Starfsmenn og eigendur fagna eins árs afmæli ísbúðarinnar. Emma Talbot, Vera Þórðardóttir, Lára Þórðardóttir, Milla Eirola og Philip Harrison.
Starfsmenn og eigendur fagna eins árs afmæli ísbúðarinnar. Emma Talbot, Vera Þórðardóttir, Lára Þórðardóttir, Milla Eirola og Philip Harrison. — Ljósmynd / Karítas Diðriksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Vera og Philip söknuðu þess að geta fengið góðan rjómaís úr dælu í höfuðborg Bretlands. Þau laga sósuna og baka kökubita á staðnum, en flytja inn lakkrískurl og annað nammi frá Íslandi.

Bears Ice Cream fagnaði því á dögunum að ár er liðið frá opnun þessarar íslensku ísbúðar í vesturhluta London. Vera Þórðardóttir á og rekur ísbúðina með manni sínum Philip Harrison en ísbúðina er að finna á mörkum Hammersmith og Shepherd's Bush, við hverfi sem heitir Brackenbury Village.

Vera er fatahönnuður að mennt og samhliða ísbúðarrekstrinum rekur hún ráðgjafafyrirtæki í fatahönnun auk þess að framleiða eigin fatalínu. Philip er aftur á móti menntaður matreiðslumaður og hefur gert það gott á einum vinsælasta gastrópöbbinum á Brackenbury svæðinu. „Undanfarin átta eða níu ár höfum við búið mestmegnis hér í London, en alltaf þegar við ferðuðumst til Íslands var það fyrsta sem við gerðum að fá okkur pulsu og ís, og fannst okkur þetta bráðvanta hér í London,“ segir Vera og bendir á að í borginni er nóg af ísbúðum sem selja kúluís en vandaður rjómaís úr dælu er vandfundinn. „Okkur finnst kúluísinn góður en það er eitthvað alveg sérstakt við góðan rjómaís, og hvað þá bragðaref.“

Áhersla á hreinleika og gæði

Upphaflega vildu Vera og Philip nota íslenska ísblöndu í búðinni en innflutningurinn reyndist flókinn og geymslutími ísblöndunnar of stuttur til að hún hentaði til útflutnings. Eftir mikla leit fannst sambærileg blanda frá kúabónda á eyjunni Jersey, en Vera segir Bears Ice Cream leggja mikla áherslu á gæði og hreinleika ísblöndunnar og erfitt að finna blöndur sem ekki innihalda olíur og óæskileg efni. „Mjólkin frá Jersey þykir í algjörum sérflokki, og blandan okkar bæði einföld og hrein. Uppistaðan er léttmjólk, með viðbættum rjóma, ögn af fitu og sykri og er því ísinn okkar ekki óhollari en margar jógúrttegundir.“

Að íslenskum sið er hægt að dýfa ísnum í sósur og kurl og fá alls kyns blöndur í boxi. Bears Ice Cream flytur inn lakkrís og annað gotterí frá Íslandi og Philip bakar kökubita og lagar íssósur eftir eigin höfði. Viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa og rataði Bears Ice Cream meðal annars á silfurlista hins virta borgartímarits Time Out.

Ekki einfalt að byrja

Philip er breskur en hann og Vera kynntust á Íslandi fyrir um þrettán árum og á sínum tíma ráku þau saman Hótel Núp á Núpi í Dýrafirði. Vera segir að það sé ekkert grín að opna matsölustað í Bretlandi og hafi komið sér vel að þau höfðu reynslu af að reka fyrirtæki saman, hann með langan feril í veitingahúsageiranum og hún með stúdentspróf úr Verslunarskólanum, hönnunarnám og reynslu í sköpun og markaðssetningu heildstæðs vörumerkis.

Fyrst þurfti að finna hentugt atvinnuhúsnæði. „Við gripum til þess ráðs að skrifa bréf og setja inn um lúgur þar sem við fundum autt húsnæði því margar eignir vantaði í fasteignaleitarvélarnar á netinu. Við fengum m.a. svar frá eiganda húsnæðisins sem við leigjum í dag, en áður en hægt var að skrifa undir leigusamninginn þurftum við að sannfæra hann um að rekstraráætlunin væri góð og að við hefðum fjármagnið og þekkinguna til að láta fyrirtækið ganga. Með góðri hjálp höfðum við gert mjög vandaða viðskiptaáætlun og áttum nægilegt sparifé til að geta brugðist við ófyrirséðum útgjöldum.“

Þá þurfti leyfi, úttektir og tryggingar. „Við fengum fullt hús stiga í fyrstu heilbrigðisskoðun sem er mjög óvenjulegt fyrir nýjan veitingastað. Eftirlitsfólkið getur birst óvænt í búðinni hvenær sem er á árinu og þá verður allt að vera tipp topp, og vera hægt að sýna fram á t.d. daglega skráningu á hitastiginu í kælunum.“

Það vill svo heppilega til að móðir Veru er arkitekt svo hún gat aðstoðað við að teikna upp og hanna ísbúðina. Þá hannaði Vera sérlega snotrar umbúðir og vörumerki, og útkoman nokkurs konar „bútík“-ísbúð fyrir bæði sælkera og fagurkera.

Fleiri staðir á næsta ári?

Margir geta ekki staðist ísinn, og sumir kunna jafnvel að meta lakkrískurlið þó að það sé ekki allra. „Við eigum ófáa fastakúnna sem koma vikulega eða nokkrum sinnum í viku. Einn kom hingað hvern einasta dag í heilan mánuð til að fá sér mjólkurhristing og margir leggja á sig nokkuð langt ferðalag þvert yfir borgina til að smakka ísinn okkar.“

Rekstur ísbúðarinnar gengur vel og dagleg starfsemi komin í svo fastar skorður að Vera og Philip geta stundum látið eftir sér að taka frí eða sinna öðrum verkefnum. Philip helgar stóran hluta vinnudagsins vöruþróun og saman eru þau að leggja drög að næstu skrefum. „Það þykir nokkuð gott ef að matsölustaður kemur út á sléttu eftir fyrsta árið,“ segir Vera. „Á þessu ári munum við halda áfram að kynna okkur með „pop-up“-ísbúðum á völdum viðburðum. Eftirspurnin er greinilega til staðar og okkur berast tilboð úr ýmsum áttum. Þegar við höfum komið vörumerkinu betur á framfæri og skapað enn meiri áhuga þá gæti næsta skref orðið að opna tvær eða þrjár ísbúðir á öðrum stöðum í London. Ekki er útilokað að við förum bráðum að taka inn fjárfesta ef það hjálpar okkur að stækka hraðar.“