20. september 2011 Þorri fundarmanna gekk út en eftir sat Ögmundur Jónasson ráðherra með embættismönnum.
20. september 2011 Þorri fundarmanna gekk út en eftir sat Ögmundur Jónasson ráðherra með embættismönnum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Yfir þrjú þúsund manns höfðu í gærkvöldi skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að staðið verði við áður boðaðar vegaframkvæmdir í Gufudalssveit, áður en undirskriftalistann var formlega opnaður.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Yfir þrjú þúsund manns höfðu í gærkvöldi skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að staðið verði við áður boðaðar vegaframkvæmdir í Gufudalssveit, áður en undirskriftalistann var formlega opnaður. Áhugamenn um vegabætur á Vestfjörðum hyggjast efna til baráttufundar með íbúum og þingmönnum á næstunni.

„Ég stofnaði þetta lén (60.is) í tengslum við baráttuna fyrir fimm árum þegar við gengum út af fundi samgönguráðherra. Þetta sofnaði síðan enda menn komnir með vonir um úrbætur. Ég treysti því þó varlega og geri ekki enn og gætti mín á því að halda léninu,“ segir Haukur Már Sigurðarson, verslunarmaður á Patreksfirði og áhugamaður um vegamál.

Gengu út af fundi ráðherra

Vegamálin voru í kreppu fyrir rúmum fimm árum þegar Ögmundur Jónasson samgönguráðherra kom á opinn íbúafund sem bæjarstjórn boðaði til í félagsheimilinu á Patreksfirði. Hiti var í fundarmönnum sem höfnuðu hugmyndum ráðherrans með því að ganga af fundi. Ögmundur taldi ekki skynsamlegt að reyna að halda áfram með Teigsskógaráformin sem dæmd höfðu verið ógild og taldi betra að snúa sér að því að undirbúa jarðgöng í gegnum Hjallaháls og Ódrjúgsháls í framtíðinni. Heimamen lögðu alla áherslu á að fá láglendisveg sem fyrst og það væri ekki hægt nema þvera firðina og fara um Teigsskóg.

Fundurinn var haldinn 20. september 2011 og því liðin rúm fimm ár. Vegagerðin hélt Teigsskógarleiðinni inni í nýju mati á umhverfisáhrifum vegagerðar sem nú er lokið og einungis beðið eftir áliti Skipulagsstofnunar til þess að hægt sé að sækja um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. Samningum við landeigendur er þó ólokið.

Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust á þessu ári en vegurinn lenti á niðurskurðarlista samgönguráðherrans. Það var með þeim rökum að undirbúningi væri ekki lokið og verkið ekki tilbúið til útboðs. Ráðherrann hefur síðar sagt að þetta verk yrðið forgangsverkefni þegar undirbúningi væri lokið.

Lýðræði eða ráðherraræði?

Haukur Már veltir því fyrir sér hvaða vald einn maður, samgönguráðherra, hafi til að breyta ákvörðunum Alþingis. „Við erum í vafa um lýðræðið. Er lýðræði á Íslandi eða ráðherraræði?“ spyr hann.

Í undirskriftalistanum á 60.is er höfðað til allra landsmanna um að mótmæla niðurskurðinum. Virðist ákallið hafa hljómgrunn, miðað við undirtektirnar. Þegar Haukur og forritarinn voru að útbúa vefinn í fyrradag settu þeir sín nöfn inn til að prófa virknina. Stuttu síðar voru komin 200 nöfn og fólk byrjað að deila listanum á Facebook. Opna átti vefinn á miðnætti sl. nótt en þá voru þegar komnar yfir þrjú þúsund undirskriftir.