Athafnamaður Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, segir mikinn áhuga á Íslandi erlendis.
Athafnamaður Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, segir mikinn áhuga á Íslandi erlendis. — Morgunblaðið/RAX
Stofnandi Sjávarklasans segir stóraukinn áhuga á Íslandi opna dyr á erlendum mörkuðum. Nýjar dreifileiðir geti skilað hærra verði. Innflutningur á fersku kjöti meðal áhættuþátta.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Athyglin sem beinst hefur að Íslandi á síðustu árum – og stóraukinn ferðamannastraumur – felur í sér tækifæri til að styrkja ímynd og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða og íslenskra matvæla almennt erlendis.

Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, bendir á að vegna mikillar fjölgunar ferðamanna sé nú hægt að nota íslenska markaðinn sem tilraunamarkað í „útflutningi“. Stóraukinn áhugi á Íslandi auðveldi jafnframt alla markaðssetningu.

„Vaxandi áhugi fyrir Íslandi skapar síðan mikil tækifæri fyrir okkur til að markaðssetja og selja íslenskar vörur á erlendum markaði.“

Þorskur, salt og súkkulaði

Þór segir mikið verk óunnið í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis. Markaðssetning og sala á íslenskum fiski hafi breyst mikið, meðal annars með tilkomu nýrra dreifileiða og samskiptamiðla. Íslendingar séu framarlega í netnotkun og hugbúnaðargerð og hafi mjög öflugar auglýsingastofur og hönnunarfyrirtæki en allir þessir aðilar þurfi að vinna með sjávarútveginum á þessu sviði.

„Minni vörumerki með áherslu á sjálfbærni og hreinleika sækja á víða um heim á kostnað stórframleiðenda. Þetta eigum við að nýta okkur. Við finnum einnig fyrir auknum áhuga innanlands á matvælaþróun og hönnun og markaðssetningu matvæla. Það líður varla sú vika að áhugaverð matarfrumkvöðlafyrirtæki hafi ekki samband við okkur og óski eftir aðstöðu í frumkvöðlasetri okkar á Grandanum. Mörg íslensk matvælafyrirtæki hafa náð árangri í sölu og markaðssetningu. Slíkar sögur af árangri eru smitandi. Breiddin er mikil; þorskurinn, saltið, súkkulaðið, eldisfiskurinn, vatn og áfengi, reyktar vörur, krydd, skyr og landbúnaðarvörur og lýsi, svo eitthvað sé nefnt.

Ný fyrirtæki, oft með matvæli sem fáir héldu að væru mögulegar útflutningsvörur, flytja út vörur sínar í neytendapakkningum sem eru vel hannaðar og úthugsaðar,“ segir Þór og bætir við að þessi fyrirtæki séu á ýmsan hátt að smita önnur fyrirtæki og ekki síst frumkvöðlafyrirtækin. „Nú vita fleiri að þetta er hægt!“

Þór segir marga frumkvöðla eiga þátt í aukinni vitund um sérstöðu og tækifæri Íslendinga í matvælum. Þar megi nefna stofnendur Food & Fun-hátíðarinnar, sem hófu þá vegferð fyrir 16 árum með því að fá erlenda kokka og blaðamenn til landsins. Þá megi nefna matarmarkað Búrsins og íslenska matreiðslumenn. Matís hafi líka reynst frumkvöðlum í matargerð afar vel.

„Nú þurfum við að sameina kraftana mun betur en við höfum gert hingað til og skerpa á sameiginlegum skilaboðum um hvað Ísland stendur fyrir og hversu umhverfisvæn matvælaframleiðslan hér á landi er. Við höfum sett mikla fjármuni í kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi, sem Íslandsstofa hefur haft forystu um, og það hefur skilað árangri. Nú er spurning hvort við getum ekki blandað ferðalögum og matvælum saman og kynnt betur ferða- og matvælalandið Ísland.“

Þjóðin læri að segja söguna

Þór segir það lykilatriði markaðsstarfsins að styrkja ímynd Íslands og nota þá ímynd við sölu og kynningu á íslenskum vörum.

„Söguþjóðin er ekkert sérstaklega góð í að segja okkar nútímasögu; um hreinleika og gæði framleiðslunnar, betri nýtingu fisksins en í öðrum löndum, lágt sótspor og fleira. Við lítum á þetta allt sem sjálfsagða hluti. Þegar við vorum að prófa framleiðslu á kollageni úr íslensku roði í Evrópu fyrir nokkrum árum reyndust gæði kollagensins undir væntingum. Það var ekkert að íslenska roðinu en evrópska vatnið sem notað var reyndist ekki nógu gott. Við höfðum ekki haft hugmyndaflug til að ímynda okkur að það gæti verið vandamál,“ segir Þór.

„Við lítum á okkar sjálfbæru og hreinu framleiðslu sem sjálfsagða en hún er það ekki. Við erum betri í að segja sögur úr fortíðinni en að segja sögur af sjálfbæra þorskinum úr kaldahafi. Við þurfum að byrja heima fyrir og upplýsa okkur sjálf um þessi gæði. Það er mjög gefandi fyrir okkur í Húsi sjávarklasans að taka á móti ungu fólki og segja því þessar sögur. Bara á síðustu þremur mánuðum höfum við tekið á móti á þriðja hundrað nemendum. Við segjum frá íslenska þorskinum og þeim tækifærum sem felast í fullnýtingu. Okkar von er að við náum að sá fræjum og hvetja frumkvöðla framtíðarinnar. Sögurnar koma flestum á óvart. Með þessu getum við virkilega undirbúið okkur í að segja útlendingum frá matvælunum okkar og hvernig við búum þau til,“ segir Þór. Hann bætir við að hann sé ekki að biðja stjórnvöld um að grípa til dæmigerðra aðgerða; ráða erlenda auglýsingastofu. „Við þurfum að byrja innan frá og virkja marga krafta. Það er hægt.“

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Friðleif Friðleifsson, deildarstjóra hjá Iceland Seafood, hér í 200 mílum nýverið, að lyfta þyrfti grettistaki í að byggja upp vörumerki fyrir íslenskan fisk.

Þór tekur undir þetta.

„Ég er því algjörlega sammála að vörumerkið okkar er ekki nógu þekkt. Norðmenn hafa kynnt sitt vörumerki og ímynd Noregs með beinum auglýsingum til neytenda. Með því fá þeir neytendur til að sækjast eftir sjávarafurðum frá Noregi. Það er önnur aðferð en að ýta vörum á markað og vona að einhver bíti á agnið. Það má segja að norska vörumerkið Skrei hafi náð þessum árangri og norski laxinn einnig. Það hefur skapast stemning fyrir þessum vörum og gaman væri að sjá íslensk vörumerki tengt fiski ná svipuðum árangri. Gæðin eru til staðar.“

Nýjar aðferðir koma fram

Þór segir margt jákvætt í deiglunni um þessar mundir. „Áhugaverðar markaðsaðgerðir munu líta dagsins ljós á næstu misserum og geta þær orðið veigamikið skref í bættri ímynd okkar gæðafisks.“

Þór segir eftir miklu að slægjast í þessu efni. Aukin vitund um uppruna og gæði íslensks fisks geti skapað aukin verðmæti og reyna eigi að fylgja fiskinum nær neytendum. Til dæmis sé seldur héðan ferskur þorskhnakki á átta evrur kílóið sem seljist á allt að tíföldu því verði á lúxusmarkaði í Sviss.

„Ég er sannfærður um að verðmæti í sjávarútvegi geti aukist gríðarlega á komandi árum. Við höfum náð miklum árangri í gæðamálum og fjórfaldað verðgildi fisksins á 30 árum. Fiskveiðistjórnunin og tæknivæðing voru helstu kraftarnir sem leiddu af sér þessa verðmætaaukningu. Drifkraftur næstu uppsveiflu verður ímyndar- og markaðsmálin, í bland við áframhaldandi gæða- og heildarvinnslu.“

Matvælageirinn mun tengjast

Spurður hvernig sjávarútvegurinn á Íslandi verði orðinn árið 2030, ef árangur náist á þessum sviðum, segir Þór að búið verði að skerpa á ímynd Íslands sem þjóðar sem framleiði hrein matvæli.

„Ég held að öll matvælagreinin verði orðin miklu tengdari. Ég er sannfærður um að matvæli frá Íslandi verða með sameiginlega ímynd. Ímynd hreinleika og sjálfbærni. Þar höfum við enn svo gríðarlega mikið forskot sem við þurfum auðvitað að passa upp á. Mengun hafsins, stóriðjudraumar hvers konar á norðurskautssvæðinu og jafnvel innflutningur á fersku kjöti eru þar áhættuþættir sem við verðum að vara okkur á. Ef við höldum í og aukum hreinleikann en klúðrum honum ekki niður bíða okkar gríðarleg tækifæri í að kynna íslenskar vörur.“

Þór segir kollagenvörurnar Öldu og Feel Iceland og próteinvörur Protis, allt vörur unnar úr fiski, dæmi um nýjar íslenskar vörur sem vakið hafi athygli. „Það munu koma breiðari vörulínur frá Íslandi. Það væri eðlilegast að selja margar vörur undir nokkrum sterkum vörumerkjum.

Þór segir þjónustu Amazon Fresh, dótturfélags Amazon, dæmi um nýja dreifileið fyrir til dæmis fisk.

„Vöxtur Amazon Fresh og sambærilegra fyrirtækja vestanhafs er gríðarlegur og við eigum að koma okkar vörum betur inn á slíkar dreifileiðir. Við kunnum að eiga möguleika á því að fá hærra verð fyrir okkar vörur með þessum hætti þar sem við getum afhent fiskinn allan ársins hring í háum gæðum.“