Samgöngustofa hefur þegar hafið skoðun á þeim tillögum í öryggisátt sem Rannsóknanefnd samgönguslysa, RNSA, leggur fram í skýrslu sinni um sjóslysið þegar dragnótabáturinn Jón Hákon BA sökk á Vestfjarðamiðum að morgni 7. júlí 2015.

Samgöngustofa hefur þegar hafið skoðun á þeim tillögum í öryggisátt sem Rannsóknanefnd samgönguslysa, RNSA, leggur fram í skýrslu sinni um sjóslysið þegar dragnótabáturinn Jón Hákon BA sökk á Vestfjarðamiðum að morgni 7. júlí 2015. Einn maður fórst en þrír björguðust í nærstaddan bát.

Tveir gúmmíbjörgunarbátar voru í sjálfvirkum sleppibúnaði á þaki stýrishúss Jóns Hákons en eftir að honum hvolfdi skilaði hvorugur björgunarbátanna sér upp á yfirborðið. Komst nefndin að því að líklega hefði sami sjósetningarbúnaðurinn verið í skipinu frá upphafi, eða í tæp 30 ár.

Nefndin beindi því til Samgöngustofu að þegar yrði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag.

Samkvæmt reglugerð um öryggi fiskiskipa skal sjálfvirkur losunar- og sjósetningarbúnaður uppblásanlegra björgunarbáta virkniprófaður eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Fram kemur í svari Samgöngustofu til Morgunblaðsins að í árlegri skoðun á björgunarbúnaði báta eigi m.a. að prófa virkni losunar- og sjósetningarbúnaðar, þ.e. hvort búnaðurinn opnist eins og ætlast sé til. Sú prófun geri ráð fyrir því að virknin sé reynd án þess að bátshylki sé hleypt fyrir borð, en þó með þeim hætti að sjáanlegt sé að búnaðurinn virki sem skyldi.

„Í reglugerðinni er til viðbótar gert ráð fyrir því að á fimm ára fresti sé búnaðurinn prófaður með því að hylki sé hleypt út. Ástæður þess að þeirri prófun hefur ekki verið komið á eru nokkrar. Í fyrsta lagi sú að vafi hefur þótt leika á því að hún gefi markverðar upplýsingar umfram þær sem hin árlega skoðun leiðir í ljós. Í öðru lagi að slík prófun yrði umfangsmikil í framkvæmd og auk þess mögulega hættuleg þegar hún færi fram við bryggju. Í þriðja lagi þykir af framangreindu ekki nægilega skýrt að gagnlegar upplýsingar fengjust og þar með að prófunin gæti illa réttlætt þann aukna kostnað sem þyrfti til að framkvæma hana. Hafa skal í huga að þessar kröfur til búnaðarins hafa ekki verið endurskoðaðar frá því þær voru gerðar,“ segir í svari Samgöngustofu. bjb@mbl.is