Heimir Karlakórinn skagfirski gerir víðreist á næstunni, fyrst suður yfir heiðar 25. mars og síðan til Kanada 20. apríl. Kórinn verður 90 ára síðar á árinu.
Heimir Karlakórinn skagfirski gerir víðreist á næstunni, fyrst suður yfir heiðar 25. mars og síðan til Kanada 20. apríl. Kórinn verður 90 ára síðar á árinu. — Ljósmynd/Hjalti Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Hátíðardagskrá fer fram í Eldborgarsal Hörpu laugardagskvöldið 25. mars næstkomandi sem tileinkuð verður íslensku vesturförunum og afkomendum þeirra.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Hátíðardagskrá fer fram í Eldborgarsal Hörpu laugardagskvöldið 25. mars næstkomandi sem tileinkuð verður íslensku vesturförunum og afkomendum þeirra. Hátíðin er liður í verkefni sem Vesturfarasetrið á Hofsósi og Karlakórinn Heimir í Skagafirði standa að og nefnist Kveðja frá Íslandi .

Á hátíðinni verða Heimismenn í aðalhlutverki ásamt einsöngvurunum Þóru Einarsdóttur sópran, Óskari Péturssyni tenór og Ásgeiri Eiríkssyni bassa. Strengjasveit ásamt Thomas Higgerson píanóleikara annast undirleik.

Nýtt lag frumflutt

Úr röðum kórmanna koma svo kvartettar, dúettar og einsöngvarar, m.a. Birgir Björnsson sem er í hópi yngri tenóra í kórnum. Birgir á ekki langt að sækja sönghæfileikana en hann er náskyldur Einari Halldórssyni á Kúskerpi, sem lengi hefur sungið einsöng með Heimi. Gestakór verður Hljómfélagið, blandaður kór skipaður ungu fólki, undir stjórn Fjólu Kristínar Nikulásdóttur.

Á efnisskránni eru margar íslenskar og erlendar söngperlur sem Stefán R. Gíslason söngstjóri hefur útsett fyrir kórinn. Á hátíðinni verður frumflutt lagið Kveðja frá Íslandi , sem er eftir Stefán og textinn eftir einn kórfélaga, Kolbein Konráðsson frá Frostastöðum. Lagið var samið sérstaklega í tilefni af ferð kórsins til vesturstrandar Kanada 20. apríl næstkomandi.

Yfirskrift hátíðarinnar í Hörpu er Vestur um haf og er hún nokkurs konar upptaktur og undanfari fyrrgreindrar ferðar, sem er farin í þeim tilgangi að viðhalda og efla tengslin við fólk af íslenskum ættum sem búsett er á vesturströnd Norður-Ameríku.

Valgeir Þorvaldsson, forstöðumaður Vesturfarasetursins, segir undirbúning ferðarinnar ganga mjög vel. Um 180 manna hópur áhugasamra einstaklinga, listamanna og áhrifafólks muni fara í ferðina og taka þátt í viðburðum sem skipulagðir hafa verið í Vancouver og Victoria. Allur ágóði af tónleikum sem haldnir verða í Kanada mun að sögn Valgeirs renna til styrktar Íslendingafélögunum í þessum borgum vestanhafs.

Gísli Árnason, formaður Karlakórsins Heimis, segir miklu spennu og eftirvæntingu ríkja í kórnum fyrir tónleikana og vesturferðina um mánuði síðar. Heimir hefur haft það fyrir sið að fara í tónleikaferð suður á hverjum vetri en að þessu sinni var farið í samstarf með Vesturfarasetrinu í verkefninu Kveðja frá Íslandi. „Þetta verður ekki bara kórferð heldur er hún ekki síður farin til að skapa tengsl við Íslendingafélögin þarna úti,“ segir Gísli, en mjög góð þátttaka er meðal Heimismanna í ferðina, og maka þeirra.

Þóra Einarsdóttir hefur áður komið fram með Heimi, en það var á Reykholtshátíð árið 2015. Óskar Pétursson frá Álftagerði er heldur ekki að koma fram með Heimi í fyrsta sinn, enda svo gott sem alinn upp í kórnum. Þau munu bæði koma fram á tónleikunum í Hörpu og í Kanada.

„Það er ekki amalegt að fá Óskar, hann gjörþekkir okkur alla með tölu og við hann, og það var einkar skemmtilegt að vinna með Þóru í Reykholti hér um árið,“ segir Gísli.

Heimir að verða níræður

Að hluta til fara Heimismenn í vesturferðina í tilefni af 90 ára afmæli kórsins, sem stofnaður var 28. desember árið 1927. Gísli segir afmælishátíðarhöld kórsins þó að mestu fara fram næsta vetur og verða fyrirferðarmest í vordagskránni 2018. „Segja má að vesturferðin verði veglegri vegna afmælisins en það stendur alls ekki til að hafa það í einhverju öndvegi. Við förum í ferðina og komum síðan heim nánast beint á Sæluvikutónleika í Miðgarði og klárum vordagskrána í ár með stæl,“ segir Gísli að lokum.