Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Er það eitthvert náttúrulögmál að lántakendur verði alltaf að taka á sig skellina ef mistök verða í fjármálaákvörðunum auðvaldsins?"

Hvað er það sem réttlætir vaxtastefnu stjórnvalda? Auðvaldið talar sífellt um að það verði að halda verðbólgunni niðri.

Við sem stöndum úti í þjóðfélaginu til hliðar við þetta allt saman skiljum varla upp eða niður í málunum og látum misvitra sprenglærða hagfræðinga mata okkur á alls konar formúlum sem flestar virðast stefna í þá átt að verja fjármagnseigandann.

Er það eitthvert náttúrulögmál að lántakendur verði alltaf að taka á sig skellina ef mistök verða í fjármálaákvörðunum auðvaldsins?

Það er ósköp auðvelt að vernda auðvaldið og svo verður unga fólkið okkar bara að taka skellinn.

Ef verðbólga mælist í hagkerfi þjóðarinnar, hvað réttlætir það að slíkt verði að koma niður á lántakandanum?

Af hverju ættu þeir ekki, sem hafa haft aðstöðu frá löggjafanum til að raka til sín fjármagni í gegnum árin, einnig að taka á sig skellinn af misheppnuðum aðgerðum fjármálamógúla?

Af hverju er lántakandinn, sem oft er unga fólkið okkar, alltaf látinn taka á sig kostnaðinn af misheppnuðum aðgerðum og eða skrítnum reikniformúlum sérfræðinganna og því í ósköpunum eru lánveitendurnir ekki látnir taka a.m.k. helming verðbótaálags vegna lána unga fólksins okkar?

Væri það ekki góður vöndur á þá sem um fjármálin sýsla í orði og á borði að vita það að verðbólguálag kæmi jafnt niður á fjármagnseigandanum sem og lántakandanum?

Er eitthvert réttlæti í þessu eins og þetta er framkvæmt í dag?

Eiga þeir sem setja lögin kannski einhverra hagsmuna að gæta í þessum málum?

Það tóku kannski ekki margir eftir setningunni hjá einum af fyrrverandi forsætisráðherrum okkar þegar hann var spurður að því af hverju stjórnvöld létu ekki laga vaxtamálin, svarið var stórskrítið: „Það væri ekki Alþingis að stjórna þeim málum í þjóðfélaginu.“ Almenningur vill þó meina að það sé Alþingis okkar að sjá til þess að réttlæti ríki í landinu.

Fólkið í landinu tekur þátt í kosningum í þeirri trú að verið sé að kjósa fólk til að sníða okkur reglur og lög sem stuðla eiga að velferð allra þegna landsins og skapa okkur lífvænlegt umhverfi í okkar góða landi.

Skora ég hér með á þingmenn vora að taka nú virkilega höndum saman og vinna vel að framtíð unga fólksins okkar allra.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri.

Höf.: Hjálmar Magnússon