Hrólfur Jónsson
Hrólfur Jónsson
„Vinna við deiliskipulag Vogabyggðar 1 er þegar hafin. Við gerum ráð fyrir að það geti farið í auglýsingu innan mánaða,“ segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.

„Vinna við deiliskipulag Vogabyggðar 1 er þegar hafin. Við gerum ráð fyrir að það geti farið í auglýsingu innan mánaða,“ segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg.

Eftir að deiliskipulag hefur verið samþykkt, sem tekur fimm til sex mánuði eftir auglýsingu, er hægt að hefja framkvæmdir, segir Hrólfur.

„Samhliða vinnu við gerð deiliskipulags eða á auglýsingatímanum munum við hefja hönnun gatna og undirbúning að fyllingu. Við gerum þess vegna ráð fyrir að framkvæmdir þarna geti hafist í byrjun næsta árs við götur og annan undirbúning svæðisins. Það er síðan eigenda lóðanna að hefja undirbúning að hönnun og teikningu húsa þarna. Í sjálfu sér geta framkvæmdir við húsin hafist samhliða gatnaframkvæmdum en ég á þó von á að það verði eitthvað síðar. En þó er ekki ósennilegt að byggingarframkvæmdir við húsin hefjist í mars 2018,“ segir Hrólfur.

Hann segir að á svæðinu séu eingöngu byggingar í eigu lóðarhafans sem verið var að semja við og hann sjái um allt niðurrif. Sá þáttur eigi ekki að vera hamlandi á neinn hátt fyrir uppbygginguna.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun í borgarráði þar sem þeir töldu mikilvægt að við skipulag Vogahverfis yrði þess gætt að halda þeim möguleika opnum að Sundabraut liggi um svæðið samkvæmt svokallaðri innri leið, t.d. í göngum.

Hrólfur Jónsson segir aðspurður að frá því hafi verið gengið bæði í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins hvar Sundabraut skuli liggja. Sú lega sé rétt vestan við gamla Kleppsspítala. Jafnframt sé verið að ganga frá lokasamþykki deiliskipulags fyrir Vogabyggð 2 og hafi skipulag þess svæðis jafnmikil áhrif á mögulega legu Sundabrautar um þetta svæði eins og Vogabyggð 1. „Sundabraut hefur aldrei verið þarna á skipulagi. Vegagerðin hefur hins vegar sett fram hugmyndir um legu Sundabrautar þarna sem svokallaða innri leið. Þegar Sundabraut var mest í umræðunni fyrir 12 árum var mikil andstaða íbúa á svæðinu við þessa hugmynd Vegagerðarinnar,“ segir Hrólfur.