Verð á ferskum þorski er alla jafna lágt um þessar mundir vegna sölu frá Noregi. Framboð þaðan minnkar í lok apríl.
Verð á ferskum þorski er alla jafna lágt um þessar mundir vegna sölu frá Noregi. Framboð þaðan minnkar í lok apríl. — Morgunblaðið/Ófeigur
Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Ekki er á vísan að róa að hefjast aftur handa við að selja fisk eftir sjómannaverkfall því sumir viðskiptavinir hafa keypt af öðrum í millitíðinni.

Stjórnendur fisksölufyrirtækjanna Iceland Seafood International (ISI) og Ice Fresh Seafood, sem er í eigu Samherja, eru sammála um að enn sé of snemmt að segja til um það hvernig markaðir hafa brugðist við eftir að sjómannaverkfalli lauk. „Við erum ekki enn farnir að sjá heildarmyndina,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri ISI. Framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, stærstu útgerðar landsins, segir hins vegar að markaðir hafi tekið lausn verkfallsins vel.

Brot af heildinni

Aðspurður hvort viðskiptavinir hafi dottið úr skaftinu segir Brynjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, svo ekki vera. Aftur á móti hafi einhverjar vörur sem voru á boðstólum hjá erlendum stórmörkuðum ekki enn fengið aftur sitt gamla hillupláss. „Í heildarsamhenginu er það einungis lítið brot,“ segir hann.

Sjómenn voru í rúmlega tveggja mánaða verkfalli sem lauk 19. febrúar. Það er ekki á vísan að róa að hefjast aftur handa við að selja fisk eins og ekkert hafi í skorist, því sumir viðskiptavinir þeirra hafi keypt af öðrum í millitíðinni. „Við þurfum í einhverjum tilvikum að bjóða lægra verð en fyrir verkfall til að komast aftur inn á markað enda hafa viðskiptavinir þurft að bregðast við verkfallinu með því að kaupa fisk af öðrum,“ segir Helgi Anton.

Í ofanálag þurfa sjávarútvegsfyrirtæki að glíma við að gengi krónu hefur styrkst að undanförnu, sem merkir að þau fá lægri tekjur í krónum talið og kostnaður eykst.

Ferskur, frystur og saltaður

Skipta má sölu á sjávarfangi í þrjá flokka: ferskan fisk, frystan fisk og saltaðan. „Við vitum til að mynda ekki enn hvort við höldum þeim samningum sem við höfðum um sölu á ferskum fiski til Bandaríkjanna. Nú er unnið að því að halda þeim viðskiptum,“ segir Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood, sem lætur þess getið að samningar um frystar afurðir við stórmarkaði séu alla jafna til langs tíma og því sé auðveldara að ganga aftur inn í þá samninga en aðra.

Verð á ferskum þorski er alla jafna lágt um þessar mundir. Það er meðal annars vegna þess að norskar útgerðir veiða ekki jafnt og þétt yfir árið eins og íslenskar, heldur er hafist handa við upphaf árs og farið er að draga úr veiðum í lok apríl. Í þessu samhengi skiptir máli, að í Noregi er landað um þriðjungi af öllum þorski í heiminum. Framboð Norðmanna á fiski hefur því áhrif á verðlag. Samanlagt ráða Rússar og Norðmenn yfir næstum 70% af kvótanum. Ísland er mun minna. Sérstaða Íslands er að geta boðið upp á ferskan fisk árið um kring, og standa vonir til að það kalli á að viðskiptasambönd verði endurnýjuð.

Varðandi frysta fiskinn, þá er ekki farið að reyna fyllilega á með hvaða hætti viðskiptavinir muni bregðast við, að sögn Helga Antons. Hann bendir á að það taki nokkurn tíma að framleiða frystan fisk, vegna þess að t.d. frystitogarar, sem frysta fiskinn samstundis, eru oft við veiðar í fjórar vikur. Það sé þó ekki algilt, ýmsir hafi farið í styttri veiðitúra. „Við erum samt sem áður nokkuð bjartsýnir á að sú sala muni ganga vel,“ segir Helgi Anton. Svipaða sögu er að segja af saltfiski, það taki um fjórar vikur að framleiða hann, afhending á söltuðum fiski er því ekki hafin.

Birgðir kláruðust í verkfallinu

Að því sögðu, þá áttu fisksölufyrirtækin umtalsvert af frosnum fiski sem hægt var að selja viðskiptavinum í verkfallinu. Það kom þó að þeim degi, að þær birgðir kláruðust.

Brynjólfur Eyjólfsson hjá HB Granda segir að almennt hafi markaðir tekið endurkomu útgerðarinnar vel. „Viðskiptavinir eru fegnir að verkfallið leystist með samningi milli aðila,“ segir hann.

Gústaf Baldvinsson hjá Ice Fresh Seafood segir hins vegar að stórmarkaðir spyrji með hvaða hætti sé hægt að tryggja að sjómenn fari ekki aftur í verkfall, og menn hafi svörin við þeirri spurningu ekki á reiðum höndum.