Jón Þórisson jonth@mbl.is Verslun erlendra ferðamanna með tollfrjálsan varning hefur stóraukist á undanförnum árum.

Í nýliðnum janúarmánuði var kortavelta erlendra ferðamanna vegna kaupa þeirra á tollfrjálsum varningi rúmlega 280 milljónir króna. Til samanburðar var veltan um 155 milljónir króna í sama mánuði í fyrra og tæplega 104 milljónir í janúar 2014. Þessar tölur má finna í gögnum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Einkum er um að ræða viðskipti í Fríhöfninni í Keflavík en einnig öðrum fríhöfnum, þó að margfalt minni séu. Er flokkunin byggð á skráningu söluaðila.

Aukningin í janúarmánuði frá 2014 til janúar 2017 er 2,7 föld.

Heildarviðskipti af þessum toga árið 2014 voru tæplega 2,1 milljarður króna. Árið 2015 voru heildarviðskiptin rúmlega 2,5 milljarðar og í fyrra nam þessi tala tæplega 4,2 milljörðum. Endurspeglar þessi aukning í viðskiptunum þann vöxt sem hefur verið í komu ferðamanna til landsins, en einnig fjölda þeirra sem viðkomu hafa í Flugstöðinni á leið sinni áfram, án þess að fara inn í landið.

Veltumestu mánuðirnir þessi ár frá 2014 eru sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst, eins og við er að búast. Sé til þess litið hversu margfalt meðaltal þeirra þriggja mánaða er miðað við meðaltal annarra mánaða ársins, kemur í ljós hin kröftuga árstíðasveifla sem lengi hefur einkennt íslenska ferðaþjónustu. Hins vegar verður að hafa í huga í því sambandi að óvíst er hve stóran hlut veltunnar má rekja til þeirra sem aðeins koma við í Leifsstöð en fara ekki inn í landið.