Umgengni nefndar Evrópuráðsins er ekki til eftirbreytni

Margir eru haldnir ólæknandi minnimáttarkennd vegna alls þess sem erlent er. Það lætur að líkum að margt er það í hinum hátimbraða heimi jarðarkringlunnar, sem fámenn þjóð (en stór) getur lært sitthvað af. En ekkert er þó að því, að einstakar þjóðir búi að sínu og gleypi ekki allt hrátt.

Reglubundið mæta upp hingað ágætustu fræðaþulir sem fengnir eru til að messa yfir hópum, ráðstefnum og aðalfundum. Þótt flest sem sagt er af slíkum séu skaðlaus almenn sannindi er óneitanlega margt óþægilega klisjukennt, enda margtuggið. En auðvitað er ekki útilokað að á einhverju megi græða. Líkurnar til þess minnka þó iðulega þegar sá aðkeypti tekur að setja sig á háan hest yfir einhverju sem hér tíðkast, eftir að hafa fengið átta mínútna útmálun á því yfir máltíð kvöldið áður. Lakast alls er þó þegar hingað mæta einhverjir sem telja sig hafa eins konar úrskurðarrétt yfir Íslendingum og kveða upp bólgna gildisdóma eftir að hafa fengið mötun frá einhverjum sem hefði mátt segja viðkomandi að væru fjarri því að vera óvilhallir.

Nú síðast stoppaði hér á landi stundarkorn einhver hópur sem kallaður er „Nefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum (ECRI)“. Eftir stoppið gaf sú nefnd frá sér skýrslu um Ísland. Í fréttum Fréttablaðsins segir að það sé í fimmta skipti sem það er gert. Þar koma fram áhyggjur af sjónvarpsstöðinni Omega og útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu og þeim boðskap sem þar er borinn fram. Einnig lýsir nefndin yfir áhyggjum sínum vegna umræðu Íslendinga á netinu, sérstaklega hvað varðar hinsegin fólk. Það er ekki hægt að sjá hverjir ritstýra þessari skýrslu eða bera ábyrgð á henni. Það er einnig öllum hulið hverjir það voru sem mötuðu þessa nefnd á fyrrnefndum fróðleik. Það er hins vegar ljóst að þeir sem eru nafngreindir og fá þannig opinberan áfellisdóm, sem birtur er hér á landi og um alla álfuna, voru einskis spurðir. Þeir voru ekki upplýstir um það, að þeir hefðu verið rægðir og bornir sökum við nefndarmennina. Enginn hefur sagt þeim hverjar sögusmetturnar voru. Þegar uppkast að áfellisdómnum lá fyrir var ekki gerð minnsta tilraun til að gefa þeim sem bornir eru þungum sökum tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér.

Hefur þessi nefnd aldrei heyrt um almennan andmælarétt? Hann telst til grunvallaratriða mannréttinda og er varinn hér á landi. Það sýna lög um opinbera stjórnsýslu og fjölmargar úrlausnir íslenskra dómstóla. Þeir íslensku erindrekar sem skipulögðu komu nefndarinnar hafa ekki gert neina grein fyrir málinu, sem er ámælisvert.