Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að á næstu tíu árum verði lögð áhersla á að þróa gervigreind fyrir vélarnar til að bæta vinnsluferlið.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að á næstu tíu árum verði lögð áhersla á að þróa gervigreind fyrir vélarnar til að bæta vinnsluferlið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg.
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Stjórnendur Marels stefna á að þrefalda tekjur fyrirtækisins á þremur árum án þess að fara í hlutafjárútboð.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, kynnti á síðasta aðalfundi að stefnt væri að því að félagið muni vaxa um 12% að meðaltali á ári á næstu tíu árum. Það merkir að á tímabilinu muni tekjur félagsins þrefaldast. Gert er ráð fyrir að vöxtur markaðar verði 4-6% á ári og stefnir Marel að því að vaxa með innri vexti áfram hraðar en markaðurinn, drifið áfram af nýsköpun og markaðssókn. Að auki hyggst félagið vaxa með yfirtökum um 5-7% að meðaltali á ári.

Árni Oddur áréttar í samtali við ViðskiptaMoggann að vöxturinn verði ekki línulegur. Lýsandi fyrir það sé að innri vöxtur nam 3% í fyrra en 15% árið áður. Jafnframt geti liðið einhver ár þar til ráðist verði í frekari yfirtökur. Aðspurður segir hann að það liggi fyrir til hvaða fyrirtækja sé horft en að tíminn verði hins vegar að leiða í ljós hvort eigendur félaganna hafi áhuga á að selja eða sameinast Marel. „Við verðum á sama tíma að tryggja að verið sé að borga réttmætt verð fyrir fyrirtækin. Ef verðlag verður of hátt, munum við bíða og greiða hluthöfunum arð,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann lætur þess getið, að gert sé ráð fyrir að fjármagna ytri vöxt upp á 5-7% á ári með sjóðstreymi að mestu en ekki hlutafjárútboðum. Sjóðstreymi Marels sé það sterkt að það dugi til að fjárfesta í innviðum sem og rannsóknum og þróun, auk þess að leggja grunn að 4-6% innri vexti og styðja við 5-7% vöxt með yfirtökum. Meginmálið sé að koma með réttu lausnirnir fyrir viðskiptavini og viðhalda góðum rekstri og sterku sjóðstreymi til að styðja við áframhaldandi vöxt.

Sjö milljarðar í rannsóknir

„Á meðan spurn eftir dýrapróteini eykst um 2% á ári er þörfin fyrir sjálfvirknivæðingu, betri nýtingu, meiri rekjanleika og meira öryggi að aukast hratt, sem veldur því að spurn eftir hátæknibúnaði til matvælaframleiðslu er um 4-6% á ári,“ segir Árni Oddur. „Við verðum að einblína á leiðir til að tryggja að hágæða matvæli séu framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Því er nauðsynlegt að fjárfesta í nýsköpun en Marel leggi 6% af tekjum í það starf, eða sem nam um 60 milljónum evra á síðasta ári, jafnvirði sjö milljarða króna. Við fjárfestum fyrir hærri fjárhæðir í nýsköpun en næsti keppinautur og höfum öflugt sölu- og þjónustunet í yfir 30 löndum. Af þeim sökum er fyrirtækið í stakk búið til að vaxa hraðar en markaðurinn,“ segir hann.

Marel þróar og framleiðir búnað til vinnslu á kjúklingi, fiski og kjöti. Auk sölu á tækjabúnaði hefur fyrirtækið umtalsverðar tekjur af sölu á varahlutum og þjónustu. Hlutfall tekna Marels af þjónustu hefur aukist úr 7% árið 2005 í 36% í fyrra. „Á síðustu tíu árum hefur félagið lagt áherslu á að bæta þjónustu við viðskiptavini eftir að sölu lýkur,“ segir Árni Oddur.

Á næstu tíu árum verði lögð áhersla á að þróa gervigreind fyrir vélarnar til að bæta vinnsluferlið. Einnig verður aukin áherslu lögð á að hægt verði að þjónusta og lagfæra tækin í gegnum tölvu frá skrifstofum Marels, í stað þess að þjónustumenn þurfi að leggjast í ferðalög með tilheyrandi kostnaði.

„Við erum í samstarfi við viðskiptavini okkar að umbreyta matvælavinnslu á heimsvísu. Vöxtur í uppsetningu á nýjum verksmiðjum verður mestur á nýmörkuðum eins og Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Á sama tíma er ljóst að viðskiptavinir í Bandaríkjunum og Evrópu eru að stækka og endurnýja verkmiðjur sínar til að auka gæði og matvælaöryggi, þar með stækkar þjónustugrunnurinn enn frekar,“ segir hann.