Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Eftir Þorvald Jóhannsson: "Ráðherra tilkynnti einhliða að slökkva ætti ljósin við Dettifoss, Borgarfjörð eystri, Berufjarðarbotn og Hornafjarðarfljót."

Samgöngur, þar með vegirnir, eru æðakerfi landsbyggðarinnar. Greiðfærir og góðir vegir styrkja þau svæði sem farið er um og veita þeim næringu til vaxtar á meðan ófærir eða illa færir vegir hamla allri framþróun og vaxtarmöguleikum þeirra svæða sem þeir ná til. Allmörg smærri pláss á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa í mörg ár barist fyrir tilverurétti sínum; að fá að vera hluti af þessu sameiginlega æðakerfi sem á að næra og fæða alla landshlutana og íbúana sem þar eru. Því miður hafa nokkur þeirra horfið, tærst upp og látið undan þar sem þau gátu ekki beðið lengur. Slík þróun er ekki ásættanleg og má alls ekki verða. Hingað og ekki lengra. Í haust samþykkti Alþingi Íslendinga samgönguáætlun 2017-2020. Samgönguáætlun segir til um áherslur löggjafans um framkvæmdir, m.a. í vegamálum á næstu árum. Samstaða var meiri en oft áður á hæstvirtu Alþingi um þær áherslur sem settar voru inn í áætlunina. Ljós kviknuðu því víða á landsbyggðinni og gleði og væntingar tóku við af doða og sársauka í baráttunni fyrir bráðnauðsynlegar vegaframkvæmdir sem beðið hafa í mörg ár. Á Austurlandi á t.d. langþráður draumur að rætast um að loksins verði hringveginum lokað með varanlegu slitlagi í botni Berufjarðar í ár og því næsta. Borgarfjörður eystri fær byr undir báða vængi með að æðakerfið til þeirra fengi nú þá lagfæringu sem þeir höfðu beðið eftir í áraraðir. Seyðfirðingar þekkja betur en flestir aðrir, með sína Fjarðarheiði, hvernig það er að verjast og berjast, bíða og bíða endalaust og sjá ljósin slokkna aftur og aftur. Þrátt fyrir að vera önnur gátt landsins fyrir ferðafólk inn og út úr landinu frá 1975 hafa þeir nú beðið í fjörutíu ár eftir varanlegri samgöngubót. En nú hefur aftur kviknað ljós. Samgönguáætlunin gerir ráð fyrir fjármagni til að ljúka megi úrvinnslu rannsókna og hönnun jarðganga undir Fjarðarheiði í árslok 2018. Kosningarnar sem í hönd fóru í nóvember sl. og orð frambjóðenda í kjördæminu ýttu enn frekar undir að bjartari tímar væru framundan hvað framkvæmdir þessar varðaði. Enda – bullandi góðæri á Íslandi og stór og mikill afgangur hjá ríkissjóði. Já, það loguðu því víða skært um jólin, miklu lengur en venjulega, ljósin í nokkrum plássum á Austurlandi og Vestfjörðum sem fannst að loksins hefði „góði jólasveinninn“ hlustað og gefið rétt í skóinn. Loksins – loksins.

Eftir áramótin tók við allsögulegt tímabil við stjórnarmyndun í beinni útsendingu fyrir landsmenn. Reynt var þar að máta sem flesta við alla. Frá upphafi lá fyrir að sumir höfðu útlokað aðra og vildu alls ekki leika með hverjum sem var. Þjóðin beið og beið á meðan formennirnir léku sér í mátunarklefanum en komu nær alltaf naktir út. Loksins fæddist ríkisstjórn með eins manns meirihluta. Nú var beðið eftir því hver mundi hljóta ráðherrastól samgöngumála en strax lá fyrir að nýr þingmaður Norðausturkjördæmis settist í stól fjármálaráðherra. Auðvitað voru menn vongóðir um að ljósin myndu áfram loga skært á Austurlandi og Vestfjörðum. Jón Gunnarsson, vörpulegur og ákveðinn þingmaður Suðvesturkjördæmis, settist í stól samgönguráðherra. Þá gerðist það að tilkynnt var að ekki væru til peningar til að standa við ný samþykkta samgönguáætlun og skera þyrfti niður um heila 10 milljarða. Hvernig gat það verið að samgönguáætlun sem samþykkt hafði verið skömmu fyrir jól værir ónýtt, gatslitið og ómerkt plagg eftir jól? Ráðherra Jón G. tilkynnti nú einhliða að slökkva bæri ljósin við Dettifoss, á Borgarfirði eystri, í botni Berufjarðar og við Hornafjarðarfljót Ennfremur á nokkrum verkefnum á Vestfjörðum. Er þetta hægt? Mótmælt var en ráðherra Jón G. sagðist ekki taka mark á mótmælum. Fulltrúar Vestfirðinga hafa þegar lýst því yfir að þeir muni ákveðið kalla eftir leiðréttingu.

Hvað ætli þið að gera, þingmenn góðir í Norðausturkjördæmi? Ætlið þið að láta þetta yfir ykkur og okkur ganga? Munið þið hverju þið lofuðuð og mæltuð fyrir í ferð ykkar um Austurland fyrir kosningar?

Svona gera menn bara alls ekki.

Höfundur er fv. bæjarstjóri Seyðisfirði. brattahlid10@simnet.is