Stefnt er að opnun Moss hotel sem stendur við Bláa lónið næsta vetur.
Stefnt er að opnun Moss hotel sem stendur við Bláa lónið næsta vetur. — Mynd/Bláa Lónið
Ferðaþjónusta Í aðdraganda þess að Bláa lónið opnar í haust nýtt upplifunarsvæði, hótel og veitingastaði verður ráðið í 165 ný störf í tengslum við uppbygginguna.

Ferðaþjónusta Í aðdraganda þess að Bláa lónið opnar í haust nýtt upplifunarsvæði, hótel og veitingastaði verður ráðið í 165 ný störf í tengslum við uppbygginguna.

„Við finnum fyrir miklum áhuga á störfum í Bláa lóninu,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins. „Við búumst því viðað þetta muni ganga vel. Þó eru sum störf sem eru svo sérhæfð að leita gæti þurft út fyrir landsteinana eftir starfsfólki. Við erum byrjuð að ráða inn fólk og hefja þjálfun þess í tiltekin störf. Þessi hópur sem nú stendur til að ráða slæst í hóp 570 starfsmanna fyrirtækisins og við munum leggja áherslu á að nýráðnir starfsmenn vinni að verkefnum með þeim sem reynslumeiri eru.“

Dagný segir að styttast fari í opnunina. „Við ráðgerum að opna upplifunarsvæðið síðla sumars eða byrjun hausts og svo hótelið næsta vetur.“

Dagný segir framkvæmdir vel á veg komnar og verkefnið sé á áætlun. „Þessi vetur hefur fram til þessa verið góður til framkvæmda, þannig að við erum á áætlun.“

Nafn hótelsins er dregið af umhverfi þess og er Moss Hotel. Sama er að segja um heilsulind hótelsins, sem mun heita Lava Cove. Þá verður nýr veitingastaður, Moss restaurant, starfræktur á hótelinu.

„Opnun nýja upplifunarsvæðisins og hótelsins er mikilvægur áfangi í starfsemi Bláa lónins. Með þessu erum við að þróa og breikka starfsemina. Lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum byggir á einstakri náttúru Bláa lónsins og einlægum vilja starfsfólks okkar til að veita gestum góða þjónustu og skapa ógleymanlegar minningar.“

jonth@mbl.is