Listamaður Ómar Arason flugstjóri sýndi félögum sínum í Aðdáendaklúbbi Loftleiða gripinn.
Listamaður Ómar Arason flugstjóri sýndi félögum sínum í Aðdáendaklúbbi Loftleiða gripinn. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ómari Arasyni flugstjóra er margt til lista lagt. Hann hefur bjargað verðmætum með bókbandi, skráð upplýsingar um bílnúmer í Borgarfirði og eigendur þeirra og stundar útskurð af kappi.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ómari Arasyni flugstjóra er margt til lista lagt. Hann hefur bjargað verðmætum með bókbandi, skráð upplýsingar um bílnúmer í Borgarfirði og eigendur þeirra og stundar útskurð af kappi. Í liðinni viku sýndi hann félögum í Aðdáendaklúbbi Loftleiða grip sem hann útbjó með tilheyrandi útskurði eftir að hafa eignast stýrið úr fyrstu DC-8 þotu Loftleiða.

Ómar fékk atvinnuflugmannsskírteini 1967, fyrir um hálfri öld. Áhugamálin tóku við þegar atvinnuflugmannsferlinum lauk 2009. „Ég hef aldrei þurft að naga neglurnar enda alltaf haft nóg að gera,“ segir Ómar.

Stýrið í sárabætur og nóg að gera

Ómar flaug 39 DC-8 flugvélum og þar á meðal þeirri fyrstu sem Loftleiðir fengu. Hún var seld til niðurrifs og reyndi Ómar lengi að fá staðfestar upplýsingar um flugtíma hennar, sem hann segir að gætu hafa verið um 100.000 tímar, en án árangurs. Í sárabætur hafi hann fengið stýrið að gjöf fyrir um einu og hálfu ári. Í kjölfarið hafi hann spurt vin sinn í útskurði hvort hann gæti ekki skorið eitthvað út í kringum stýrið fyrir sig. „„Þú getur bara gert það sjálfur,“ svaraði hann mér, ég tók hann á orðinu og úr varð þessi minningargripur um þotuna og fyrri og síðari eigendur hennar.“

Síðan hefur Ómar skorið út marga hluti, meðal annars gamla heimili fjölskyldunnar í Borgarnesi, dýr og fleira. „Ég gef barnabörnunum eitthvað af þessu í afmælisgjöf,“ segir hann.

Ómar hefur bundið inn öll Loftleiða- og Flugleiðablöð frá 1966 til 2000. „Ég fann gömul blöð frá því áður en ég var ráðinn til Loftleiða 1970 og sum eintök af til dæmis Newsletter Loftleiða og Fréttabréfi LL eru jafnvel ekki til annars staðar,“ segir hann. Ómar hefur líka tekið saman upplýsingar um allar DC-8 vélar hjá Loftleiðum og Flugleiðum auk þeirra sem hann flaug hjá öðrum félögum eins og til dæmis Cargolux og Sterling. Enn fremur á hann samantekt um alla staði sem hann flaug á og fleira.

Borgarfjörðurinn togar og undanfarin ár hefur Ómar grúskað í sögu bílnúmera á svæðinu. Í Borgfirðingabók 2015 er samantekt hans um alla bíla sem fluttir voru inn á innflutningsleyfum til Borgarfjarðar á árunum 1942 til 1970 og í vor stendur til að birta upplýsingar hans um alla bíla og eigendur 100 fyrstu MB- og M-bílnúmeranna í 50 ár, frá 1918 til 1968. Safnið nær þó frá MB 1 til M 1206. „Pabbi var vegaverkstjóri og ég hef alltaf haft gaman af númerum,“ segir Ómar, sem byrjaði á grúskinu 2008. „Magnús Jónasson í Borgarnesi átti fyrsta númerið, MB 1, en 1918 keypti hann sér Ford-bíl, árgerð 1913. Þetta var fyrsti Fordinn sem kom til Íslands, innfluttur af Sveini Oddssyni 1913. Ég skrifaði grein um Magnús, sem birtist í Skessuhorni, og fór síðan að safna upplýsingum, hef legið á Landsbókasafninu og í Safnahúsinu í Borgarnesi tímunum saman.“

Ómar leggur áherslu á líkamsræktina á sumrin. „Ég sinni þessum áhugamálum á veturna en hef engan tíma fyrir þau á sumrin því þá er ég á fullu í golfi,“ segir þúsundþjalasmiðurinn, sem var best með 8,9 í forgjöf en er nú með 14 í forgjöf.

Aðdáendaklúbbur Loftleiða 16-17