Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Norður-Kóreumenn til að hætta eldflaugaskotum og kjarnorkutilraunum sínum og lagt til að Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn hætti árlegum heræfingum sínum til að afstýra átökum.

Stjórnvöld í Kína hafa hvatt Norður-Kóreumenn til að hætta eldflaugaskotum og kjarnorkutilraunum sínum og lagt til að Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn hætti árlegum heræfingum sínum til að afstýra átökum.

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, líkti Kóreuríkjunum tveimur við lestir sem stefndu hvor að annarri og ykju hraðann í stað þess að bremsa. „Spurningin er: vilja ríkin í raun og veru lenda í árekstri? Forgangsverkefni okkar er að benda á hættuna og fá báðar lestirnar til að bremsa,“ hefur fréttaveitan AFP eftir utanríkisráðherranum.

Norður-Kóreumenn skutu að minnsta kosti fjórum eldflaugum á loft á mánudaginn var og þrjár þeirra lentu í sjónum innan efnahagslögsögu Japans. Þeir sögðu að markmiðið með eldflaugaskotunum væri að æfa hugsanlega árás á bandarískar herstöðvar í Japan.

Bandaríkjamenn brugðust við eldflaugaskotunum með því að hefjast handa við að koma upp eldflaugavarnakerfi í Suður-Kóreu. Kínverjar hafa áhyggjur af eldflaugavarnakerfinu og Wang sagði að það „græfi undan öryggi Kína“.

Fréttaskýrandi BBC í Peking, John Sudworth, segir það næstum öruggt að tillögur Kínverja nái ekki fram að ganga. Bandaríkjamenn hafi alltaf hafnað kröfu Norður-Kóreumanna um að hætta heræfingunum í Suður-Kóreu og sagt að einræðisstjórnin í Pjongjang hafi ekki rétt til að setja skilyrði fyrir því að virða ályktanir Sameinuðu þjóðanna.