[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rose E. Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að Atlantshafið hafi verið vanrækt um nokkra hríð, en að nú sé bandalagið að vakna aftur til vitundar um mikilvægi hafsvæðisins.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rose E. Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að Atlantshafið hafi verið vanrækt um nokkra hríð, en að nú sé bandalagið að vakna aftur til vitundar um mikilvægi hafsvæðisins. „Ég myndi segja að ákvörðunin um það hefði þegar verið tekin,“ segir Gottemoeller þegar blaðamaður spyr hana hvort að standi til að auka varnirnar í Norður-Atlantshafi. „Á fundi varnarmálaráðherra bandalagsins í febrúar síðastliðnum samþykktu ráðherrarnir að vinna að því á mjög einbeittan hátt að finna hvað bandalagið þurfi að gera til þess að takast á við þær raunir sem bíða þess í vörnum Atlantshafsins.“

Gottemoeller bendir á að nokkrar þjóðir innan bandalagsins, Ísland þar á meðal, hafi haft þungar áhyggjur af því sem sé að gerast á þessu svæði, þar sem skip, kafbátar og langdrægar sprengjuflugvélar frá Rússlandi séu að verða æ tíðari gestir. Sú staða krefjist viðbragða af hálfu bandalagsins.

Lykilhlutverk í ratsjárvörnum

Spurð um það hvert framlag Íslands til þess gæti verið segir Gottemoeller að það gæti verið á mörgum sviðum. „Ísland er auðvitað ekki með herlið og því getur framlagið ekki verið í því formi, en þýðing landsins fyrir bandalagið hefur verið mikil í gegnum tíðina þrátt fyrir það.“ Hún nefnir að í gegnum tíðina hafi Ísland leikið lykilhlutverk í ratsjárvörnum bandalagsins og segist sjá fyrir sér að landið verði áfram gríðarlega mikilvægt í þeim efnum. „Ég hef áður sagt að lega Íslands í miðju Atlantshafinu brúar bilið á milli Bandaríkjanna og Kanada annars vegar og bandalagsríkjanna í Evrópu. Þið eruð því á mjög góðum stað, hvað varðar mikilvægi ykkar í bandalaginu,“ segir Gottemoeller.

En framlag Íslands er ekki einskorðað við hinar hefðbundnu varnir. Ísland hafi lagt gríðarlega mikið af mörkum, til dæmis í þjálfunarverkefnum í Afganistan, Írak og víðar. „Ég nefni sem dæmi varnir gegn heimatilbúnum sprengjum og því hvernig eigi að aftengja þær. Það er mikil sérfræðiþekking um það á Íslandi, sem er mjög mikilvæg og er ekki mjög hefðbundin þekking. Á níunda áratugnum voru fæst Evrópuríki mikið með hugann við þetta, nema þegar fundust ósprungnar sprengjur úr seinni heimsstyrjöld, en núna er þetta lykilpartur í „verkfærakassanum“ okkar gegn hryðjuverkum, ef svo má að orði komast.“

Hefði bandalagið áhuga á meiri viðveru hér en nú er?

„Ég vil leggja áherslu á það að bandalagið mun í þessum efnum fylgja þeim skilaboðum sem það fær frá stjórnvöldum og almenningi á Íslandi. Þetta eru mikilvægar ákvarðanir sem kjósendur þurfa að taka. Það er ekki mitt hlutverk að tjá mig þar um að öðru leyti en að bandalagið er mjög öllu því sem Ísland hefur lagt af mörkum til þess að auka stöðugleika handan landamæra sinna, sem og bandalagsins í heild.“

Hugarfarsbreyting hjá Trump

Talið berst að Donald Trump Bandaríkjaforseta og ýmsum yfirlýsingum hans á meðan á kosningabaráttunni vestra stóð á síðasta ári. Gottemoeller segir að horfa þurfi frekar á það sem forsetinn hafi sagt eftir að hann tók við embætti og fór að kynna sér bandalagið. „Í hreinskilni sagt hafa bæði ég og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO tekið vel í þau orð hans, því að þau hafa opnað augu aðildarríkjanna fyrir nauðsyn þess að uppfylla þau loforð sem þau gáfu á fundum bandalagsins í Wales 2014 og í Varsjá 2016. Ríkin hafa öll lofað, og gerðu það án nokkurra mótmæla, að verja 2% af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála og að þessu markmiði verði náð, ekki á morgun eða í næstu viku, en fyrir árið 2024.“ Trump hafi því aðstoðað við að snúa þróuninni við. Raunar voru þau umskipti þegar hafin, þar sem árið 2015 hættu þjóðirnar að skera niður og í fyrra fóru útgjöld til varnarmála aftur upp á við, um 3,8% sem þýðir um 10 milljarða bandaríkjadala.

Þá bendir Gottemoeller á það að forsetinn hafi tekið eftir þessari þróun og lýst yfir ánægju sinni með hana, meðal annars í ræðu síðastliðinn þriðjudag, þar sem Trump ítrekaði stuðning sinn við Atlantshafsbandalagið og að hann væri ánægður að sjá að ríkin væru farin að láta bandalaginu meiri úrræði í té. „Þannig að það má segja að það hafi orðið nokkur hugarfarsbreyting til hins betra í Hvíta húsinu varðandi bandalagið.“

Talið berst að 2%-markinu svonefnda og því hvernig tryggt sé að þeim fjármunum sé vel varið. „Það er góður punktur og við leggjum áherslu á að það sé ekki bara verið að setja meiri peninga í varnarmál, heldur að þeim fjármunum sé varið á sem skilvirkastan hátt, þannig að ekki einni einustu krónu sé sóað. Það er ekki beðið um lítið. Ég myndi giska á að varnarmálaráðuneyti úti um allan heim ættu í erfiðleikum með að nýta fjármuni sína á hagkvæman hátt, en við þurfum að geta forgangsraðað betur, meðal annars vegna þess að skattgreiðendur í bandalagsríkjunum munu draga okkur til ábyrgðar.“

Gottemoeller segir að þegar fjármálakreppan reið yfir hafi flest aðildarríkjanna þurft að forgangsraða frá varnarmálum til þess að sinna þörfum samfélagsins. „Á sama tíma eru miklar ógnir við öryggi allra nú og við þurfum að fara að huga að sameiginlegu vörnunum aftur og stöðva niðurskurðinn til varnarmála.“

Haldið áfram að ýta!

Gottemoeller er fyrsti kvenkyns aðstoðarframkvæmdastjóri bandalagsins, og hlutur kvenna innan þess hefur verið að aukast mjög á síðari árum. Hún segir að það sé mjög mikilvægt fyrir bandalagið að hlutur kvenna í öryggis- og varnarmálum verði meiri en áður. „Engin stofnun neins staðar í heiminum getur litið framhjá þeim kostum sem leynast í 52% af mannfjölda sínum. Stofnanir og Atlantshafsbandalagið þar á meðal eru sterkari fyrir vikið þegar fleiri konur koma þar til starfa.“

Hún segir að Ísland hafi þar leikið stórt hlutverk. „Ég vil því að lokum þakka Íslandi fyrir að ýta við bandalaginu og knýja það til þess að taka upp ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, sem kallar eftir auknum hlut kvenna í friðargæslu og varnarmálum. Íslensk stjórnvöld hafa verið óþreytandi við að ýta á eftir þessu við okkur, og ég vil bara ítreka það við ykkur: Haldið áfram að ýta við okkur!“