Færri íslensk ungmenni mátu andlega líðan sína góða eða mjög góða árið 2016 en árin á undan og ungu fólki sem er utan skóla líður verr en námsfólki.

Færri íslensk ungmenni mátu andlega líðan sína góða eða mjög góða árið 2016 en árin á undan og ungu fólki sem er utan skóla líður verr en námsfólki. Þetta kemur fram í rannsókn Rannsókna og greiningar á andlegri líðan ungmenna á framhaldsskólaaldri sem Ingibjörg Eva Þórisdóttir sagði frá á fundi samtakanna Náum áttum í gær.

Um 13% stúlkna sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar yfir ævina árið 2016 en 2010 var hlutfallið 4%. Fleiri stelpur sem voru utan skóla en í námi sögðust hafa skaðað sig fimm sinnum eða oftar. „Niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi,“ segir Ingibjörg Eva.

Fleiri stúlkur segjast hafa hugleitt sjálfsskaða en drengir; það er 22% stúlkna en 9% drengja.

Ungmennum sem finna fyrir einkennum þunglyndis og kvíða hefur einnig fjölgað síðustu ár. Þar standa krakkar sem eru utan skóla verr að vígi en aðrir. thorunn@mbl.is