Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Eftir Þórhall Heimisson: "Verst af öllu er þó þegar tveir einstaklingar búa saman en annar er skráður fyrir öllum eignum, og hinn jafnvel ekki með lögheimili á staðnum."

Eins og margir hafa án efa tekið eftir höfum við í Breiðholtskirkju boðið upp á svokallaðan „Drop In-brúðkaupsdag“ þar sem fólki gefst tækifæri til að gifta sig með litlum fyrirvara og engum tilkostnaði, en með þeim hátíðleik sem slíku tilefni tilheyrir. Ástæðurnar eru ýmsar en ein af þeim stærstu er þó sú að við viljum auðvelda fólki sem er í sambúð að ganga í hjónaband, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Þetta viljum við gera til að auka öryggi allra á heimilinu. Margir átti sig nefnilega ekki á því að sömu réttindi gilda ekki á milli fólks sem er í sambúð og hinna sem eru í hjónabandi. Hér skulu nefnd nokkur dæmi:

Um óskráða sambúð gildir engin heildarlöggjöf eins og hjúskaparlög um hjúskap.

Við slit hjúskapar gildir helmingaskiptareglan svokallaða, það er að hvor maki fær helming hjúskapareignar við fjárskipti milli hjóna. Þegar um óvígða sambúð er að ræða gildir helmingaskiptareglan hins vegar ekki. Sá á eignirnar sem eignirnar eru skráðar á, hafi ekki verið gerður kaupmáli.

Enginn lögerfðaréttur er milli sambúðaraðila í óvígðri sambúð, en það merkir að sambúðaraðilar eiga ekki rétt á arfi eftir hvor annan. Milli hjóna er hins vegar lögbundinn erfðaréttur.

Sjöunda grein erfðalaga veitir maka, að meginreglu, rétt til að sitja í óskiptu búi eftir andlát hins makans. Þetta úrræði stendur aðilum í óvígðri sambúð hins vegar ekki til boða.

Ekki er fyrir hendi gagnkvæm framfærsluskylda sambúðaraðila í óvígðri sambúð eins og hjá hjónum. Með gagnkvæmri framfærsluskyldu er átt við skyldu beggja aðila hjónabands til að sjá hinu farborða.

Líftryggingartaki í óvígðri sambúð, sem vill gera sambúðaraðila sinn að rétthafa, verður að tiltaka hann sérstaklega í líftryggingarsamningi.

Og svona mætti lengi telja. Verst af öllu er þó þegar tveir einstaklingar búa saman en annar er skráður fyrir öllum eignum, og hinn jafnvel ekki með lögheimili á staðnum þar sem búið er. Sá aðili er algerlega réttlaus komi til skilnaðar eða andláts. Og þess eru því miður enn mörg dæmi. Ég vil því hvetja fólk sem er í óvígðri sambúð til þess að skoða þessi mál gaumgæfilega. Því þú tryggir ekki eftir á.

Höfundur er sóknarprestur í Breiðholtskirkju.

Höf.: Þórhall Heimisson