Aldarafmæli Björgvin Árni Ólafsson fagnar merkisafmælinu á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu í dag ásamt vinum og vandamönnum.
Aldarafmæli Björgvin Árni Ólafsson fagnar merkisafmælinu á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu í dag ásamt vinum og vandamönnum. — Ljósmynd/Lundur á Hellu
„Það er að hafa ekki miklar áhyggjur,“ segir Björgvin Árni Ólafsson þegar hann er spurður hver sé leiðin til langlífis. Hann er 100 ára í dag og er enn ern, minnugur og viðræðugóður og les Morgunblaðið á hverjum degi.

„Það er að hafa ekki miklar áhyggjur,“ segir Björgvin Árni Ólafsson þegar hann er spurður hver sé leiðin til langlífis. Hann er 100 ára í dag og er enn ern, minnugur og viðræðugóður og les Morgunblaðið á hverjum degi. Björgvin dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu og unir hag sínum þar vel, ánægður með starfsfólk og sambýlisfólk.

Björgvin er borinn og barnfæddur á Álftarhóli í Austur-Landeyjum árið 1917. Þar bjó hann og sinnti bústörfum til 21 árs aldurs í hópi tólf systkina. „Í þá daga var slegið með orfi og ljá,“ segir hann og það gleður hann að blaðamaðurinn kannast við þessi verkfæri sem varla sjást lengur í sveitum landsins. Björgvin var síðar kaupamaður á Selfossi og Kjalarnesi, vann í fiski í Vestmannaeyjum og um tíma sem kafari í Grundarfirði, svo eitthvað sé nefnt. Lengst af var hann þó næturvörður í Útvegsbankanum í Reykjavík. Björgvin hefur haft mesta ánægju af því að ferðast og hefur komið til 50 landa. Fyrstu ferðina fór hann árið 1961, þegar hann var 44 ára gamall. Oftast hefur hann verið í för með félögum og kunningjum en hann hefur líka ferðast einn. „Ég hef heimsótt öll lönd í Evrópu nema smáríkin, sum tvisvar,“ segir hann. Hann hefur líka komið til Indlands og tvívegis til Kína. Hann hélt upp á fimmtugsafmælið með tveggja mánaða ferð um Bandaríkin þver og endilöng. Þá var dollarinn á 4,50 krónur. Á hann mikið myndasafn frá öllum þessum ferðum. Aldrei hefur hann lent í neinum teljandi óhöppum á þessu flandri, ef undan er skilið að hann var rændur myndavél á Kúbu. Hann vildi gjarnan halda ferðalögum áfram og þá fara til landa sem hann hefur ekki heimsótt áður, eins og til dæmis Brasilíu. „Núorðið vantar mig ferðafélaga. Það er varasamt að ferðast einn þegar maður er kominn á þennan aldur,“ segir hann.

Björgvin á tvær dætur, Helgu og Báru, sem báðar eru búsettar utanlands. gudmundur@mbl.is