Vogabyggð 1 Hugmynd að útliti hinnar nýju byggðar. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn.
Vogabyggð 1 Hugmynd að útliti hinnar nýju byggðar. Undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn. — Tölvumynd/jvantspijker
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum þrjá samninga sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu í Vogabyggð 1.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum þrjá samninga sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu í Vogabyggð 1. Svæði 1 í Vogabyggð er á Gelgjutanga og afmarkast af lóðinni Kleppsmýrarvegi 8 til vesturs, Kleppsmýrarvegi og Kjalarvogi 14 til norðurs, Elliðaárvogi til austurs og smábátahöfn Snarfara til suðurs.

Í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar borgarinnar kemur fram að undanfarið hafi starfshópur unnið að samningum við lóðarhafa, undirbúningi að uppbyggingu og skipulagsvinnu í svokallaðri Vogabyggð. Í vinnu þessari hefur Vogabyggð verið skipt upp í fimm svæði. Þegar er búið að semja við flesta lóðarhafa og samþykkja deiliskipulag fyrir Vogabyggð 2, sem nær frá Tranavogi að Kleppsmýrarvegi. Fjallað var um deiliskipulag Vogabyggðar 2 í Morgunblaðinu 23. febrúar. Skipulagsstofnun staðfesti skipulag svæðisins síðastliðinn þriðjudag.

Nú liggja fyrir drög að samningum um uppbyggingu í Vogabyggð 1. Þetta eru þrír samningar. Fyrsti samningurinn er milli Reykjavíkurborgar annars vegar og hins vegar Festis ehf. og Kers ehf., sem eru stærstu afnotahafar á Gelgjutanga. Samningurinn fjallar um deiliskipulagsvinnuna og hvernig aðilar skipta á milli sín þeim fimm lóðum sem áformað er að verði til við nýtt deiliskipulag.

Reykjavíkurborg framselur lóð fyrir 326 milljónir króna

Reykjavíkurborg mun fá tvær lóðirnar til ráðstöfunar en Festir ehf. fær þrjár lóðir til uppbyggingar á grundvelli samþykktar borgarráðs frá 11. júní 2015 um einkaréttarsamninga við lóðarhafa á svæðum 1, 2 og 3 í Vogabyggð. Jafnframt framselur Reykjavíkurborg aðra lóðina sem kemur í hennar hlut fyrir 325.900.000 krónur til Festis ehf. Verðið er grundvallað á mati tveggja löggiltra fasteignasala. Samningur númer tvö er samkomulag á milli Reykjavíkurborgar og Festis ehf. um uppbyggingu á lóðunum þremur (1-2, 1-3 og 1-4) sem koma í hlut félagsins sem afnotahafa á Gelgjutanga.

Þriðji samningurinn er á milli Faxaflóahafna sf. og Reykjavíkurborgar um kaup borgarinnar á meginhluta Gelgjutanga, sem nú er skilgreint sem hafnarsvæði. Kaupverðið er 40.000.000 krónur. Faxaflóahafnir sf. er nú eigandi að meirihluta lands á Gelgjutanga.

Í fyrirliggjandi drögum að samningi kemur fram að nú sé verið að vinna deiliskipulagstillögu fyrir Vogabyggð 1 á grundvelli fyrirliggjandi rammaskipulags fyrir Vogabyggð. Festir ehf., sem er stærsti leigulóðarhafinn á Gelgjutanga, og Reykjavíkurborg hafa átt í samstarfi um skipulagsvinnu á svæðinu. Ker ehf. er skráð sem afnotahafi lóðarspildu A á Gelgjutanga. Miðað er við að deiliskipulagshugmynd fyrir svæðið Vogabyggð 1 verði kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í lok mars.

Heildarbyggingamagn á lóðunum fimm getur orðið tæplega 42 þúsund fermetrar og áætlaður fjöldi íbúða er 332. Samkvæmt upplýsingum Heimis Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Festis ehf., verða eingöngu íbúðir í Vogabyggð 1. Samtals er gert ráð fyrir 33.000 fermetrum ofanjarðar í fimm húsum, þar af úthlutar Reykjavíkurborg einu húsi eða um 6.000 fm undir leiguíbúðir

Nánar verður ákvarðað um stærðir nýrra lóða, skiptingu byggingarmagns, staðsetningu byggingarreita o.fl. í væntanlegri deiliskipulagstillögu. Um 20% íbúða í húsi á lóð 1-5 skulu vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir aldraða, búseturéttaríbúðir eða Nýju Reykjavíkurhúsin í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 27. nóvember 2014. Kvaðar þessarar skal getið í deiliskipulagsskilmálum.

Fyrirhugað er að fjöldi íbúða í Vogabyggð verði 1.100 til 1.300. Ljóst sé að þessi fjöldi íbúða í hverfinu kalli á byggingu grunn- og leikskóla. Þegar uppbyggingaráform samkvæmt hugmynd að deiliskipulagi hafa gengið eftir og þegar lóðarhafar hafa sannanlega hafist handa við byggingu a.m.k. 700 íbúða á svæði 1 og 2 í Vogabyggð áætlar Reykjavíkurborg að hefja byggingu grunn- og leikskóla í Vogabyggð. Miðað er við að börn sem búa í Vogabyggð gangi fyrst um sinn í Vogaskóla.

Uppbyggingin
» Festir ehf. áformar að hefjast handa við framkvæmdir strax og nýtt skipulag
hefur verið samþykkt.
» Undirbúningur framkvæmda í Vogabyggð 1 er þegar hafinn.
» Allar byggingar á Gelgjutanga eru í eigu Festis ehf., samtals um 7.000 fermetrar. Þær verð rifnar á næstunni.
» Aðaleigendur fasteignafélagsins Festis ehf. eru hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir.