— Morgunblaðið/Ómar
Hæstiréttur hafnaði nýlega kröfu Þorbjarnar hf.

Hæstiréttur hafnaði nýlega kröfu Þorbjarnar hf. í Grindavík um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda ríkisins á tjóni af því að aflahlutdeild í gulllaxi hefði ekki verið úthlutað til fyrirtækisins á grundvelli veiðireynslu sem það hafði öðlast á nánar tilgreindum tímabilum. Staðfesti dómurinn þar með niðurstöðu Héraðsdóms.

Veiðar á gulllaxi voru í nokkru jafnvægi á árunum upp úr aldamótum, en Þorbjörn hf. byrjaði veiðar á gulllaxi fyrir aldamót. Á fiskveiðiárinu 2008/2009 fjölgaði veiðiskipum og afli jókst frá fyrra fiskveiðiári, fór úr 5.064 tonnum í 8.797 tonn. Fiskveiðiárið 2009/2010 nálega tvöfaldaðist aflinn og varð 15.960 tonn, enda þótt veiðar væru stöðvaðar áður en tímabilinu lauk.

Ráðherra stjórnaði veiðum á grundvelli leyfa á þessum árum, en fiskveiðiárið 2013-14 var gulllax kvótasettur í fyrsta skipti og hefur aflahlutdeildum síðan verið úthlutað til einstakra skipa.

Mikil óvissa um stofnstærð

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar fiskveiðiárið 2008/2009 og aflahorfur fiskveiðiárið 2009/2010 kom fram að upplýsingar um stærð og ástand gulllaxstofnsins hér við land væru mjög takmarkaðar. Í sams konar skýrslu ári síðar komst stofnunin svo að orði að veiðiráðgjöf hennar fyrir fiskveiðiárið 2010/2011 væri byggð á mikilli óvissu um stærð og ástand stofnsins.

Þar sem slík óvissa ríkti um veiðiþol gulllaxstofnsins var ráðherra við þær aðstæður heimilt á grundvelli laga og reglugerðar að beita áfram þeirri aðferð við stjórnun veiða á gulllaxi að þær skyldu háðar leyfum Fiskistofu, sem felld yrðu úr gildi ef nauðsyn bæri til að takmarka veiðarnar til að tryggja viðgang stofnsins, segir í dómnum. Samkvæmt því áttu umræddar ákvarðanir ráðherra árin 2009 og 2010, sem voru almenns eðlis og teknar á málefnalegum grunni, sér viðhlítandi lagastoð.

Þorbjörninn hélt því fram að ráðherra hefði í samræmi við ráðgjöf stofnunarinnar borið að úthluta skipum áfrýjanda aflahlutdeild í gulllaxi fyrir fiskveiðiárið 2009/2010, byggðri á veiðireynslu þeirra síðustu þriggja ára þar á undan. Skip fyrirtækisins hefðu samkvæmt því átt að fá umtalsvert hærri aflahlutdeild í gulllaxi en þeim var úthlutað haustið 2013 og hefð fyrirtækið orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem því næmi. aij@mbl.is