Hólmfríður Bjartmarsdóttir heldur sig við limrurnar, þótt hún segi að þær séu „tómt rugl“! Hann Brandur klaufski og bleiki við búskap var alltaf á kreiki Það hægðist um hann þennan hraðfara mann þegar karlinn fékk klaufaveiki.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir heldur sig við limrurnar, þótt hún segi að þær séu „tómt rugl“!

Hann Brandur klaufski og bleiki

við búskap var alltaf á kreiki

Það hægðist um hann

þennan hraðfara mann

þegar karlinn fékk klaufaveiki.

Á mánudaginn dró Hólmfríður þessa limru upp úr Boðnarmiði og varð að spuna:

Hann Blesi var hugprúður hestur

í hlaupi var klárinn víst bestur

ef fór hann af stað

en fágætt var það

hann lá oftast heima við lestur.

Hreinn Guðvarðarson bætti við:

Með aldrinum ekki varð betri

svo eitt sinn að nýliðnum vetri

þá lagð'ann af stað

til himna fann vað.

Nú frísar í fanginu á Pétri.

Helgi Ingólfsson kunni sögulok:

Í lestri þá tók hún við, törnin,

og tvöföld var fáviskuvörnin.

Með bók milli hófa

og blásturinn grófa

hann Blesi nú les fyrir börnin.

Hjálmar Freysteinsson rappar undir limrulagi:

Kristlaug gladdist og klappaði

er Kormákur þjóðsönginn rappaði,

en „Heyr himna smiður“

henni féll miður

þá snerist í henni og hún snappaði.

Margt óvænt bar fyrir Helga R. Einarsson í Tenerife eins og kisu við sundlaug:

Kisa við laugina lá,

svo ljómandi falleg að sjá.

Er við hana ég ræddi

hjarta mitt bræddi

er hún sagði' á íslensku „mjá“.

Hömluleysið er þar ekki síður en hér:

Hjónin þau hitanum unnu,

en hógværð þau ekki kunnu.

Sögunni lauk

í ljósgráum hrauk,

því bæði til ösku þau brunnu.

Og að síðustu er það limran „Hjóm“ eftir Helga sem segir hinn bitra sannleika:

Á sólbekki fölir sér fleygja,

því fegurð í brúnkunni eygja.

En sól yfirleitt

litlu fær breytt.

Genin þau sannleikann segja.

Og að lokum eftir Kristján Karlsson:

„Það kvað vera fallegt Í Kína,“

sagði kona eða lét í það skína.

Hvað hún hét veit nú enginn,

hún er annaðhvort gengin

eða afplánar varfærni sína.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is