Betra er seint en aldrei. Um kvöldmatarleytið annað kvöld verð ég búinn að fá mér sæti á söguslóðum íslenskrar knattspyrnu. Neckar-leikvanginum í þýsku borginni Stuttgart, sem reyndar er kenndur við Benz-bifreiðar í dag.
Betra er seint en aldrei. Um kvöldmatarleytið annað kvöld verð ég búinn að fá mér sæti á söguslóðum íslenskrar knattspyrnu. Neckar-leikvanginum í þýsku borginni Stuttgart, sem reyndar er kenndur við Benz-bifreiðar í dag.

Ég er eiginlega um það bil þremur áratugum of seint á ferð. Íslendingar léku stór hlutverk í tveimur af fimm meistaratitlum Stuttgart í sögu félagsins.

Ásgeir Sigurvinsson var aðalmaðurinn þegar Stuttgart varð meistari 1984, svo mjög að hann var kjörinn besti leikmaður þýsku Bundesligunnar, á undan öllu vestur-þýska landsliðinu, og í kjölfarið kjörinn þrettándi besti knattspyrnumaður heims.

Eyjólfur Sverrisson fetaði í fótspor Ásgeirs og var í næsta meistaraliði Stuttgart, árið 1992. Þeir náðu að spila saman í síðustu leikjum Ásgeirs á ferlinum og Eyjólfur gerði þá fyrsta mark sitt sem atvinnumaður eftir nákvæma sendingu landa síns.

Annað kvöld verð ég ásamt félögum mínum í hádegisfótboltaklúbbnum Lunch United á Neckar/Benz-leikvanginum þar sem Stuttgart tekur á móti Bochum. Því miður er liðið núna í næstefstu deild, í fyrsta sinn í 40 ár, en stefnir hraðbyri þaðan. Án efa verður rífandi stemning á þessum glæsilega 60 þúsund manna leikvangi þar sem Stuttgart freistar þess að auka forskot sitt á toppi B-deildar.

Eyjólfur og Ásgeir eru með í för, enda liðsmenn Lunch United, og á sunnudag mætum við einhverjum sambærilegum þýskum hádegisfótboltaköppum í Stuttgart. Ásgeir spilar reyndar ekki með okkur en Eyjólfur lætur eflaust mikið að sér kveða. Vonandi komast allir heilir frá þeirri hildi!