Salbjörg Olga Þorbergsdóttir fæddist 8. febrúar 1933. Hún lést 31. janúar 2017.

Útförin fór fram 11. febrúar 2017.

Það var þungt að stíga þau spor þegar elskuleg tengdamóðir og vinur, hún Salbjörg, var borin til grafar í Súðavíkurkirkju hinn 11. febrúar sl. Kynni okkar og fjölskyldu hennar hófust árið 2003 þegar Hafdís dóttir hennar og Geira tengdaföður kynnti mig fyrir þeim. Eftir að við Hafdís rugluðum saman reytum þá var ég strax talinn einn af fjölskyldumeðlimum og hvergi var slegið af í ástúðinni og kærleikanum, sem ég naut allt til síðasta dags.

Fljótlega fékk ég mikla matarást á Söllu eins og hún var ævinlega kölluð. Hún var algjör snillingur í matargerð og var jafnan á borð borinn matur gerður úr íslenskum afurðum. Hvort sem afurðin kom úr hafinu eða fjárhúsunum hjá Eiríki frænda þá varð úr þessu veislumatur. Fiskibollurnar hennar voru þær allra bestu í heimi og þótt víðar væri leitað og stóðust fyllilega samanburð við mat veislukokka.

Á hverju hausti var alltaf sláturtíð hjá Söllu, þar sem unnið var úr afurðum sláturlamba er henni bárust. Þá var tekið til við sláturgerð, gerðar rúllupylsur sem auðvitað voru á heimsklassa og margt annað góðæti þar til ekki var kjöttutla eftir. Þrátt fyrir að Salla gengi ekki heil til skógar síðastliðið haust hélt hún uppteknum hætti.

Þegar leið mín lá í Hlíðargötuna þá var ekki um annað að ræða en að þiggja kaffi og með því. Viðkvæðið var alltaf komdu inn fyrir og settu þig, hvað liggur svo sem á? Síðan var hellt upp á könnuna og meðlæti borið á borð. Síðan var spjallað um heima og geima, m.a. ræddum við talsvert ættfræði sem henni var mjög hugleikin ásamt ýmsum öðrum málefnum frá liðinni tíð.

Gestakomur voru mjög tíðar í Hlíðargötuna, þá var öllum bæði háum og lágum tekið opnum örmum. Skemmtilegast fannst henni þó þegar barnabörnin birtust en þá varð kátt í höllinni, en hún hafði mikið dálæti á þeim. Mikil gleði ríkti þegar langömmubörnin komu í heimsókn sem ekki var óalgengt. Þá geislaði hún af gleði yfir öllu ríkidæminu. Oft kom sér þá vel að eiga íspinna í frystinum til að gleðja litlu skinnin sem brostu út að eyrum.

Það er ótal margt sem kemur upp í hugann þegar þessi yndislega kona er nefnd á nafn. Mér er mjög minnisstætt þegar við Hafdís fórum með þau hjónin í ferðalög. Þakklætið og ánægjan sem sýnd var er ógleymanleg hvort sem farið var á ókunnar eða þekktar slóðir og þær oftar en ekki rifjaðar upp síðar meir.

Að lokum vil ég þakka þér, kæra tengdamóðir, fyrir þá vegferð er við áttum, sem varð því miður allt of stutt. Það er svo margt sem við áttum eftir að ræða um en verður að bíða þess tíma er við hittumst á ný.

Geira tengdaföður mínum, sem nú hefur kvatt ástkæran lífsförunaut, votta ég mína dýpstu samúð, svo og öllum aðstandendum hans.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Valgeir Rúnar Hauksson.