Brjálað að gera Kjartan Ásbjörnsson bakari ásamt Ingólfi Péturssyni.
Brjálað að gera Kjartan Ásbjörnsson bakari ásamt Ingólfi Péturssyni.
Ikea á Íslandi opnaði í febrúar bakarí í anddyri verslunarinnar en áður hafði allur bakstur fyrir veitingastað Ikea farið fram í bakvinnslu. Bakaríið fellur vel í kramið hjá viðskiptavinum en bakarar verslunarinnar hafa vart undan.

„Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar og það stoppar nánast annar hver maður við glerið,“ segir Ingólfur Pétursson, veitingastjóri Ikea á Íslandi. Bakaríið er í anddyri verslunarinnar en gler skilur eldhúsið að svo gestir geta horft á bakarana að störfum. „Við erum bæði að framleiða fyrir veitingastaðinn, allt pítsudeigið sem við seljum og allt fyrir kaffihúsið. Þar að auki seljum við yfir 300 brauð á dag en við erum með 5 tegundir af brauði, þar af tvær súrdeigstegundir og svo brauð dagsins. Brauðin kosta öll 395 krónur. Þetta er kynningaverð en mun ekki hækka mikið,“ segir Ingólfur en einnig eru bakaðir ástapungar, kleinur og pítsadeigið vinsæla sem selt hefur verið í Ikea um árabil.

Aðspurður hvort þetta sé ekki ódýrasta súrdeigsbrauð á landinu svara Ingólfur. „Mig langar að segja já en ég get ekki fullyrt það. Ég hef allavega ekki séð þau ódýrari svo við erum vissulega með þeim allra ódýrustu.“ Afgreiðslutími bakarísins er sá sami og verslunarinnar – allavega á meðan eitthvað er enn eftir til að selja. tobba@mbl.is