Höfn og fór með hann út á Fagurhólsmýri þar sem hann var lesinn í sundur og síðan dreift á bæina í Öræfum. Móðir Kvískerjasystkina, Þrúður Aradóttir, var systir afa míns Hálfdans Arasonar frá Fagurhólsmýri.

Samhent systkini

Ég var svo heppin að vera sex sumur á Kvískerjum. Það hafði mikil áhrif á mig að kynnast þeim, Flosi sem var elstur var mikill fræðimaður, hann dundaði við að læra, þýsku, dönsku,ensku og frönsku og notaði orðabækur á þessum tungumálum. Hann virtist alveg geta talað þessi tungumál, því oft hlustaði ég á hann þar sem hann var að tala við ferðamenn sem þangað komu og eins erlenda jarðfræðinema sem dvöldu með kennurum sínum á Breiðamerkursandi í tjöldum. Flosi skráði niður og fylgdist náið með hvernig skriðjöklarnir höguðu sér. Hann var alvörugefinn en hafði gaman af uppátækjum okkar barnanna.

Ari var þriðji í röðinni og hann var bóndinn á bænum, sá um féð og hafði gaman af því. Ari var glaðlegur og alltaf brosandi. Sigurður var með póstferðirnar og grúskaði mikið í sögunni. Eftir hann liggur mikið sögusafn um strand togara og hvernig þeir voru nýttir innan sveitarinnar. Hann var eins með vatnsmælingar á Fjallsá. Sigurður lét ekkert frá sér fara nema vera hárviss um að dagsetningar og ártöl væru rétt. Hann var alvörugefinn en samt glettin og gott að vinna með honum.

Guðrún eldri var ákaflega skemmtileg kona og hafði gaman af að ferðast um landið. Hún var hlédræg og hafði sig ekki í frammi. Guðrún yngri, alltaf kölluð Rúna, gekk rösklega til verks og var mjög skipulögð og hafði gaman af handavinnu. Þær systur sáu um heimilið og þvotta, og mjólkuðu kýrnar, þær voru samrýndar. Heimilishaldið hvíldi samt alltaf meira á henni Rúnu minni.

Helgi sem var næstyngstur var mikill smiður og hönnuður, hann var duglegur að hanna og smíða fyrir þær systur sínar ýmsa hluti sem létt gætu þeim störfin. Hann hafði t.d. tengt mótor við skilvinduna og strokkinn svo þær þyrftu ekki að handsnúa. Hann bjó til allskonar skálar og diska og margt fleira sem eftir hann liggur. Hann skar út í tré og ófáar stundirnar var hann við rennibekkinn að renna einhverja fallega og nytsamlega hluti. Helgi var afar þolinmóður og sérlega skapgóður enda löðuðust öll börn að honum.

Hálfdán var mikill náttúrufræðingur og eftir hann liggur stærsta skordýrasafn í einkaeigu. Hann var alltaf að finna allskonar flugur, bjöllur, fiðrildi, egg, blóm, fugla og bara allt sem náttúran hafði upp á að bjóða. Hálfdán var sporléttur, glaðsinna og mikill verkmaður.

Fjallgöngur á sunnudögum

Helgi og Hálfdán voru sérlega duglegir að fara á sunnudögum í fjallgöngur að skoða eitthvað. Að fara með þeim, en það fengum við börnin alltaf, var eins og að vera í skóla, endalaus fróðleikur. Kenna manni öll fuglahljóð og nöfn á öllum fuglum, hvað blómin, fiðrildin og flugurnar hétu. Kenna manni allt sem var í kringum mann á hverjum tíma. Ég fékk ekki að fara á dráttarvél fyrr en búið var að kenna mér mjög vel.

Þetta var háskóli lífs míns. Þessi endalausi fróðleikur og æðruleysi hjá öllum systkinunum; að taka því sem að höndum bar og gera alltaf gott úr öllum hlutum.

Maður fékk að leika sér, taka þátt í allri vinnu, sauðburði, heyskap, selveiði, göngum, mála, smíða, vaska upp. Það var alltaf talað við mann eins og fullorðinn og spurningar eins og: „Hvernig líst þér á veðrið næsta sólarhringinn?“ Þá fór maður að fylgjast með veðurfréttunum.

Það var alltaf spennandi að fara á fjöru en þá fórum við á dráttarvél sem var á flugvéladekkjum og ókum um alla fjöruna og hirtum allt sem nýtanlegt fannst og eins til að halda fjörunni hreinni. Lifað á landinu. Þau systkinin báru mikla virðingu hvert fyrir öðru og sýndu mikinn skilning á allri þessari fróðleiksfýsn hvert annars. Þau voru öll svo hjartahlý og þakklát fyrir lífið. Ég hefði ekki viljað missa af þessum skóla lífsins. Ég er sannfærð um að hann gerði mann sterkari til að takast á við lífið í allri sinni mynd.