Verðlaunapíanisti Paul Lewis á æfingu í Hörpu í gær. Diskur með flutningi hans á píanósónötum Beethovens hlaut Gramophone-verðlaunin árið 2008 fyrir bestu hljóðritun. Í kvöld leikur hann tvo píanókonserta tónskáldsins.
Verðlaunapíanisti Paul Lewis á æfingu í Hörpu í gær. Diskur með flutningi hans á píanósónötum Beethovens hlaut Gramophone-verðlaunin árið 2008 fyrir bestu hljóðritun. Í kvöld leikur hann tvo píanókonserta tónskáldsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Enski verðlaunapíanistinn Paul Lewis mun leika alla fimm píanókonserta Ludwigs van Beethovens á þrennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og verða þeir fyrstu haldnir í kvöld í Eldborgarsal Hörpu.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Enski verðlaunapíanistinn Paul Lewis mun leika alla fimm píanókonserta Ludwigs van Beethovens á þrennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og verða þeir fyrstu haldnir í kvöld í Eldborgarsal Hörpu. Á þeim leikur Lewis annan og þriðja konsert Beethovens en næstu tónleikar fara fram í september og svo í febrúar á næsta ári.

Píanókonsertar Beethovens eru meðal hans helstu meistaraverka og í þeim kannar hann með nýjum hætti þanþol hljóðfærisins og samspil þess við hljómsveitina sem sömuleiðis var stærri en tíðkast hafði nokkrum áratugum fyrr, eins og segir í tilkynningu frá SÍ.

Lewis hefur hlotið mikla athygli og lof fyrir túlkun sína á konsertunum og varð fyrstur til að leika þá alla á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall í Lundúnum árið 2010. Hann lék síðast í Hörpu árið 2013, flutti þá verk eftir Bach, Beethoven, Liszt og Mussorgskíj. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum í kvöld er landi Lewis, Matthew Halls og auk konserta Beethovens verður flutt sinfónía Josephs Haydn nr. 96. Tónleikakynning hefst kl. 18.20 og tónleikarnir kl. 19.30.

Dásamlegt land

Lewis hefur leikið konsertana fimm í ýmsum löndum á undanförnum árum og segist hann glaður hafa tekið boðinu um að gera það í Hörpu því Ísland sé dásamlegt land. „Eitt af því besta við starf mitt er að fá að ferðast til undursamlegustu landa heims,“ segir hann.

– Nú eru engir tveir píanóleikarar eins og nálgun þín á konsertana hlýtur því að vera ólík nálgun annarra, ekki satt?

„Ég held að allir hafi sína persónulegu nálgun og sýn á þessi verk. Ég hef tekið eftir því að nálgun mín hefur breyst með tímanum. Ef ég lít aftur til hljóðritana sem ég gerði á konsertunum árin 2009 og 2010 þá hefur túlkun mín breyst frá þeim tíma. Ég held því að nálgun allra píanóleikara taki breytingum með tímanum, hún ætti í raun að gera það og ef hún gerir það ekki veltir maður fyrir sér hvers vegna svo sé. Það er eðlilegt að uppgötva eitthvað nýtt í þessum verkum eftir því sem maður leikur þau oftar,“ segir Lewis.

Við bætist svo ólíkir samstarfsmenn, hljómsveitir, tónleikasalir, ólík hljóðfæri og aðrir þættir sem hafi áhrif á túlkunina hverju sinni.

– Þriðji konsertinn er mun dramatískari en annar konsertinn?

„Já, hann er það. Hann einkennist af því sem við þekkjum sem miðtímabil Beethovens, inniheldur dramatíkina sem c-moll ber með sér, mikla spennu sem leysist á endanum. Beethoven finnur alltaf svar undir lokin og það gerir hann í þessu verki. Annar konsertinn er í raun sá fyrsti, hann var saminn á undan þeim sem þekktur er sem sá fyrsti og er mun Mozart-legri í tónmáli sínu, gegnsærri, léttari, klassískari og lýrískari. Það eru ekki sömu óveðursskýin í honum og þeim þriðja. Þannig að það er heilmikill munur á þessum konsertum.“

Ofurmannleg tónlist

– Hvað heldurðu að hafi verið að gerast í huga Beethovens þegar hann samdi þessi verk?

„Tja...Beethoven er með ákveðin skilaboð sem hann vill koma áleiðis. Hann hafði sterkar skoðanir á hinum ýmsu málefnum, lífinu, stjórnmálum og hinu og þessu. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort þessar skoðanir hans birtist í tónlistinni. Síðan bætast auðvitað við flytjendurnir og áheyrendurnir og við getum velt því fyrir okkur hvað Beethoven var að fara. Sumt er býsna augljóst, annað ekki og það er hluti af því sem gerir tónlistina svo heillandi, hver upplifir hana með sínum hætti og leggur sína merkingu í hana,“ svarar Lewis.

Hann segir vitað að Beethoven glímdi við ýmsa erfiðleika um ævina, m.a. heyrnarleysi og veikindi, og tónlist hans beri þess oft merki. „En það er líka þessi tilfinning fyrir lausn í henni, lausn á vandamálum. Við vitum samt sem áður að hann fann ekki alltaf lausnir við vandamálunum í lífi sínu og þá verður tónlistin á einhvern hátt ofurmannleg eða drifin áfram af háleitum hugsjónum. Listin færir lausnina frekar en raunveruleikinn.“

Hitar vel upp

Lewis er spurður að því hvernig hann undirbúi sig fyrir tónleika og segir hann mikilvægt að hita vel upp. „Ég get ekki gengið beint inn á svið og byrjað að leika ef mér er kalt á höndunum. Ég spila í allt að klukkutíma áður en ég geng inn á svið og það er býsna langur tími. Sumir tónlistarmenn verja mjög litlum tíma í upphitun og finnst það í góðu lagi en ég þarf að finna fyrir því að vöðvarnir séu reiðubúnir fyrir átökin. Að öðru leyti reyni ég að gera sem minnst á tónleikadegi, einbeita mér að því sem er framundan og hvíla mig vel þannig að ég sé vel vakandi og með á nótunum þegar að tónleikum kemur,“ segir Lewis.

– Þessi lýsing gæti allt eins átt við atvinnumann í íþróttum. Þessi tvö störf eiga e.t.v. margt sameiginlegt?

„Já, það er auðvitað þessi líkamlega hlið á þeim báðum. Það er nauðsynlegt að halda sér í góðu líkamlegu formi í þessu starfi og auðvitað líka andlegu. Íþróttamenn og tónlistarmenn eiga þetta sameiginlegt og þurfa að gíra sig upp í átökin,“ segir Lewis.

– Og tónleikagestir fylgjast jafnspenntir með þér og keppanda í 100 metra spretthlaupi á Ólympíuleikum?

„Já, það er rétt. Nema hvað að tveir Beethoven-konsertar taka mun lengri tíma!“ segir Wilson og hlær. Ýmislegt geti svo haft áhrif þegar að tónleikum kemur, t.d. tónleikagestur sem hóstar í sífellu í viðkvæmum köflum. „Það tekur dálitla orku frá manni,“ segir Lewis kíminn.