Glatt á hjalla Jón Óttar Ólafsson og Vilhjálmur Þórðarson til hægri skemmta sér vel.
Glatt á hjalla Jón Óttar Ólafsson og Vilhjálmur Þórðarson til hægri skemmta sér vel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SVIÐSLJÓS Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Loftleiðamenn eru tryggir sínu félagi, hvað sem öllum nafnabreytingum líður, og undanfarinn aldarfjórðung hafa þeir hist í kaffi fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði.

SVIÐSLJÓS

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Loftleiðamenn eru tryggir sínu félagi, hvað sem öllum nafnabreytingum líður, og undanfarinn aldarfjórðung hafa þeir hist í kaffi fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði.

Þrír flugmenn; Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson, stofnuðu flugfélagið Loftleiðir 10. mars 1944. Það var í innanlandsflugi fyrstu árin en hóf millilandaflug með flugi til Kaupmannahafnar 1947. Ári síðar fékk félagið starfsleyfi í Bandaríkjunum og hóf þá flug til New York, en 1952 byrjuðu ferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu með millilendingu á Íslandi.

Loftleiðir var í raun fyrsta lággjaldaflugfélagið til að bjóða upp á áætlunarflug á milli Bandaríkjanna og Evrópu, var sérstaklega vinsælt hjá ungu fólki og gjarnan þekkt sem „The Hippie Airline“. Það sameinaðist Flugfélagi Íslands 1973 undir nafninu Flugleiðir sem síðar varð Icelandair, en Loftleiðamenn halda gamla nafninu á lofti með fyrrgreindum hætti.

Verið víða

Félagarnir Svavar Eiríksson flugumsjónarmaður, Gunnar Oddur Sigurðsson stöðvarstjóri, Jón Óskarsson flugumsjónarmaður og Kristinn Stefánsson flugafgreiðslustjóri áttu frumkvæðið að því að starfsmenn Loftleiða fóru að hittast reglulega 1992. Þrír fyrsttöldu eru fallnir frá en Kristinn segir að þeir hafi hringt í fyrrverandi starfsmenn og boðað þá í kaffi til að ræða liðnar stundir. Til að byrja með hafi þeir hist á Hótel Loftleiðum og víðar, en eftir því sem fjölgað hafi í hópnum hafi verið æ erfiðara að fá nógu stórt húsnæði þar til þeir hafi fengið aðstöðu í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð.

Fyrir nokkrum árum bauðst hópnum aðstaða hjá Café Atlanta í Kópavogi og þar hafa mennirnir flaggað Loftleiðafánanum og hist síðan, síðast á fimmtudag í liðinni viku. „Þessi óformlegi klúbbur hefur verið nefndur Aðdáendaklúbbur Loftleiða,“ segir Emil Guðmundsson, fyrrverandi svæðisstjóri, en hann og Örn Engilbertsson, fyrrverandi flugstjóri, sjá um að halda hópnum saman og minna menn á næsta kaffifund með tölvupósti og skilaboðum í síma. „Ég er með um 90 manns á skrá og á janúarfundinn, þegar við fengum Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóra Icelandair, til þess að fræða okkur, mættu 63 manns,“ segir Örn. Þeir leggja áherslu á að allir séu velkomnir og benda á að þótt uppistaðan sé frá Loftleiðum séu nokkrir sem störfuðu hjá FÍ og síðar sameiginlegu félagi eða annars staðar, til dæmis hjá Cargolux. Þeir segja að reglulega fái þeir gesti frá Icelandair til þess að halda þeim upplýstum um gang mála. „Næst förum við að skoða flugherminn,“ segir Emil.

Reynsluboltar

Kaffifundirnir eru vel sóttir og sögur sagðar í bílförmum. „Við höldum þeim fyrir okkur,“ segir Örn. Magnús Norðdahl flugstjóri hefur mætt í kaffið frá byrjun en hann hefur verið nefndur besti listflugmaður landsins. Magnús hefur frá mörgu að segja úr áratugalöngum ferli. „Það er ómögulegt að vera alltaf uppréttur, því þá rennur blóðið úr höfðinu,“ segir hann um listflugið og vísar til þess að í því fljúgi hann mest á hvolfi. „Ég flaug lárétt og beint í áratugi og það var kominn tími til þess að breyta til,“ útskýrir hann nánar, en Magnús, sem verður níræður á næsta ári, hefur flogið frá 1944 og byrjaði hjá Loftleiðum 1947.

Magnús segir gaman að hitta fyrrverandi samstarfsmenn og ræða um heima og geima. „Þetta er Loftleiðahópurinn,“ segir hann. „Aðalatriðið er að hitta menn sem ég vann með. Til hvers erum við annars en að hafa gaman hver af öðrum?“

Dagfinnur Stefánsson, flugstjóri og aldursforsetinn í hópnum, 91 árs, tekur í sama streng. „Ég er alltaf forsetinn, það er að segja aldursforsetinn,“ segir hann. „Það var alltaf góður starfsandi hjá Loftleiðum og það er ágætt að koma saman og rifja upp liðnar stundir,“ heldur hann áfram.

Dagfinnur byrjaði að fljúga 1945, lauk flugnámi í Bandaríkjunum 1946, hóf störf hjá Loftleiðum að námi loknu og starfaði þar og síðar hjá Flugleiðum til starfsloka 1988. Hann hefur flogið mikið síðan og flýgur enn á eigin vél, kominn með rúma 32.000 tíma. Hann segir andann í fimmtudagshópnum eins og í gamla daga. „Siggi Magg [Sigurður Magnússon, upplýsingafulltrúi Loftleiða] orðaði þetta svo skemmtilega þegar hann sagði að þegar hann fór að sofa á kvöldin vissi hann að hann svæfi vel vegna þess að hann hlakkaði svo til þess að fara aftur að vinna morguninn eftir.“