Hamrar í Mosfellsbæ Hjúkrunarheimilið var tekið í notkun árið 2013 og eru þar rými fyrir 30 manns.
Hamrar í Mosfellsbæ Hjúkrunarheimilið var tekið í notkun árið 2013 og eru þar rými fyrir 30 manns. — Ljósmynd/Hilmar Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Mosfellsbær hefur sagt upp samningi við ríkið um rekstur hjúkrunarheimilisins Hamra með tólf mánaða uppsagnarfresti.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Mosfellsbær hefur sagt upp samningi við ríkið um rekstur hjúkrunarheimilisins Hamra með tólf mánaða uppsagnarfresti. Viðræður við ríkið undanfarin tvö ár um aukin fjárframlög til rekstrar hafa ekki borið viðunandi árangur, að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra en lögbundin daggjöld frá ríkinu hafa ekki staðið undir kostnaði við rekstur heimilisins. Að hans sögn speglast vandi margra hjúkrunarheimila í landinu í vandanum á Hömrum.

Haraldur segist hafa trú á að lausn finnist á málinu á næstu mánuðum. Hann segist enga trú hafa á því að loka verði á Hömrum, skortur sé á hjúkrunarplássum og Hamrar séu eitt nýjasta og fullkomnasta hjúkrunarheimili landsins þó svo að það sé ekki stórt.

Þrjár leiðir í stöðunni

„Ég held að séu þrjár leiðir í stöðunni,“ segir Haraldur. „Í fyrsta lagi að samið verði um sams konar rekstrarfyrirkomulag og verið hefur, en til að við gerum annan samning eða framlengjum þann fyrri þarf ríkið að koma með aukið fjármagn til að standa undir rekstrinum og viðurkenna sérstöðu Hamra. Önnur leið er að ríkið taki yfir reksturinn og reki sjálft. Í þriðja lagi að farin verði sama leið og gert var í Hafnarfirði þar sem á að fara að byggja nýtt hjúkrunarheimili, en þar er kveðið á um að Sjúkratryggingar Íslands bjóði reksturinn út. Allar þessar leiðir eru færar að mati Mosfellsbæjar og aðilar hafa eitt ár til að finna lausn.“

Hamrar voru teknir í notkun í júní 2013 og þar eru 30 einstaklingsíbúðir. Samningur um daggjöld var gerður við ríkið, en Mosfellsbær samdi síðan við Eir um reksturinn. Á þann hátt hefur náðst ákveðin stærðarhagkvæmi að sögn Haraldar, en Eir er með öryggisíbúðir á svæðinu, sér um heimaþjónustu við aldra í Mosfellsbæ og rekur hjúkrunarheimili í Grafarvogi.

Greiðslur tvívegis en grunnurinn ekki lagfærður

Það hefur þó ekki dugað þar sem einingin að Hömrum er þung í rekstri, en þar búa m.a. nokkrir einstaklingar yngri en 67 ára sem þurfa mikla þjónustu, jafnvel allan sólarhringinn. Ekki hefur verið fallist á að greiða annað gjald vegna þessa fólks en rammasamningur Sjúkratrygginga gerir ráð fyrir.

Haraldur bendir á að sérstakur samningur hafi verið gerður við hjúkrunarheimilið í Skógarbæ í Reykjavík þar sem er sérstök deild fyrir yngra fólk og þjónustuþörfin þar hafi verið viðurkennd í þeim samningi, en slíkt hafi ekki fengist á Hömrum.

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra ber ríkisvaldinu að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila, en í flestum tilvikum hefur sjálfur reksturinn verið falinn sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum. Haraldur segir að Hamrar hafi tvívegis fengið einskiptis fjárveitingar til að koma til móts við rekstrarvanda heimilisins, en greiðslugrunnurinn hafi ekki verið lagfærður. Því hafi bærinn ekki séð sér annað fært en að segja samningnum við ráðuneytið upp og á sama tíma hafi Eir sagt upp samningnum við Mosfellsbæ.

Var að sliga einkahlutafélag um starfsemina

Í minnisblaði frá fjölskyldusviði til Bæjarráðs Mosfellsbæjar segir að rekstrargrundvöllur fyrir heimilið sé ekki til staðar. Í minnisblaðinu segir meðal annars:

„Á ótal fundum Eirar og Mosfellsbæjar um vandann hefur legið fyrir, beint og óbeint, að einkahlutafélag það sem Eir stofnaði um starfsemi Hamra væri að komast í þrot eða stæði beinlínis frammi fyrir gjaldþroti. Með ýmsum ráðum hefur verið komið í veg fyrir að svo færi, þó ekki þannig að Mosfellsbær færi á svig við það grundvallarsjónarmið að greiða ekki halla af rekstri Hamra úr bæjarsjóði eins og tíðkast víða um land.

Á liðnu ári var gerður nýr rammasamningur milli rekstraraðila hjúkrunarheimila og Sjúkratrygginga Íslands sem bætti stöðuna nokkuð (áætlað að greiðslur til Hamra ykjust um 11 m.kr. á ársgrundvelli miðað við óbreytt RAI-mat). Engu að síður virðist enn vanta á annan tug milljóna króna á ári til að endar nái saman...“