— Morgunblaðið/RAX
Þær eru smáar en þó býsna knáar, þúsundfætlurnar sem nýverið klöktust úr eggjum sínum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og sjá má aftast í lófa Stellu Kristjánsdóttur, búfræðings og dýrahirðis í garðinum.

Þær eru smáar en þó býsna knáar, þúsundfætlurnar sem nýverið klöktust úr eggjum sínum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og sjá má aftast í lófa Stellu Kristjánsdóttur, búfræðings og dýrahirðis í garðinum. Fremst í lófanum hringa foreldrarnir sig, en þeir eru af tegundinni madagascar ringed millipede. Að sögn Stellu er þetta í fyrsta skipti sem þúsundfætlurnar fjölga sér og óhætt er að segja að fjölgunin hafi verið talsverð, því um 200 þúsundfætlur bættust nú við.

Þúsundfætlurnar halda til í skordýra- og skriðdýrahúsi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og deila híbýlum m.a. með froskdýrum, eðlum, sporðdreka og ýmsum öðrum skordýrum. Og eins og náttúrunnar er gangur rata smærri dýrin stundum á matseðil þeirra stærri. „Þetta eru dásamleg og stórmerkileg dýr sem gaman er að fylgjast með,“ segir Stella um þúsundfætlurnar. „Þær lifa í skógarbotni á rotnandi jurtaleifum og sjá þannig um að hreinsa til og búa til nýjan jarðveg.“ annalilja@mbl.is