Elsý fæddist 1. júlí 1938 í Keflavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 27. febrúar 2017.

Foreldrar hennar voru Kristín Guðmundsdóttir og Emil Guðmundsson og eru þau látin. Systkini Elsýjar voru 10, þar af tvö hálfsystkin. Elsý giftist Arnari Sigurðssyni 9. júlí 1961 og lést hann árið 2014. Þau eignuðust tvær dætur: 1) Kristín, fædd 8. júlí 1958, maki Sigurgeir Sigmundsson fæddur 23. september 1957. Börn þeirra eru þrjú: Guðný Ósk, fædd 1982, maki Atli Þór Albertsson. Valgeir Emil, fæddur 1983, maki Jenný Lind Jóhannesdóttir. Sigmundur, fæddur 1992, maki Íris Einarsdóttir. 2) Hallfríður Arnarsdóttir fædd 7. desember 1960, maki Jörgen Erlingsson, fæddur 3. febrúar 1960. Börn þeirra eru tvö: Arnar, fæddur 1982, maki Julie Oland, og Ívar, fæddur 1989, látinn 2008. Langömmubörnin eru fjögur; Oscar, Maríanna, Björk og Silja.

Síðustu árin bjó Elsý á Sólvangi í Hafnarfirði þar sem hún naut aðhlynningar.

Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Ég man þig – elsku mamma

ég man þig alla tíð.

Við þraut svo þunga og ramma

þú þögul háðir stríð.

Sem hetja í kvöl og kvíða

þú krýnd varst sigri þeim

sem á sér veröld víða

og vænni en þennan heim.

En þín ég sífellt sakna

uns svefninn lokar brá.

Og hjá þér vil ég vakna

í veröld Drottins þá.

Því jarðlífs skeiðið skamma

er skjótt á enda hér.

Og alltaf á ég, mamma,

minn einkavin í þér.

(Rúnar Kristjánsson)

Kærleikskveðja.

Elska þig. Þín dóttir

Hallfríður (Hallý).

Elsku hjartans mamma, nú hefur þú verið leyst þrautunum frá. Alzheimer-sjúkdómurinn tók sér bólfestu í líkama þínum fyrir mörgum árum en alltaf hélst þú reisn fram á síðasta dag. Elsku fallega yndislega þú. Ég hélt í hönd þína þegar þú dróst andann í síðasta sinn og það var eins og fallegur ljómi umlykti þig. Falleg og friðsæl kvaddir þú mánudaginn 27. febrúar síðastliðinn. Það hafa verið forréttindi að hafa stutt og hlúð að þér undanfarin ár. Þú og pabbi kynntust ung og áttuð dásamleg ár og tíma saman ásamt frábærum vinahópi og ættingjum sem þið fóruð oft með í ferðalög, innanlands og utan. Það var mikil gleði og gaman þegar þið voruð saman og margt brallað.

Árin á Kleppsveginum, í Skipasundi og Hjallabrautinni í Hafnarfirði, þar sem þið ætluðuð að eyða árunum ykkar saman í ellinni, fóru á annan veg. Heilsan er ekki gefin og þið fóruð ekki varhluta af heilsuleysi og þurfti mamma að fara á hjúkrunarheimili þar sem hún dvaldi í rúm fimm ár. Naut hún umönnunar frábærs starfsfólks Sólvangs á 2. hæð, sem gerði allt til að mömmu liði vel enda var hún hvers manns hugljúfi. Minningarnar og tilfinningarnar brjótast fram við kveðjustund, og sú tilfinning sem situr hvað sterkust eftir er þakklæti fyrir að hafa átt þig sem mömmu, og börnin mín dásamlega ömmu sem þau minnast með þökk og hlýju.

Fjöldann allan af fallegum og góðum minningum væri hægt að skrifa um mömmu, en Guð geymi þig, fallega sál, og elsku pabba sem ég veit að hefur fagnað, tekið þig í faðminn, elsku mamma, nikkunni skellt á lærin og stiginn dans.

Guð geymi þig, elsku mamma.

Þín dóttir,

Kristín.

Elsku besta Elsý amma mín. Þú yndislega, duglega og fallega kona. Ert nú laus þrautunum frá og komin til afa þar sem þið eruð loks sameinuð á ný. Mikið held ég að afi sé glaður að vera búinn að fá þig til sín á ný þar sem þið getið dansað saman, afi spilað á nikkuna fyrir þig og þið brallað eitthvað saman eins og ykkur einum var lagið. Samrýndari hjón hef ég ekki annars staðar séð og ávallt voruð þið bestu vinir. Þið saman voruð algjörar dúllur og yndisleg hjón.

Amma mín, þú varst alltaf svo sterk og með líkama úr stáli, ávallt svo heilsuhraust fyrir utan þennan illvíga sjúkdóm sem tók þig frá okkur allt of snemma, löngu fyrir þinn hinsta dag. En lífið leggur ýmislegt á okkur sem við kjósum ekki.

Minningarnar um þig, elsku amma, eru allar góðar og þarf ég að fara nokkur ár aftur í tímann til þess að rifja þær upp til að muna þig eins og þú varst.

Sem börn fengum við barnabörnin alltaf að taka upp kartöflur með ykkur sem þið ræktuðuð í garðinum heima og var það alltaf jafn gaman. Þú og afi áttuð alltaf eitthvað í „sjoppunni“ í bílnum sem maður fékk að gæða sér á í bílferðunum með ykkur sem var hanskahólfið og alltaf fullt af nammi. Ófáar stundirnar áttum við saman í Skipasundinu. Þú gerðir besta plokkfisk í heimi, hjónabandssælu og randalínu og mun þetta alltaf minna mig á þig. Þú kallaðir mig svo oft Gunnsu og varst sú eina sem gerði það.

Minningarnar eru ótalmargar en í aðalatriðum allar góðar og fallegar. Þú gerðir allt fyrir barnabörnin þín og varst yndisleg amma.

Elsku amma, megir þú hvíla í friði og trúi ég því að þú sért nú komin á betri stað.

Guðný Ósk.

Elsku Elsý frænka hefur hvatt þennan heim.

Yndislegri frænku var ekki hægt að hugsa sér að eiga, alveg frá því að ég var lítil stelpa hlakkaði ég alltaf svo mikið til að fara í heimsókn á kleppsveginn til þín og Adda, viðmótið og móttökurnar voru alltaf svo góðar.

Þú varst alltaf svo léttlynd og kát og stutt í hláturinn sem smitaði út frá sér.

Þegar ég var eldri kom ég stundum við hjá þér í Skipasundinu og einnig í sjoppunni sem þú vannst í og það var svo gott að fá pylsu og litla kók í gleri, en aldrei fékk maður að borga fyrir. Þannig varst þú bara, vildir alltaf vera að gefa. Þegar ég fór að læra hárgreiðslu stóð ekkert í vegi fyrir því að þú kæmir og værir módel fyrir mig, bæði á Kristu, hárgreiðslustofunni sem ég lærði á, og líka í iðnskólann, en það kom sko í ljós hversu yndisleg og góð manneskja þú varst því að þolinmæðin þín að leyfa mér að dúlla við þig var með eindæmum.

Það voru erfið síðustu árin þín þar sem þú varst búin að glíma við erfiðan sjúkdóm, alzheimer, í 19 ár. Það var samt alltaf stutt í brosið þitt og þér þótti svo gott þegar við mamma komum við í ísbúðinni áður en við komum til þín og svo sátum við saman og nutum þess að borða ísinn.

Sambandið ykkar mömmu var alveg einstaklega gott alla tíð alveg fram á síðasta dag, þið gerðuð svo margt skemmtilegt saman á meðan heilsan leyfði. Við systkinin vorum alltaf svo ánægð þegar við sáum bílinn ykkar renna í hlað, því það var ekki oft sem að þið komuð tómhent.

Og þú verður alltaf í okkar hjörtum uppáhaldsfrænkan.

Nú eru þið komin saman á ný, þú og Addi, og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér.

Takk fyrir allar okkar yndislegu stundir, elsku besta Elsý mín.

Minningin um frábæra frænku lifir.

Þín

Bylgja.