[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða eru um 3.500 milljarðar króna. Yfir sjóðunum eru stjórnir sem marka stefnu þeirra og ráða til starfa þá einstaklinga sem stýra þeim dag frá degi.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða eru um 3.500 milljarðar króna. Yfir sjóðunum eru stjórnir sem marka stefnu þeirra og ráða til starfa þá einstaklinga sem stýra þeim dag frá degi. Fyrir liggur að þær muni flestar þurfa að taka afstöðu til þess hvort sjóðirnir verði kjölfestufjárfestar í Arion banka á komandi misserum. Fleiri slíkar ákvarðanir hafa lent á borði þeirra á síðustu árum og víst er að umsvif sjóðanna kalla á margar ákvarðanir sem reynst geta afdrifaríkar fyrir viðgang sjóðanna.

Á Íslandi eru starfandi 24 lífeyrissjóðir. 19 þeirra eiga hver um sig hreina eign sem er hærri en 20 milljarðar. Stærðarmunurinn á sjóðunum er gríðarlegur og er stærsti sjóðurinn, í hópi þeirra 19, meira en þrjátíufalt stærri en sá minnsti. Á nýliðnu ári gerðist það í fyrsta sinn að hrein eign eins lífeyrissjóðs fór yfir 600 milljarða króna. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans nam hrein eign lífeyrissjóðanna allra ríflega 3.500 milljörðum króna í desember síðastliðnum. Þótt sjóðirnir séu sjálfstæðir hver frá öðrum og hagi fjárfestingarstefnu sinni með ólíkum hætti innbyrðis þá er gjarnan litið á þá sem eina heild og sannarlega má í mörgum tilvikum finna ákveðna samsvörun í hegðun þeirra á markaði. Þannig ákváðu þeir allir að hafna aðkomu að fjarskiptafélaginu Nova þegar hluti þess var boðinn til sölu um nýliðin áramót og þá hafa þeir átt ákveðið samráð um mögulega aðkomu að eignarhaldsbreytingum á Arion banka sem fyrir dyrum standa. Margir þeirra fjárfesta í sömu skráðu félögunum á markaði og þeir eiga aðkomu að mörgum fjárfestingasjóðum en sá umtalaðasti af þeim er án efa Framtakssjóður Íslands sem á síðustu árum hefur komið að endurskipulagningu og endurreisn margra þekktra fyrirtækja.

Fækkað hefur í hópi sjóðanna

Í þessari fréttaskýringu verður mynd brugðið upp af stjórnunum 19 og þeim fjölbreytta hópi sem skipar sætin kringum stjórnarborðin. Er hún endurtekinn leikur því 23. apríl 2015 var sambærileg fréttaskýring birt á sama vettvangi. Frá þeim tíma hefur nokkur breyting orðið á kerfinu, meðal annars með sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa en með henni varð til fjórði stærsti sjóður landsins með vel yfir 300 milljarða í hreina eign. Er það nýjasta vendingin í þróun sem leitt hefur til mikillar fækkunar lífeyrissjóða í landinu á síðustu árum. Árið 2013 fækkaði þeim um 5 og í byrjun árs 2015 fækkaði þeim um einn. Líkt og áður sagði eru sjóðirnir 24 talsins í dag en til samanburðar voru þeir hvorki meira né minna en 96 árið 1980 og því hefur þeim á tæpum fjórum áratugum fækkað um 75%.

Kynjahlutfallið versnar

Af stjórnarsætunum 118 eru 63 þeirra vermd af körlum eða rúm 53%. Konur skipa 47% sætanna eða 55 talsins. Og þótt munurinn milli hópanna tveggja sé ekki hrópandi þá hefur það versnað til muna frá árinu 2015. Þannig voru 119 stjórnarsæti í 19 stærstu sjóðunum fyrir tveimur árum og var kynjahlutfallið eins jafnt og hugsast gat, 59 konur og 60 karlar.

Í átta stjórnum stendur fjöldi stjórnarmanna á oddatölu. Í öllum þeim eru fleiri karlar sitjandi að einum undanskildum, Lífeyrissjóði bænda og er það því um leið eini sjóðurinn sem hefur á að skipa konum í meirihluta. Hins vegar er sú staða uppi í einum af sjóðunum sjö þar sem karlar eru í meirihluta að 6 karlar og aðeins 4 konur sitja. Það er í Birtu, sjóðnum sem myndaður var úr Sameinaða lífeyrissjóðnum og Stöfum. Þar er reyndar um tímabundna ráðstöfun að ræða þar sem ákveðið var að fyrstu misserin yrði stjórn sameinaðs sjóðs skipuð 10 aðalmönnum, þeim hinum sömu og skipuðu stjórnir fyrirrennara Birtu. Vænta má þess að það hlutfall muni réttast af, næst þegar skipað verður í stjórn sjóðsins.

Þá er einnig forvitnilegt að sjá að jafnt meðalaldur og meðalstarfsaldur kynjanna er æði misjafn. Þannig er meðalaldur þeirra kvenna sem í stjórnunum sitja 52 ár en karlanna 56 ár. Þá er meðalstarfsaldur kvennanna um 5 ár en karlanna tæp 8 ár. Munurinn milli kynjanna hefur í þessu tilliti minnkað frá árinu 2015. Þannig hefur meðalaldur karlanna, sökum endurnýjunar, staðið í stað og er sem fyrr í kringum 56 ár en meðalaldur í hópi kvenna hefur hækkað um tvö ár, úr 50 árum í 52. Þá hefur meðalstarfaldur karlanna hækkað um 1,2 ár en kvennanna um 1,6 ár og því hefur bilið milli hópanna tveggja styst um nær hálft ár á tveimur árum.

Árið 2015 voru aðeins þrjár konur í sæti stjórnarformanns í sjóðunum 19. Það hlutfall hefur skánað og nú eru þær fimm talsins eða ríflega 26%. Hins vegar verður að taka inn í reikninginn að konur skipa formennsku í þremur langstærstu sjóðunum. Þannig er Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Þórveig Kristín Þormóðsdóttir, stjórnarformaður LSR og Harpa Ólafsdóttir stjórnarformaður Gildis. Samanlagt eru sjóðirnir þrír með um helming allra eigna lífeyriskerfisins í sinni vörslu.

Stjórnarlaunin hækka en mismikið þó

Stjórnarlaun í lífeyrissjóðum hafa gjarnan verið milli tannanna á fólki og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Ekki verður því þó haldið fram með sterkum rökum að launin séu há, alltént ekki þegar borin eru saman laun stjórnarmanna í lífeyrissjóðum og skráðum fyrirtækjum í Kauphöll Íslands. Þannig eru stjórnarlaun í stærstu lífeyrissjóðum landsins aðeins helmingur af því sem gengur og gerist hjá hinum skráðu félögum, jafnvel þrátt fyrir það að umfang sjóðanna sé margfalt það sem gengur og gerist í Kauphöll. Þótt samanburður milli sjóðanna og fyrirtækjanna sé á margan hátt ósanngjarn og ómarktækur má þó geta þess að verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll, Marel, er metið á um 230 milljarða króna. Það rétt um 38% af heildarvirði eigna Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Ekki er beint samhengi milli stærðar lífeyrissjóðanna innbyrðis og þeirra stjórnarlauna sem þeir greiða. Þannig eru hæstu stjórnarlaunin greidd til meðstjórnenda í Eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna eða rúmar 181 þúsund krónur á mánuði. Verður það að teljast nokkuð sérstakt að þar séu stjórnarlaunin hærri en í sjóðum á borð við LIVE, LSR og Gildi enda Eftirlaunasjóðurinn aðeins 16 stærsti sjóðurinn með um 30 milljarða í hreina eign, einn tuttugasta af því sem stærstu sjóðirnir hafa. Þó verður að taka fram að stjórnarlaun í Eftirlaunasjóðnum fara eftir því hvort um sé að ræða fulltrúa launþega eða launagreiðenda. Fulltrúar síðarnefnda hópsins eru ekki hálfdrættingar á við fulltrúa launþega.

Næsthæstu stjórnarlaunin eru hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem meðstjórnendur fá greiddar ríflega 158 þúsund krónur á mánuði. Þar gildir, ólíkt því sem er hjá Eftirlaunasjóði FÍA, að stjórnarformaður sjóðsins er með tvöföld laun meðstjórnenda. Er sú regla almennt viðtekin innan sjóðanna. Af þeim sökum er stjórnarformaður LSR sá hæst launaði af formönnum á vettvangi sjóðanna. Þiggur hann tæpar 320 þúsund krónur á mánuði fyrir sín störf. Þar á eftir koma meðstjórnendur og stjórnarformaður LIVE, stærsta sjóðs landsins en þar eru launin 151 þúsund krónur fyrir meðstjórnendur og 302 þúsund krónur fyrir stjórnarformanninn.

Forvitnilegt er að líta til launaþróunar stjórnanna frá árinu 2015. Hástökkvarinn í þeim efnum er Frjálsi lífeyrissjóðurinn en þar hafa stjórnarlaunin hækkað um tæp 54% á tveimur árum. Eru þau núna 150 þúsund krónur á mánuði en námu 97.500 kónum árið fyrir tveimur árum. Sama gildir um stjórnarformanninn sem hefur hækkað um ríflega 50% á tímabilinu. Næstmest er hækkunin hjá LSR. Þar hafa stjórnarlaunin hækkað um tæp 37% en víðast hvar liggur hækkunin á bilinu 3 til 20%.

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar innan kerfisins sem blaðamaður hefur rætt við segja allir að stjórnarlaunin séu ekki til að hrópa húrra yfir og að það sé ekki sjálfgefið að fólk gefi sig í störf á vettvangi sjóðanna fyrir þá þóknun sem þar er í boði. Þannig útheimti það mikla vinnu, ekki síst fyrir formenn stjórnanna, að sinna störfum sínum vel og þá hafi einnig sýnt sig að það geti bakað stjórnarmönnum tjón, taki þeir rangar ákvarðanir, það sýni bótakröfur sem fallið hafa á stjórnarmenn á síðustu árum.

Þegar rýnt er í kostnað við stjórnir lífeyrissjóðanna kemur í ljós að mánaðarlegar launagreiðslur til stjórnarmannanna 118 nema um 14,5 milljónum króna. Ofan á þá upphæð leggjast svo opinber gjöld og mótframlag í lífeyrissjóð. Því má gera ráð fyrir því að heildarkostnaður nemi um 230 milljónum á ársgrundvelli. Telst það ekki mikill kostnaður þegar litið er til heildareigna sjóðanna. Nema launagreiðslurnar, ásamt kostnaði sem til fellur vegna þeirra aðeins um 0,00007% af heildareignum þeirra.

Pólitíkusar í stjórnarsætum

Stjórnir sjóðanna eru skipaðar fólki úr ólíkum áttum og er það almennt talinn styrkleiki fremur en hitt. Þá eru stjórnarmennirnir tilnefndir með mismunandi hætti. Launþegahreyfingin hefur víða mikil áhrif á skipan í stjórnirnar, atvinnurekendur sömuleiðis. Þá hefur það færst í vöxt að stjórnarmenn séu kjörnir á aðalfundum sjóðanna og þar hafa sjóðfélagar síðasta orðið. Í ákveðnum tilvikum eru sjóðir hins vegar reknir af fjármálastofnunum og ræður þá viðkomandi fjármálafyrirtæki stjórnarskipaninni að hluta eða í heild.

Lengst af hefur mikil áhersla verið lögð á að skilja á milli stjórnmála og lífeyrissjóðakerfisins, rétt eins og krafa hefur verið uppi um að skilja á milli hagsmuna sjóðanna og þeirra fyrirtækja sem þeir eru stórir eigendur að. Því vekur það nokkra athygli að í ellefta stærsta sjóðnum, Eftirlaunasjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar, sitja þrír stjórnmálamenn en í heildina er hún skipuð fimm einstaklingum. Þannig er Skúli Helgason borgarfulltrúi formaður stjórnarinnar, Hildur Sverrisdóttir, sem nýlega lét af störfum sem borgarfulltrúi til að taka sæti á Alþingi, meðstjórnandi og einnig Heiðar I. Svansson, sem var á lista Bjartrar framtíðar fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2014. Þau eru skipuð í stjórnina af borgarráði. Þá situr Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi í stjórn LSR og er tilnefnd af fjármálaráðherra og Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, situr í stjórn Gildis. Ekki hefur farið fram efnisleg umræða á opinberum vettvangi um mögulega hagsmunaárekstra þar sem kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í bæjarstjórnum sitja einnig í stjórnum lífeyrissjóða.

Hallar á eldri og yngri kynslóðir

Lífeyrissjóðirnir hafa það verkefni með höndum að ávaxta iðgjöld launafólks sem síðar munu koma til greiðslu lífeyris. Langstærstur er sá hópur sem hefur töku lífeyris eftir 65 ára aldur en þó eru undantekningar frá þeirri reglu vegna reglna um örorkulífeyri og maka- og barnalífeyri. Að sjóðunum standa einstaklingar sem nú þegar hafa hafið töku lífeyris, eru við það að fara á eftirlaun en einnig einstaklingar sem ekki munu njóta greiðslna úr þeim fyrr en að áratugum liðnum. Tvítugur maður sem greiðir af launum sínum til lífeyrissjóðs má vænta þess að hálf öld líði þar til þeir fjármunir skili sér í einni eða annarri mynd til baka.

Í ljósi þess að forvitnilegt að gaumgæfa samsetningu stjórnanna út frá aldri þeirra sem þar sitja. Í ljós kemur að aðeins í tveimur sjóðum er meðalaldurinn undir fimmtugu. Það er í Íslenska lífeyrissjóðnum þar sem meðalaldurinn er 48 ár og Lífsverki þar sem hann er 46 ár. Flestir hinna sjóðanna státa af meðalaldri á bilinu 50-59 árum en þó eru tveir sjóðir þar sem meðalaldurinn er yfir 60 árum. Það er hjá Lífeyrissjóði starfsmanna Búnaðarbankans, 61 ár, og Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þar sem meðalaldurinn er 60 ár.

Þegar litið er yfir hópinn í heild, alla 118 stjórnarmennina, kemur einnig upp forvitnileg mynd. Þannig sést að aðeins 4 stjórnarmenn eru fæddir á 9. áratug síðustu aldar og 23 á 8. áratugnum. 40 stjórnarmenn eru fæddir á 7. áratugnum og 42 á 6. áratugnum. Aðeins níu stjórnarmenn eru fæddir á 5. áratugnum. Enginn stjórnarmaður er fæddur á 10. áratug síðustu aldar, jafnvel þó að sá aldurshópur hafi þá hagsmuni að verja innan sjóðanna sem lengst munu ná inn í framtíðina.