Vilborg Þorgeirsdóttir fæddist á Hlemmiskeiði á Skeiðum 21. júlí 1929. Hún lést 21. febrúar 2017. Foreldrar hennar voru Þorgeir Þorsteinsson bóndi á Hlemmiskeiði, f. 16. mars 1885, d. 20. ágúst 1943, og Vilborg Jónsdóttir kennari, f. 9. maí 1887, d. 2. apríl 1970. Systkini Vilborgar voru: Unnur kennari, f. 1915, d. 2008; Þórir íþróttakennari, f. 1917, d. 1997; Hörður húsasmíðameistari, f. 1917, d. 2006; Inga kennari, f. 1920, d. 2010; Jón rafvirkjameistari, f. 1922, d. 2014; Rósa húsmæðrakennari, f. 1924, d. 1952; Þorgerður húsmæðrakennari, f. 1926, d. 2015.

Vilborg giftist 14. nóvember 1954 eftirlifandi eiginmanni sínum, Einari Sverrissyni viðskiptafræðingi, f. 9. júní 1928 í Hvammi í Norðurárdal. Foreldrar hans voru Sverrir Gíslason, bóndi í Hvammi , f. 4. ágúst 1885, d. 24. mars 1967, og Sigurlaug Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 24. júlí 1890, d. 18. mars 1971.

Börn Vilborgar og Einars eru: 1) Þorgeir rafmagnsverkfræðingur, f. 19. ágúst 1955. Maki hans er Halla Kristín Þorsteinsdóttir ljósmóðir. Börn þeirra eru: a) Auður Kristín, f. 1976, maki Jón Viðar Stefánsson og börn þeirra eru: Halla Karen, Jökull, Stefán Frosti og Fanndís. Maki Höllu Karenar er Snorri Helgason og þau eiga Hrafn Viðar; b) Þórey Vilborg, f. 1977, maki Eysteinn Ingólfsson og dætur þeirra eru Katla og Andrea; c) Þorsteinn Ari, f. 1981, maki Kristín Helga Einarsdóttir og börn þeirra eru Álfrún María og Einar Dagur; d) Hjördís Erna, f. 1985, maki Andri Freyr Viðarsson og börn þeirra eru Hrafnkell og Unnur Lóa; e) Valdís Helga, f. 1988, maki Óli Valur Þrastarson og sonur þeirra er Flóki. 2) Sverrir útfararstjóri, f. 12. febrúar 1959. Maki hans er Sólveig Ásgeirsdóttir bókari. Dóttir Sverris og Esterar Harðardóttur er Erna Björg, f. 1990, maki Orri Ólafsson. 3) Vilborg Rósa grunnskólakennari, f. 4. febrúar 1964. Maki hennar er Tryggvi M. Baldvinsson, tónskáld og forseti tónlistardeildar LHÍ. Synir þeirra eru: a) Sveinbjörn Júlíus, f. 1984, maki Halldóra Kristinsdóttir og sonur þeirra er Tryggvi Kristinn; b) Einar Sverrir, f. 1988, maki Guðrún Þóra Arnardóttir; c) Baldvin Ingvar, f. 1991, maki Guðrún Pálsdóttir. 4) Sigurlaug Vigdís leikskólakennari, f. 26. nóvember 1966. 5) Sigrún Unnur leikskólakennari, f. 29. apríl 1969. Maki hennar er Sigurjón Bragason bílstjóri og dætur þeirra eru: a) Vilborg Vala, f. 1995, maki Ólafur Þorri Árnason Klein; b) Eva Hrund, f. 1997.

Vilborg ólst upp á Hlemmiskeiði til 15 ára aldurs en þá flutti hún til Reykjavíkur með móður sinni og systkinum. Hún stundaði nám við Gagnfræðiskóla Austurbæjar 1946-47 og lauk kennaraprófi 1951 frá Kennaraskóla Íslands. Vilborg kenndi í barnaskóla Hafnarfjarðar 1951-1953 en þá hóf hún störf við Langholtsskóla í Reykjavík og kenndi þar alla sína starfsævi, þar til hún lauk störfum árið 1996.

Útför Vilborgar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 9. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma.

Þegar ég hugsa um þig koma upp ótalmargar minningar. Það var alltaf svo gaman að gista hjá ykkur afa þar sem þú dekraðir við mann út í eitt, bakaðir pönnukökur, sagðir sögur (enginn gat sagt betur frá Búkollu) og dáðist að skriftinni manns, enda grunnskólakennari til margra ára og mikil áhugakona um vandaða skrift. Allar myndir sem barnabörnin teiknuðu fóru í sérstakar möppur og veggirnir í eldhúsinu voru þaktir myndum sem við teiknuðum hjá þér. Það var svo margt sem var gaman að skoða heima hjá þér, hvort sem það voru bækur, myndir eða snyrtidót. Þú leyfðir manni að gramsa endalaust í hinu og þessu og gafst þér ætíð góðan tíma í að tala við mann um allt á milli himins og jarðar. Kennari af Guðs náð.

Ein sú minninga sem hefur fest sig einna helst í sessi er þegar ég var u.þ.b. 8 ára og við horfðum saman á Scarface á laugardagskvöldi (ég gleymi aldrei vélsagaratriðinu). Í dag myndu flestir líklega hugsa sig tvisvar um (og setja á eitthvað öruggara og leiðinlegra) en þú varst engin tepra og ég er þér að eilífu þakklát fyrir umhyggjuna, traustið og áhugann sem þú sýndir mér. Það er svo margt sem ég hefði viljað spyrja þig út í en tíminn líður allt of fljótt og kemur ekki aftur. Vonandi hittumst við á ný í einhvers konar mynd. Eins og ég söng fyrir þig kvöldið áður en þú kvaddir: „Someday we'll be together.“ Góða ferð elsku amma og takk fyrir allt.

Þín,

Hjördís.

Kæra amma Villa.

Eigum við ekki að byrja þessa minningargrein á að rifja upp þegar við vorum litlar og komum í heimsókn til þín. Þú beiðst alltaf eftir okkur í dyragættinni, þótt það tæki okkur nánast hálfan daginn að labba upp allar tröppurnar. Það var alltaf skylda að kyssa ykkur um leið og við komum. Þú kallaðir okkur báðar gullmola og Vilborgu nöfnu, sem Eva hélt lengi vel að ætti við okkur báðar.

Við fengum oft að gista hjá þér og það var sko ekki leiðinlegt. Það besta við að vakna á morgnana var stútfull skál af Cocoa puffs og barnatíminn á Stöð 2. Eftir barnatímann fengum við annaðhvort að horfa á mynd eða fórum að leika okkur, og þá fékkst þú tíma til að horfa á „slúður“ eins og þú kallaðir það, en það voru sápuóperur á borð við Nágranna og Bold and the Beautiful. Ef það var ekki slúður í gangi var yfirleitt kveikt á boltanum.

Þolinmæði þín fyrir öllu sem okkur datt í hug að gera var ótrúleg. Einn vinsælasti leikurinn hjá okkur var að fá lánað garn hjá þér og þræða það á milli allra húsgagnanna í íbúðinni. Svo þurfti maður annaðhvort að stíga yfir eða skríða undir böndin til að komast á klósettið eða inn í eldhús. Og þér tókst hið ómögulega, að láta 6 og 8 ára gömlum stelpum finnast gaman að ganga frá eftir sig, því það var ekki síður gaman að safna böndunum saman og leysa úr flækjunni.

Þú varst alltaf til í að spila við okkur, jafnvel einföldustu spil í heimi eins og löngu vitleysu. Þú kenndir okkur líka mikilvæga tækni þegar kemur að því að púsla, en það er nauðsynlegt að klára rammann fyrst og púsla svo myndina inn í. Og það þurfti alltaf, alltaf, að klára rammann fyrst.

Við getum ekki sleppt því að minnast á búningaleikinn. Uppi í fataskáp áttirðu til gömul föt af mömmu, Dísu og Ibbu síðan þær voru litlar. Við fengum oft að leika okkur með þessi föt og fengum lánaða skó af þér. Þar á meðal voru hinir frægu rauðu skór sem þú hafðir alltaf gaman af að segja frá en núorðið þekkja allir söguna af þeim.

Eftir hverja heimsókn var skylda að kyssa ykkur aftur. Þegar við vorum að klæða okkur í útifötin fengum við oft að heyra: „mikið er þetta móðins!“ og „ég er svo skotin í þessu!“ um fötin okkar, sama hvort þau voru ný eða ekki.

En við gerðum ýmislegt annað en að koma bara í heimsókn. Við fórum oft í ferðalög saman og þá einna helst í sumarbústaði, sem urðu að vera með heitum potti. Við fórum líka oft í sund, og þá varstu alltaf með töfrakremið frá Nivea í bláu dollunni. Enn í dag hugsum við alltaf til þín þegar við sjáum slíka dollu. Við hugsum líka alltaf til þín þegar við sjáum rándýru iittala-skálarnar í fínum hönnunarverslunum. Þetta voru sko flottustu skálarnar þínar, og að sjálfsögðu leyfðir þú yngstu börnunum að borða ís úr þeim.

Það er svona sem við munum minnast þín, amma. Þú lifir áfram í hjörtum okkar.

Vilborg Vala og Eva Hrund.

„Verstu óvinir heilsuátaka eru ekki freistingar, skortur á viljastyrk eða leti. Það eru ömmur.“

Þessi litli brandari minn átti svo vel við hana ömmu mína að hún hengdi hann sjálf upp á ísskáp hjá sér. Amma var nefnilega eina konan í lífi mínu sem komst upp með það að neyða ofan í mig þriðju rúllutertusneiðina og spyrja svo með hneykslunartón hvort ég hefði fitnað. En þótt hún hafi kannski verið mikill óvinur megrunarkúra var hún alla tíð ekki bara amma mín – hún var góður vinur minn.

Það var amma sem átti stóran þátt í því að kveikja spilaáhuga minn, því hjónakaplarnir, lúdóspilin og skrafl-leikirnir skiptu þúsundum. Og ekki voru fótboltaleikirnir sem við horfðum á í sameiningu færri. Það var einn af vikulegum hápunktum barnæsku minnar þegar amma og afi komu í heimsókn að horfa á United-leiki með poka fullan af bakarísgóðgæti. Því amma gaf okkur bræðrunum lítið sem ekkert eftir í knattspyrnuáhuga. Amma var nefnilega eina konan í lífi mínu sem hefur skrópað á húsfélagsfund því „asnarnir skipulögðu hann á sama tíma og United á að keppa í Meistaradeildinni“.

Það kom varla sú stund að mér fannst ég ekki geta talað við ömmu – hvort sem hún var að forvitnast um stelpumálin mín, rifja upp takta fótboltameistara á borð við Zola, Giggs og „sæta Mexíkóann þarna með hárbandið“, eða spjalla um fréttir líðandi stundar. Hún amma var nefnilega eina konan í lífi mínu sem komst upp með það að vera forvitnari en mamma.

En forvitni ömmu kom þó alltaf frá góðum stað, því góðhjartaðri og blíðari konu var erfitt að finna. Svo ljúf var hún að það braust gjarnan fram í næstum pínlegri hógværð: „Var þetta svona vont hjá mér?“ eða „Er ég ekki að tefja þig rosalega?“ voru spurningar sem maður heyrði ansi oft í gegnum árin.

En nei, amma mín, maturinn þinn var alltaf yndislegur og þú varst sko aldrei að tefja mig. Þú hefðir m.a.s. alveg mátt staldra lengur við, því það er ferlega erfitt að átta sig á því að nú er ekki lengur hægt að kíkja í heimsókn og gefa þér slúður í skiptum fyrir Polo-kex, rúllutertu og kókómjólk. Það er það erfitt að ég hef þurft að leiðrétta nær allar sagnir í þessum texta og breyta þeim í þátíð.

En ég prísa mig bara sælan að hafa þó fengið að njóta undanfarinna 29 ára sem einn af gullmolunum þínum og ég er sannfærður um að þú hafir verið ein meginástæða þess að við glitrum í dag.

Hún amma var nefnilega eina konan í mínu lífi sem var „amma“.

Einar Sv. Tryggvason.

Það er erfitt að festa reiður á þær tilfinningar sem bærast með mér nú þegar ég kveð elsku Villu ömmu. Gleði og auðmýkt fyrir að hafa fengið að kalla svo frábæra konu ömmu, og þakklæti fyrir að hún sé laus úr viðjum veikinda, eru sólargeislar sem smjúga í gegnum söknuðinn og veita huggun þegar sorgin svíður í hjartað. Ég fyllist ennþá vantrú þegar ég hugsa til þess að amma sé farin, amma sem alltaf var svo sterk að ég var orðin þess fullviss að það væri ekkert sem hún gæti ekki sigrast á.

Sem barn átti ég margar góðar stundir með Villu ömmu og Einari afa á Háaleitisbrautinni. Það þótti nú ekki amalegt að fá að eyða skólafríum og veikindadögum hjá þeim og var ávallt sprett úr spori upp stigann til að komast sem fyrst í fangið á ömmu. Hlýjan sem geislaði af henni og þolinmæðin sem hún sýndi var með eindæmum. Hún gat setið tímunum saman og horft með mér á Stellu í orlofi, sagt sögur og hlegið yfir gömlum myndaalbúmum og auðvitað litað og teiknað í eldhúskróknum, sem ætíð var prýddur hinum ýmsu listaverkum.

Þrátt fyrir að samverustundunum hafi fækkað eftir því sem árin færðust yfir og tíminn týndist í ysi og önn fullorðinsáranna voru þær engu síðri. Alltaf tók amma brosandi á móti manni með opinn faðminn, tilbúin að ræða lífið og tilveruna yfir safaglasi og súkkulaðibitum. Glettinn svipurinn, dillandi hláturinn og óborganlegi húmorinn, amma var engum öðrum lík og mun ég ávallt geyma minningarnar um tíma okkar saman í hjarta mér. Takk fyrir allt elsku amma, hvíldu í friði.

Þín,

Erna Björg Sverrisdóttir.

Elsku amma mín. Nú ertu því miður farin frá okkur og því komið að kveðjustund.

Amma var einstaklega blíð og góð amma og bar ávallt hag allra afkomenda sinna fyrir brjósti.

Henni þótti ofsalega vænt um afkomendur sína og sýndi alltaf mikinn áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Hvort sem það var nám, að kaupa nýtt heimili, að bæta nýju barnabarni í hópinn, alltaf samgladdist hún innilega. Hún hringdi til að mynda á hverjum afmælisdegi mínum til að skila kveðju og spjalla, og alltaf var spurt hvernig börnin og hundurinn hefðu það líka.

Hún var líka alltaf með þann háttinn á þegar við vorum lítil að ef eitthvert okkar systkinanna átti afmæli, þá fengu alltaf hin systkinin smá pakka líka, sem hún kallaði „afmælisleysisgjafir“ þannig að það var aldrei neinn skilinn út undan. Þetta lýsti hjartagæskunni hennar vel.

Æskuárin með ömmu voru góð. Þegar ég byrjaði í skóla fór ég í Langholtsskóla, þar sem amma kenndi í tugi ára, var ég svo heppin að fá hana sem umsjónarkennarann minn. Til að fyrirbyggja að hinir krakkarnir færu eitthvað að segja við mig þá átti ég alltaf að kalla hana Vilborgu á skólatíma, en mátti nota amma þegar enginn heyrði til.

Á þessum tíma bjuggu amma og afi rétt hjá Langholtsskóla svo það var oft farið þangað að leika eftir skóla. Amma bakaði með okkur kleinur, leyfði okkur að leika í öllu dótinu (td. búningakistunni góðu)og þar var gott að vera.

Þegar við barnabörnin urðum eldri þá voru þau afi mjög dugleg að fara með okkur í sumarbústaðaferðir. Helst man ég eftir Brekkuskógi, Flúðum og Munaðarnesi. Í minningunni var alltaf gott veður í þessum ferðum, kannski bara af því að það var alltaf svo gaman. Afi fór með okkur í alls kyns labbitúra um nágrennið, tíndi með okkur ber og sagði sögur, en hann hefur þá náðargáfu að geta sagt mjög skemmtilegar sögur af nánast hverju sem er. Oftast beið amma í bústaðnum, bakaði pönnukökur, eldaði lambalæri og dekraði við okkur eins og henni var einni lagið.

Amma var ein fyndnasta kona sem ég hef kynnst, hugsaði kannski ekki alltaf áður hún talaði, en var með eldbeittan húmor. Það sem ég hef hlegið með henni í gegnum tíðina.

Amma var alltaf vel til höfð. Þegar hún kom í veislur bar hún yfirleitt af, í glitrandi fötum, með fallega hárgreiðslu og vel máluð.

Ég er glöð að stelpurnar mínar náðu að kynnast henni, þær fóru meðal annars 2-3 svar til hennar í laufabrauðsgerð eins og við systkinin gerðum þegar við vorum lítil, og dætrum mínum fannst frábært að prófa það. Svo fannst þeim gaman að fá langömmu og langafa í heimsókn og eins kíkja til þeirra, því hjá ömmu og afa máttir þú fá sætindi eins og þú gast í þig látið.

Elsku amma mín er núna farin frá okkur, en hún lifir enn í hjarta mínu og mun alltaf gera það. Ég er þakklát fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og mína og minnist hennar með gleði og hlýju í hjarta.

Elsku afi, ég sendi þér styrk til að takast á við næstu daga, og geri mitt allra besta til að koma oftar til þín.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Þín ömmustelpa,

Þórey Vilborg

Þorgeirsdóttir.

Það er skemmtifundur heima á Hofteigi. Við opnum dyrnar og á stéttinni fyrir neðan tröppurnar er brosið, brosið hennar Villu frænku, Vilborgar móðursystur okkar. Þessu bjarta, kankvíslega brosi fylgir léttleikinn í fasi hennar og persónu þó að hún dansi ekki lengur upp tröppurnar. Brosið og léttleikinn fylgdu henni allt lífið. Hún var skemmtileg, hnyttin í tilsvörum og fljót að koma auga á spaugilegar hliðar tilverunnar.

Hún gat líka verið hrein og bein í orðræðu og samtölum. Þegar við systur vorum börn og unglingar spurði hún okkur stundum mjög beinna spurninga með rannsakandi augnaráði. En um leið hallaði hún undir flatt og þá skildi maður að spurningin var ekki svo gagnrýnin eða krefjandi.

Villa frænka var ávallt umkringd iðandi mannlífi. Hún ólst upp í stórum barnahóp, var yngsta barn hjónanna Vilborgar og Þorgeirs á Hlemmiskeiði á Skeiðum. Nú hafa þau öll kvatt, bræðurnir þrír og systurnar fimm.

Á heimilinu á Hlemmiskeiði bjuggu líka afinn og amman, foreldrar Vilborgar. Þetta var menningarheimili, bókasafn sveitarinnar var í annexíu afans, mikið var spilað á orgelið í stofunni og fjölskyldan söng, helst allt fjórradda. En það dró fyrir hamingjusólina hjá þessari glaðværu fjölskyldu þegar Þorgeir dó langt fyrir aldur fram. Villa frænka var einungis fjórtán ára. Vilborg móðir þeirra ákvað að bregða búi og flytja til Reykjavíkur til að börnin gætu öll fengið góða menntun og hún hélt heimili fyrir þau. Sex systkinanna urðu kennarar eins og móðir þeirra.

Villa frænka var glaða, hlýja kennslukonan í Langholtsskóla, umkringd ungu lífi. Heima hjá henni og elsku Einari hennar og börnunum þeirra öllum hefur allt iðað af yndi og kæti í meira en 60 ár. Það var mikil heiðríkja og birta yfir systkinunum átta, börnum Vilborgar og Þorgeirs. Skemmtifundirnir þeirra halda áfram. Við sjáum þau fyrir okkur, öll saman, í himnaríkisgarðinum, brosandi, með gleði og ljúflyndi í fasi.

Það er ábyggilega léttur hlátur og bjartur söngur sem berst úr garðinum.

Blessuð sé minning elsku Villu frænku og systkinanna allra.

Þorgerður Ingólfsdóttir.

Við fráfall Villu frænku er komið að því að við kveðjum síðasta systkini elsku Ingu, mömmu minnar. Villa var fjölskyldu minni afar kær og bros hennar og geislandi gleði setti svip sinn á allar samverustundir okkar. Hún fylgdist með okkur frændsystkinunum og fjölskyldum okkar af einlægum áhuga og gaf sér tíma til að setja sig inn í aðstæður allra þótt hún ætti sjálf stóra fjölskyldu að hugsa um. Í barnæsku minni var mikill samgangur á milli fjölskyldna Villu og mömmu. Villa og Einar bjuggu í Álfheimum 10 með börnum sínum, ásamt Vilborgu ömmu, sem bjó í kjallaranum. Vegna þessara aðstæðna varð Villa mikilvæg persóna í lífi mínu. Það var alltaf gaman að hitta hana, því hún var svo lífsglöð og gefandi. Á starfsævi sinni var hún farsæll kennari í fullu starfi í Langholtsskóla og yngst af þeim frægu kennarasystkinum frá Hlemmiskeiði, þeim Unni, Rósu, Ingu, Þorgerði og Þóri. Það var dýrmætt að fylgjast með því hve systkinahópurinn frá Hlemmiskeiði bar alla tíð sterkan svip af æskuheimili þar sem kærleikur, heiðarleiki og menning voru í hávegum höfð.

Við fjölskyldan þökkum elsku Villu allar gleðistundirnar og kærleikann sem hún sýndi okkur alltaf.

Megi jákvæðni hennar, bjartsýni og æðruleysi verða okkur til eftirbreytni.

Guð blessi minningu elsku Villu frænku minnar og gefi Einari og allri fjölskyldunni hennar styrk í sorginni.

Inga Rós Ingólfsdóttir

og fjölskylda.

Elskuleg móðursystir mín, Vilborg Þorgeirsdóttir, er látin og þar með er hinn stóri hópur systkinanna átta frá Hlemmiskeiði á Skeiðum allur. Þetta var samheldin fjölskylda með sterkar rætur á Suðurlandi, en þar komu saman Reykjaættin á Skeiðum og Víkingslækjarættin úr Rangárvallasýslu. Vilborg, alltaf kölluð Villa, var yngsta systkinið á Hlemmiskeiði og stóð móður minni, Þorgerði, næst í aldri. Þær voru ekki bara systur heldur líka miklar vinkonur og flesta daga þurftu þær að heyrast í síma og ræða málin jafnvel þótt þær væru farnar að nálgast tíræðisaldurinn, en þannig hafði það alltaf verið. Tengslin voru alla tíð mikil og margt dreif á dagana á langri ævi. Nokkur sumur unnu þær systur saman í Fornahvammi í Borgarfirði þar sem Villa kynntist Einari, ástinni sinni og lífsförunaut í meira en sex áratugi. Ótal minningar um samverustundir okkar fjölskyldnanna koma upp í hugann, ferðalög um landið, laufabrauðsgerð og jólaboð systkinanna átta og afkomenda þeirra, en þar var Vilborg aðalmanneskjan. Þegar fjölskyldan var orðin of stór til þess að hægt væri að hafa árlegt jólaboð í heimahúsum var það flutt í Áskirkju og þar var það haldið í fjöldamörg ár og sungið og dansað í kringum jólatré. Sérstaklega er mér eftirminnileg heimsókn til Villu og Einars þegar þau dvöldu með fjölskylduna í Ósló í heilt ár 1972. Það var mikið ævintýri, þau bjuggu í fallegu húsi við Holmenkollen og voru bara öll orðin svo skemmtilega norsk. Það var gaman að koma á þær slóðir aftur með mömmu minni þegar ég dvaldist í Ósló haustið 2004. Villa hafði látið okkur fá heimilisfangið og við mamma rifjuðum upp þessa skemmtilegu viku og mynduðum húsið í bak og fyrir. Villa frænka hafði óskaplega létta lund, mikla útgeislun og var ætíð í góðu skapi. Hún hafði pláss fyrir alla, ekki bara sína nánustu heldur einnig hlýjan faðm fyrir stórfjölskylduna og lét sig varða líðan og afkomu allra. Hún var mjög ættrækin og eiginlega miðstöðin í fjölskyldunni sem allir leituðu til. Ferðirnar í kirkjugarðinn á Ólafsvöllum eru mér í fersku minni. Þær systur létu ekkert sumar líða án þess að fara þangað austur og setja sumarblóm á leiði foreldra sinna, en þar hvíla einnig báðar ömmur þeirra og afar og mörg önnur ættmenni. Þær töluðu oft um fallega og söngelska æskuheimilið á Hlemmiskeiði og minntust foreldra sinna ævinlega með hlýju og virðingu. Blessuð sé minning Vilborgar Þorgeirsdóttur. Ég votta Einari og fjölskyldu dýpstu samúð.

Rósa Gísladóttir.

Minningar um Villu móðursystur mína kalla fram bros og einstaklega góðar minningar. Hún var hlý, trygg og heilsteypt manneskja, vel menntuð og tókst af hugrekki og jákvæðni á við viðfangsefnin hverju sinni.

Nálægðin við Villu og hennar fjölskyldu var mjög mikil þegar ég var barn og unglingur því amma mín og fjölskylda Villu bjuggu í sama húsi. En þegar amma dó héldu líka áfram mikil tengsl því systkini mömmu voru mjög náin hvert öðru.

Villa var kennari að mennt eins og mamma og mörg systkini þeirra. Það tengdi þær þétt saman vegna þessa starfsvettvangs og líkra lífsviðhorfa. Sá mikli kærleikur sem ríkti milli þeirra, mömmu minnar og Villu, hafði þau áhrif að við hittumst mjög oft og hún var stór hluti af mínu lífi alla tíð.

Villa og Einar, maður hennar, voru einstaklega góð við mig og yfir heimilinu og samskiptum þeirra á milli ríkti mikill ástúð. Það var alltaf einstök hlýja sem mætti mér þegar við hittumst og á heimili þeirra áttum við Leifur svo oft góðar stundir. Þar tóku þau alltaf á móti okkur með opinn faðminn og sína miklu útgeislun. Þær stundir hafa skipt okkur öll miklu máli. Síðasta heimsókn okkar til þeirra var nú á nýársdag. Þar sátu þau þétt saman, með sömu gleðina í augunum og brosin fallegu og fögnuðu okkur innilega.

Nú er hún Villa mín farin inn í ljósið bjarta og hvílir þar í faðmi Guðs. Ég þakka góðum Guði fyrir að hafa gefið mér þessa góðu frænku og við Leifur og fjölskylda okkar biðjum Guð að blessa minningu hennar.

Vilborg Ingólfsdóttir.

Það var árið 1957 að dregið var um húsnúmer á lóðinni 8-24 við Álfheima í Byggingarsamvinnufélagi kennara við Langholtsskóla. Dró móðir mín, Ólöf Þórarinsdóttir, lóð númer 8 en samstarfskona hennar, Vilborg Þorgeirsdóttir, dró lóð númer 10. Hófst þar með einstakur vinskapur þeirra sem hélst alla tíð. Í húsunum númer 8-14 var náinn og góður grannskapur þar sem fólk hjálpaðist að, fagnaði saman tímamótum og deildi sorgar- og gleðistundum. Á þessum upphafsárum byggðarinnar við Álfheima bjuggu þrjár kynslóðir í húsunum númer 8 og 10. Samgangur var mikill og börn á svipuðum aldri. Ef lítið var við að vera heima fyrir var nærtækast að stökkva yfir í næsta hús þar sem oftast reyndist vera systir á lausu til að leika við. Alltaf tók Villa á móti manni með sínu jafnaðargeði og hlýju. Þeir eiginleikar hennar ásamt eðlislægri umhyggjusemi og umburðarlyndi gerði hana að kennara af guðs náð og var hún farsæll kennari.

Sem barni fannst mér ef fletta ætti upp skilgreiningunni á hvað væri að vera skemmtilegur hlyti að standa nafn Villu. Því taldi ég eðlilegt að hún fengi að velja sér hvaða bekk hún kenndi og spurði mömmu hvort að Villa ætti ekki alltaf vísa bekki með afburðanemendum. Svarið sem ég fékk var þó á þá leið að það væri ekki tiltökumál að kenna börnum sem ættu auðvelt með nám en það væri bara á fárra færi að kenna þeim sem einhverra hluta vegna stæðu höllum fæti. Í þeim hópi kennara var Villa, en það kom oft í hennar hlut að vera með bekk sem í voru nemendur með ólíkar þarfir. Ávallt skynjaði maður hve mikið hún bar hag nemenda sinna fyrir brjósti og var málsvari þeirra sem á var hallað.

Gestkvæmu og stóru heimili stýrði Villa af miklum myndugleika þar sem á borð voru bornar brúntertur með smjörkremi sem aldrei gleymist en þó voru það kleinurnar sem áttu vinninginn. Betri kleinur hafa ekki verið bakaðar. Eitt sinn var Villa á leið með dætur sínar á bingó. Á slíkan viðburð hafði ég aldrei farið og nuddaði í mömmu þangað til að hún lét eftir mér að spyrja hvort að það væri í lagi að ég færi með. Mætti ég í næsta hús með heilmikinn efnisstranga vafinn um hárið sem ég taldi hæfa tilefninu. Horfði Villa þá á mig og sagði: „Jóhanna mín, það er sjálfsagt mál að þú komir með en svona til fara ferð þú ekki neitt með mér.“ Þannig gat hún sagt meiningu sína umbúðalaust án þess þó að manni sárnaði.

Með sínu glettna yfirbragði og bliki í augum er Villa farin fyrir húshornið í síðasta skiptið. Minning um einstaklega hlýja og vel gerða konu lifir og vottum við systkinin í Álfheimum 8 Einari, Hodda, Lella, Ibbu, Dísu, Sigrúnu Unni og fjölskyldum okkar dýpstu samúð.

Jóhanna Harpa.

Kveðja frá bekkjarsystkinum

Vilborg Þorgeirsdóttir, Villa eins og hún var ávallt kölluð, hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi. Villa var ein af þeim skemmtilega hópi sem útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands 1951. Þetta var mjög samstæður hópur þó svo að aldursmunur væri mikill eins og þá var algengt í kennaranáminu. Sumir nemendanna höfðu kennt um nokkur ár og komu til náms til að hljóta réttindi og aldursmunur í hópnum var 11 ár milli þess elsta og yngsta. Villa var í yngsta hópnum. Villa var mjög aðlaðandi ung stúlka, hafði káta lund og átti auðvelt með að afla sér félaga. Hópurinn hélt lengi tengslum eftir útskrift en flest fórum við til kennslustarfa strax eftir að námi var lokið. Þær bekkjarsystur nánast allar höfðu með sér saumaklúbb í 60 ár en hópurinn í heild hittist alltaf af og til.

Við vorum 32 í þessum bekk og svo voru 12 úr svokallaðri stúdentadeild. Mjög hefur nú fækkað í þessum hópi og fjögur bekkjarsystkini hafa nú kvatt með stuttu millibili, en þetta er lífsins gangur.

Villa var sem fyrr segir skemmtilegur bekkjarfélagi, kát og hress, hafði gaman af að syngja og dansaði mjög vel. Hún var því sjálfkjörin í þann danshóp sem Sigríður Valgeirsdóttir þjálfaði til að sýna á árshátíðum. Þegar við komum saman kennarahópurinn var Villa mjög virk í þeim hópi og þau hjón, hún og Einar Sverrisson, mættu mjög vel meðan heilsan leyfði. Eftir útskrift fór Villa að kenna við Barnaskóla Hafnarfjarðar (nú Lækjarskóla) en frá 1953 var hún kennari við Langholtsskóla og lauk starfsferli sínum þar. Það var næsta eðlilegt að Villa veldi kennaranámið því hún var af mikilli kennarafjölskyldu komin. Móðir hennar var kennari svo og systur hennar fjórar og einnig bróðir hennar. Það kom líka fljótt í ljós að kennslan átti mjög vel við hana og hún naut sín þar. Þeir nemendur sem voru undir handarjaðri hennar nutu þess.

Það eru mjög góðar minningar sem við bekkjarsystkinin eigum frá dvöl okkar í Kennaraskólanum og þar lýsir af Villu. Hún var alltaf tilbúin að taka þátt í hvers kyns verkefnum sem okkur datt í hug og var einnig góður námsmaður. Þá var sama hvenær sem maður hitti hana – alltaf virtist liggja vel á henni og stutt í kátínuna. Elskulegheitin voru svo rík í fari hennar. Við bekkjarsystkinin þökkum samfylgdina. Við munum vissulega sakna hennar þegar hópurinn kemur saman næst og söngur hennar heyrist þar ekki. Mestur er þó söknuður eiginmanns og afkomenda þeirra, svo og tengdabarna. Þeim sendum við öllum innilegar samúðarkveðjur.

Kári Arnórsson.