Forritið Það getur verið auðvelt að falla í þá gryfju að skrifa of langa tölvupósta.

Forritið

Það getur verið auðvelt að falla í þá gryfju að skrifa of langa tölvupósta. Kannski var ætlunin bara að vera skýr, og láta ekkert fara milli mála, en raunin er að því lengri sem tölvupóstarnir verða, þeim mun hættara er við að eitthvað fari framhjá viðtakandanum. Fáir hafa jú tíma til að lesa alla pósta gaumgæfilega og láta duga að skima í hvelli það sem birtist í inn-boxinu.

TinyMails er ný viðbót við Chrome-vafrann sem á að hjálpa notandanum að skrifa stutta og skýra tölvupósta.

Stundum eru það einföldu lausnirnar sem reynast best, og forritin gerast varla einfaldari en TinyMails. Það sem þessi vafraviðbót gerir er einfaldlega að bæta við orðateljara í Gmail. Teljarinn sýnir bæði hversu mörg orð hafa verið skrifuð og áætlar hversu langan tíma mun taka viðtakandann að lesa tölvupóstinn.

Höfundur TinyMails vonast til að orðateljarinn dugi til að minna notandann á gildi þess að nota færri orð frekar en fleiri, og komi í veg fyrir að skeyti sem eiga að geta verið stutt og hnitmiðuð verði að langlokum sem kosta bæði sendandann og viðtakandann dýrmætan tíma. ai@mbl.is