[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stöðutáknið Alþjóðlega bílasýningin í Genf hefst um helgina og að vanda er þar von á mikilli sportbílaveislu.

Stöðutáknið Alþjóðlega bílasýningin í Genf hefst um helgina og að vanda er þar von á mikilli sportbílaveislu. Bílablaðamenn hafa þegar fengið að skoða sig um í sýningarhöllinni og þykir ljóst af greinunum sem berast frá Sviss að ein helsta stjarna sýningarinnar í ár verður McLaren 720S.

Þessi 710 hestafla undrabíll á að vera arftaki 650S-týpunar. Hvað útlitið varðar sver nýi bíllinn sig í ættina en við nánari skoðun koma skemmtileg smáatriði í ljós. Greinilegasta breytingin er hvernig skelin utan um farþegarýmið hefur verið smíðuð þannig að ökumaður og farþegi hafa nær óhindrað útsýni í allar áttir, líkt og ef setið væri í orrustuþotu.

Betra útsýni er líka ástæðan fyrir því af hverju fella má mælaborðið niður. Þegar sest er inn í bílinn lyftist upp skjárinn sem hefur að geyma mælana, en með því að ýta á takka getur ökumaður fellt skjáinn niður og þar með séð betur fram á veginn. Hefur hann þá aðeins örlítinn skjá fyrir ofan stýrið sem sýnir bara nauðsynlegustu upplýsingar.

Nær bíllinn 60 mílna hraða á 2,8 sekúndu og hámarkshraðinn er rétt rösklega 340 km/klst.

Kostar 720S frá tæplega 209.000 pundum beint úr verksmiðjunni en myndi kosta um 56,5 milljónir króna kominn á götuna á Íslandi. ai@mbl.is