[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Mér þykir virkilega vænt um að þetta verk rati á svið,“ segir Kristbjörg Kjeld um verk eiginmanns síns heitins, Guðmundar Steinssonar, Húsið sem Þjóðleikhúsið frumsýnir á Stóra sviðinu annað kvöld og er þar um frumuppfærslu að ræða. „Mér þykir líka mjög vænt um hvað það er gott fólk í kringum verkið.“ Guðmundur skrifaði Húsið í kringum 1970, en það rataði ekki á svið á sínum tíma þó Þjóðleikhúsið hafi á árunum 1964 til 1970 frumsýnt sjö önnur leikrita hans, þeirra á meðal Lúkas og Stundarfrið . Aðspurð hvers vegna Húsið hafi ekki ratað á svið segir Kristbjörg að Guðmundur hafi átt erfitt uppdráttar. „Hann átti ekki alveg upp á pallborðið til að byrja með, enda var smekkurinn þrengri. Það voru aðrir tímar og eftirspurnin var meiri eftir raunsæjum leikritum,“ segir Kristbjörg og tekur fram að hún vildi óska að Guðmundur hefði lifað að sjá frumsýningu Hússins . „Ég veit að hann hefði verið glaður að sjá verkið rata á svið, því menn skrifa leikrit auðvitað með það að markmiði að þau öðlist líf á sviðinu.“

Fagnar 60 ára leikafmæli

Kristbjörg fagnar á árinu 60 ára leikafmæli, en frumraun sína á sviði þreytti hún 2. október 1957 í hlutverki Katrínar í Horft af brúnni eftir Arthur Miller í Þjóðleikhúsinu og útskrifaðist vorið 1958 frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. „Það er merkilegt að hugsa til þess að hafa verið hér í sextíu ár – tíminn er svo sannarlega skringilegt fyrirbæri. Þegar ég lít til baka er þetta eitthvað svo stutt. Allt í einu er maður orðinn gamall, eins og persóna mín segir í leikritinu, og hlutverki manns lokið. Sem betur fer hef ég haft nóg að gera í leikhúsinu og fengið að takast á við fjölbreytt hlutverk, sem hafa þroskað mig sem leikara. Fyrir það er ég afar þakklát.

Á mér ósk um að verða betri

Það er merkilegt að líta yfir farinn veg og sjá hvað maður hefur breyst mikið. Þegar ég sé mig í anda í þeim hlutverkum sem ég lék ung þá birtist mér önnur kona – stúlka. Lífsreynslan breytir manni. Þannig er maður að læra og þroskast alla ævi, en leikarar nota sjálfa sig sem verkfæri í rannsóknarvinnunni. Ef ég hefði búið að allri þeirri reynslu sem heil ævi hefur skilað mér hefði ég getað gert hlutina nokkuð öðruvísi. Æskan gefur þrótt, en reynslan dýpt,“ segir Kristbjörg og tekur fram að hún sé ávallt drifin áfram af því að gera betur. „Það hefur aldrei komið að þeim tímapunkti að mér finnist ég útlærð í leiklistinni. Mér finnst ég enn geta bætt við mig einhverju og á mér ósk um að verða betri. Auk þess heldur það í manni lífinu að fá að takast á við hlutina,“ segir Kristbjörg og áréttar að hún hyggist halda áfram að leika svo lengi sem sóst verði eftir kröftum hennar og hún hafi heilsu til.

„Annars myndi maður kannski leggjast í kör. Það er svo gaman að vera með góðu og skapandi fólki í leiklistinni,“ segir Kristbjörg og tekur fram að hún reyni að lifa aðeins í núinu. „Þegar maður er ungur hefur maður framtíðarsýn, en þegar maður er orðinn gamall lifir maður bara í núinu.“

Innt eftir því hvort glíman við ný hlutverk sé ávallt áþekk svarar Kristbjörg: „Hlutverkin koma afar misjafnlega til manns. Stundum hefur mér sýnst hlutverk vera svo snúið að ég hef efast um hvort ég réði við það, en svo byrjar maður að kafa. Í flestum tilfellum nær maður sátt og einhverjum tökum á hlutverkinu, hvort sem þau eru rétt eða röng. Alla vega gefur maður þeim sitt líf og finnst það ganga upp,“ segir Kristbjörg og tekur fram að lykillinn að árangri sé að hætta aldrei að leita. „Leikarastarfið er svo mikið leitarstarf og rannsóknarvinna. Raunar hefur mér alltaf fundist rannsóknarvinnan vera skemmtilegasti hluti starfsins.“

Spurð hvort hún fái enn fiðring í magann þegar komi að sýningum svarar Kristbjörg því játandi. „Já, það lagast ekkert með árunum. Það fylgir því alltaf viss spenna að stíga á svið.“