Dómur fallinn Þórður Björnsson (næst) og verjendur fara yfir dóm Hæstaréttar eftir dómsuppsögu 22. febrúar 1980.
Dómur fallinn Þórður Björnsson (næst) og verjendur fara yfir dóm Hæstaréttar eftir dómsuppsögu 22. febrúar 1980.
Umfang réttarhaldanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Sakadómi Reykjavíkur og Hæstarétti var gríðarmikið. Réttarhöldin stóðu yfir í samtals 13 daga; fimm í Sakadómi og átta í Hæstarétti.

Umfang réttarhaldanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Sakadómi Reykjavíkur og Hæstarétti var gríðarmikið.

Réttarhöldin stóðu yfir í samtals 13 daga; fimm í Sakadómi og átta í Hæstarétti. Samtals stóðu réttarhöldin yfir í 54 klukkustundir, 19 í Sakadómi og 35 í Hæstarétti.

Saksóknari í Sakadómi var Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari og talaði hann í fimm og hálfa klukkustund. Þórður Björnsson, saksóknari ríkisins, flutti málið fyrir Hæstarétti. Ræða hans tók fjóra daga og var 15 og hálf klukkustund. Ræður verjenda voru styttri.

Til að lesendur átti sig á stærð þessa máls skulu hér tilfærð orð Þórðar Björnssonar undir lok seinni saksóknarræðu hans í Hæstarétti:

„Í þessu máli er saga að gerast. Sakarefnið er ekki eingöngu óvenjulegt heldur einsdæmi á þessari öld. Það eru 150 ár síðan menn á Íslandi hafa verið sakfelldir fyrir tvö manndráp en það var þegar Friðrik og Agnes drápu Natan Ketilsson og annan mann. Það þarf að fara þrjár aldir aftur í tímann til þess að finna mál þar sem þrír einstaklingar voru sakfelldir fyrir manndráp. Enn lengra þarf að fara til þess að finna jafn alvarlegar sakargiftir og hér koma fram, en þær er að finna í annálum í lok 16. aldar þar sem frá því er skýrt, að Axlar-Björn hafi meðgengið að hafa unnið á 8 mönnum.“

Dóminn kváðu upp hæstaréttardómararnir Björn Sveinbjörnsson, Logi Einarsson, Benedikt Sigurjónsson, Ármann Snævarr og Þór Vilhjálmsson.