Starfsmönnum NLS hér á landi fjölgar ört og nýjum samningum sömuleiðis.
Starfsmönnum NLS hér á landi fjölgar ört og nýjum samningum sömuleiðis.
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Eftir kaup á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Betware ákvað stórfyrirtækið Novomatic að halda áfram þróun lotterílausna hér á landi og hefur fjöldi starfsfólks nær tvöfaldast síðan.

Hugbúnaðarfyrirtækið Novomatic Lottery Solutions (NLS), áður Betware, hefur nær tvöfaldað starfsmannafjölda sinn hér á Íslandi frá því árið 2013 þegar 70 manns unnu hjá félaginu. Það sama ár var fyrirtækið selt til austurrísku Novomatic-fyrirtækjasamsteypunnar.

NLS sérhæfir sig í viðskiptalausnum fyrir ríkislotterí. 125 manns starfa nú hjá NLS á Íslandi, en alls starfa um 380 manns hjá NLS. 29.000 manns starfa hjá móðurfyrirtækinu.

Gauti Guðmundsson, framkvæmdastjóri NLS á Íslandi, segir að vel hafi gengið að ráða starfsmenn hér á landi, þrátt fyrir að mikil eftirspurn sé eftir tölvumenntuðu fólki á markaðnum. Boðið sé upp á gott starfsumhverfi þar sem unnið er í teymum samkvæmt Agile-aðferðafræði, og það hugnist fólki vel.

Ennfremur hafi móðurfyrirtækið ákveðið að halda starfsemi hér á landi til framtíðar þar sem mikil þekking og reynsla búi í íslensku starfsstöðinni.

Nýir samningar opna dyr

NLS skrifaði nýverið undir nýja samninga við fimmta stærsta lotteríið í Evrópu, gríska fyrirtækið OPAP, sem selur lottóleiki og getraunir þar í landi. Þá samdi NLS nýverið við eistneska ríkislotteríið, Eesti Loto, og í vikunni skrifaði síðan NLS undir samning til þriggja ára við norska lottóið, Norsk Tipping. „Þetta eru stórir samningar sem munu opna fleiri dyr fyrir okkur í þessum bransa í framhaldinu. Það eru fá fyrirtæki í okkar geira sem eru mjög stór en við erum svo sannarlega byrjuð að narta í hælana á þessum fáu stóru. Það eru næg verkefni framundan næstu árin. Það er allt á uppleið hjá NLS,“ sagði Gauti.