Hermann Guðmundsson fæddist 12. september 1932. Hann lést 18. febrúar 2017.

Hermann var jarðsunginn 6. mars 2017.

Maður er manns gaman. Þetta orðatiltæki hefur mér ávallt þótt lýsa afa vel því hann hafði gaman af fólki og fólk hafði gaman af honum. Hann bauð líka af sér ákveðinn þokka hvað það varðar. Eitthvað sem hægt var að skynja og sagði: „Ég hef áhuga á þér fyrir það hver þú ert og hef tíma fyrir þig.“ Enda skein það í gegn að hann hafði áhuga á fólki, tók öllum eins og þeir voru og slíkir einstaklingar sitja eftir í huga manns – sem hann mun alltaf gera hjá mér og vafalaust ótal fleirum. Hann gat alltaf minnst einhvers sem maður gerði. Þegar við ætluðum að keyra norður saman og hann talaði um að skiptast á og ég sagðist ætla að keyra fyrstu 400 km. Þessu hafði hann gaman af og rifjaði gjarnan upp þegar átti að fara eitthvað.

Afi var fullur lífsþróttar og tók mikið þátt í ýmsum félagsstörfum. Þau amma urðu hreinlega meira upptekin eftir að hafa sest í helgan stein og eitt sinn orðaði hann það þannig að það væri ótrúlegt hvað hann hefði getað unnið áður fyrr fyrir öllum þessum áhugamálum!

Það virtist alltaf hægt að spyrja að nánast hverju sem er og ég spurði hann út í hitt og þetta og alltaf hafði hann svör á reiðum höndum, orðaði hlutina vel og kom þeim frá sér á skiljanlegan og góðan hátt. Að sama skapi kunni hann ótal vísur og sögur. Það kom gjarnan fyrir þegar við vorum að spjalla um eitthvað að þá minntist hann einhverrar vísu og þuldi hana upp, þó hann hefði ekki farið með hana árum, jafnvel áratugum saman.

Það var stutt í glens og grín hjá afa og við kunnum virkilega vel að meta að kasta fram smá gríni okkar á milli. Hann var alltaf fljótur til svars eins og þegar hann var kominn á líknardeildina þá var Hermann bróðir að spyrja hvort hann væri þyrstur og taldi upp drykki á borðinu hjá honum, síðan voru blóm á borðinu og ég sagði „og þarna er síðan blóm, en þú mátt ekki éta þau.“ Þá svaraði hann um hæl „nei ég skal ekki borða þau frá þér, Húni minn!“

Afi var líka ansi orðheppinn. Einu sinni vorum við að setjast upp í bíl í Kópavogi og á leiðinni niður í bæ í útréttingar og ég spyr hvort það sé í lagi að kíkja við í IKEA. Þá sagði hann að þetta væri nú í leiðinni fyrst það væri einu sinni búið að kveikja á bílnum.

Hver var hann mér? Fyrst og fremst frábær afi, einhver sem maður gat leitað til og einn af þeim sem hafa reynst mér allra best og ég tileinka þeim ömmu mína menntun. Það var tvennt sem ég ræddi við hann áður en hann lést, það var mitt mikla þakklæti til hans og ömmu fyrir allt og það að mér fyndist maður er manns gaman best lýsa honum og hann sagði „það var nú gott ef við gátum gert eitthvað fyrir þig, Húni minn.“

Afi trúði á það að maður þyrfti ekki endilega að fá eitthvað til baka fyrir góðverk sín og trúði á hugmyndina að „láta það ganga“, ef svo má segja og það hef ég tileinkað mér. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst honum, manninum sem afi var. Ég er betri fyrir vikið og ég hef margoft hugsað hvernig afi myndi tækla hlutina af rósemi og réttsýni þegar ég þarf að staldra við og hugsa málin.

Takk fyrir allt, afi minn. Þinn

Húni.

Afi var alltaf glaður að sjá mann. Skipti þá engu máli hvort við höfðum verið saman daginn áður eða ekki sést í einhverja mánuði. Alltaf tók á móti manni hlýtt bros og gleðiglampi í augum. Ég held ég þekki engan sem bauð mann jafn velkominn með fasinu einu saman.

Ein af mínum fyrstu minningum um afa er úr eldhúsinu á Laugalandi. Þar sátum við félagarnir og afi var að sýna mér hvernig ætti að borða hausinn á soðinni bleikju. Þetta fannst honum gott. Ég get með sanni sagt að þó svo ég hafi margt lært af honum afa þá hef ég aldrei lagt í að borða soðinn bleikjuhaus.

Mörgum stundum eyddum við í að ræða veiðar. Hann hafði gríðarlega gaman af þessu veiðibrölti mínu og skemmtilegast þótti honum að heyra veiðisögur af svæðum sem hann þekkti til á og þá sérstaklega úr Fossárdalnum. Var þá farið ýtarlega yfir alla staðhætti og örnefni. Það var alltaf gaman að færa afa og ömmu villibráð. En rjúpur úr Fossárdal, það þótti honum best.

Afi var þessi lúmski húmoristi. Hann virtist alltaf geta séð spaugilegar hliðar á málunum og góðlátleg skot hans voru oft á tíðum óborganleg. Þetta hefur án efa komið sér vel við kennslu og í félagslífinu. Enda var afi mjög virkur og kom maður aldrei í heimsókn án þess að það væri verið að vinna að einhverju málefni eða skipuleggja næsta viðburð.

Afi hefur alltaf verið fastur punktur í lífi mínu og fjölskyldunnar. Hann hafði einstakan áhuga á því sem við vorum að fást við og ef það var veisla í fjölskyldunni, skírn, útskrift eða stórafmæli þá var ekki hikað við að keyra landshluta á milli til að mæta. Barnabarnabörnunum gaf afi alltaf nægan tíma. Hann hafði virkilega gaman af þeim og þau af honum.

Þín verður sárt saknað.

Hrafn, Sigrún Björk, Dagbjört Rós, Karen Hulda og Víkingur Kári.

Mér hefur alltaf þótt það vera mikill heiður að hafa verið skírður í höfuðið á afa mínum og ég vissi að honum þótti mjög gaman að geta kallað mig nafna sinn. Ég leit ávallt upp til hans og þá sér í lagi hversu jákvæður hann var alltaf. Sama hvað bjátaði á það var alltaf hægt að finna jákvæðu punktana og slá á létta strengi. Hann var nýjungagjarn og ófeiminn við að takast á við nýjar áskoranir, nema þegar kom að bílakaupum, þá nennti hann engum áskorunum og hélt sig við sína tegund.

Afi var vinmargur og hafði sérstakt dálæti á fólki, hann vildi ólmur vita hvaða mann hver hafði að geyma og var alltaf tilbúinn að kynnast nýjum einstaklingum. Allir sem þekktu hann vita að hann var vinur í raun og stóð þétt við bakið á hverjum þeim sem þurfti. Það sem ég mun sakna mest er að heyra afa segja sögur. Sögur af hinu og þessu sem enduðu oftast á ættfræðilegri upptalningu þeirra sem voru í sögunni.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til tímans sem við áttum saman, svo dýrmætar stundir sem kenndu mér margt þótt ég hafi ekki endilega áttað mig á því á þeim tímapunkti. Þakklæti fyrir að sýna mér að vinna og eljusemi mun skila þeim árangri sem vænst er ef trúin á sjálfan þig er til staðar. Þakklæti fyrir að kenna mér svo margt, svo sem hvernig eigi að planta trjám, hvernig eigi að huga að trjám, hvað fossarnir, lækirnir, fjöllin, dalirnir og jöklarnir á Íslandi heita.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Takk fyrir að vera ávallt til staðar fyrir mig og mitt fólk, þín verður sárt saknað.

Þinn nafni,

Hermann Jóhannesson,

Sunna Eldon Þórsdóttir, Þórdís Helga Eldon Hermannsdóttir.

Það er með söknuði og eftirsjá að ég sest niður til að skrifa fáein minningarorð vegna fráfalls bróður míns Hermanns, sem kvaddur er í dag.

Hann var einn úr stórum systkinahópi sem ólst upp á Fossárdal í Berufirði á fyrri hluta síðustu aldar, sá sjöundi í röðinni af níu fæddum. Guðmundur, fæddur 1931, dó á fimmta ári en hin náðum öll fullorðinsaldri.

Ég man lítið eftir Hermanni fyrstu árin hans. Þó á ég eina ljóslifandi minningu honum tengda sem mér er afar kær: Það var hlýr sumardagur, foreldrar okkar fóru til kirkju að Berufirði og tóku með sér litla snáðann sem var óskírður, kominn hátt á fyrsta árið. Að áliðnum degi ríður mamma í hlað, situr keik í söðlinum í fína reiðpilsinu sínu og hefur í fanginu ljóshærðan brosleitan kút og biður elstu systurina að taka við honum. Segir um leið og hún rennir sér af baki: „Hann heitir Hermann, svo nú megið þið halda áfram að kalla hann Manna“, en það höfðum við gert fram að þessu. Það nafn lagðist síðar af á fullorðinsárunum.

Hermann stundaði nám við Eiðaskóla og síðar við Menntaskólann á Akureyri. Þar kynntist hann konuefninu sínu, Huldu, og bæði luku þau stúdentsprófi þaðan. Þau giftu sig 1958 og fóru fljótlega að kenna við grunnskóla á ýmsum stöðum og öfluðu sér kennararéttinda meðfram því, með setu í kennaraháskóla og að hluta einnig í bréfaskóla.

Síðustu ár í starfi var Hermann skólastjóri við grunnskólann að Laugalandi í Holtum. Þaðan fluttu þau suður í Kópavog og áttu húsið að Álfhólsvegi 76.

Hermann og Hulda eignuðust fjögur börn, en misstu soninn Hrafn í flugslysi í september 1980. Hann var 16 ára og nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum, vel gefinn og glæsilegt mannsefni. Má geta nærri hvílíkt áfall það var. Hin sem eftir lifa eru nú fullorðið fólk og eiga samanlagt fjölda afkomenda.

Eftir að Hermann lét af störfum sneri hann sér að hinum fjöldamörgu áhugamálum sínum sem væri of langt mál upp að telja. Hann átti gott með að tjá sig, hvort sem var í rituðu eða mæltu máli, las mikið, átti gott bókasafn og hafði góðan smekk fyrir bókum, einkum ljóðum. Ein af mínum bestu bókum, Skáldið sem sólin kyssti, keypti ég fyrir ábendingu Hermanns.

Hann var félagslyndur og hjálpfús ef eftir því var leitað. Hann skilur eftir vandfyllt skarð í hópi fjölskyldu og vina.

Að lokum vil ég benda á hvað hlutur Huldu er stór. Í öll þessi ár hefur hún staðið, traust og æðrulaus, við hlið mannsins síns, allt frá fyrstu stundum og þar til yfir lauk. Um leið og ég þakka bróður mínum langa samfylgd votta ég henni og afkomendum mína innilegustu samúð.

Guðrún.

Við Hermann vorum herbergisfélagar einn námsvetur í MA. Hann kom til okkar úr Reykjavíkurskóla, nokkuð eldri en við hin og þroskaðri maður. Hann lét ekki mikið fara fyrir sér í skóla en var þátttakandi í öllu sem fundið var upp á og traustur liðsmaður.

Ég má til með að rifja upp að Hermann tók sig til að eigin frumkvæði og gerði við kappróðrarbát í eigu MA sem hafði lengi legið í reiðileysi og lagði í það mikla vinnu. Það varð svo mörgum til ánægju að róa um Pollinn, jafnvel fara í sólbað í Þingeyjarsýslu handan fjarðar. Hermann kapteinn úthlutaði róðrartímum af röggsemi og lipurð.

Eftir stúdentspróf skildi leiðir okkar og lágu ekki saman fyrr en báðir voru rosknir menn. Hermann átti þá farsæla ævi að baki, hafði verið bóndi í áratug á æskuslóðum sínum á Eyjólfsstöðum í Berufirði og hafði einnig skilað heilladrjúgu ævistarfi sem kennari og skólastjóri. Hermann var félagsmálamaður af bestu gerð, öflugur forystumaður í Félagi kennara á eftirlaunum og rækti einnig hlutverk óbreytts félaga af alúð með staðfastri þátttöku sinni og voru þau hjónin Hulda og hann samhent í því. Fyrir sextíu árum brautskráðumst við ásamt bekkjarsystkinum okkar frá MA.

Við sungum Gaudeamus, hvatning um að njóta lífsins meðan ungur er. Seinni hluti erindisins um það að óhjákvæmilega „eignast jörðin okkur“ – nos habebit humus, áreiðanlega ekki ofarlega í huga þá vordaga. En nú er sú stund komin.

Ég kveð Hermann með miklu þakklæti fyrir samveruna og í nafni MA-stúdenta 1956 votta ég öllum aðstandendum samúð.

Emil Ragnar Hjartarson.