Skipstjórar Sigtryggur Gíslason og Angantýr Arnar Árnason.
Skipstjórar Sigtryggur Gíslason og Angantýr Arnar Árnason.
„Skipið stóðst fullkomlega allar væntingar okkar og rúmlega það,“ segir Angantýr Arnar Árnason, skipstjóri á Kaldbak.

„Skipið stóðst fullkomlega allar væntingar okkar og rúmlega það,“ segir Angantýr Arnar Árnason, skipstjóri á Kaldbak. Tveir skipstjórar verða með skipið til skiptis, Angantýr og Sigtryggur Gíslason, og voru þeir báðir um borð á heimsiglingunni frá Istanbúl til Akureyrar, þangað sem Kaldbakur kom á laugardagsmorgun.

Angantýr segir að vissulega eigi eftir að reyna á hvernig skipið hagar sé þegar í það verður kominn búnaður og afli í lestar, en byrjunin lofi mjög góðu. Á leiðinni heim hrepptu þeir vonskuveður á hluta leiðarinnar en skipið stóð sig með prýði.

„Við fengum 10-11 vindstig á leið úr Biskajaflóa norður undir Írland, fyrst aftan við þvert, síðan þvert og svo framan við þvert áður en við fengum bræluskít, átta vindstig, beint í nefið. Skipið tók þessu veðri mjög vel og það voru engin högg og enginn titringur eins og er þegar hefðbundin skip stinga stefninu í ölduna og viðnámið verður gríðarlega mikið. Kaldbakur klauf ölduna ákaflega mjúklega og það var allt annað að ferðast á skipinu heldur en á öðrum skipum sem ég hef verið á.

Stóra stefnið var að skila sínu, en í raun var öll hönnunin undir því skipið er á margan hátt öðru vísi hannað en hefðbundin skip og ég held að óhætt sé að segja að grunnhönnunin hafi tekist mjög vel,“ segir Angantýr, sem hefur starfað við skipstjórn í yfir 40 ár.