Donald Trump
Donald Trump
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki lagt fram nein gögn sem staðfesta þá ásökun hans að forveri hans í embættinu, Barack Obama, hafi látið hlera síma hans fyrir forsetakosningarnar í nóvember, að sögn repúblikana sem fara fyrir þingnefndum sem...

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ekki lagt fram nein gögn sem staðfesta þá ásökun hans að forveri hans í embættinu, Barack Obama, hafi látið hlera síma hans fyrir forsetakosningarnar í nóvember, að sögn repúblikana sem fara fyrir þingnefndum sem rannsaka meintar tilraunir Rússa til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Devin Nunes, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, virtist gagnrýna fjölmiðla fyrir að taka mark á yfirlýsingum Trumps á Twitter. „Eins og þið vitið er forsetinn byrjandi í stjórnmálunum. Þið takið margt af því sem hann segir bókstaflega,“ sagði Nunes á þriðjudag. „Stundum er hann ekki með 27 lögfræðinga og aðstoðarmenn sem líta á það sem hann gerir... Ég tel ekki að við eigum að ráðast á forsetann fyrir að tísta.“

Richard Burr, formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar, kvaðst ekki hafa séð nein gögn sem staðfestu ásökun forsetans.

Trump lagði ásökunina fram á Twitter án frekari rökstuðnings á laugardaginn var og líkti málinu við Watergate-hneyksli Richards Nixons. Talsmaður Obama hefur sagt að ásökun Trumps sé „einfaldlega röng“. Yfirmaður alríkislögreglunnar FBI, James B. Comey, og James R. Clapper, sem var yfirmaður leyniþjónustumála í forsetatíð Obama, hafa sagt að ekkert sé hæft í ásökun forsetans, að sögn The New York Times . Comey er sagður hafa beðið dómsmálaráðuneytið um að vísa ásökuninni á bug.

Að sögn fréttavefjar CNN hefur verið „nánast ómögulegt að finna þingmann sem tekur ásökun forsetans alvarlega eða bókstaflega“.

„Ég tel að það fyrsta sem þurfi að gerast sé að forsetinn segi bandarísku þjóðinni hvar hann hafi fengið þær upplýsingar að forveri hans í embætti Bandaríkjaforseta hafi brotið lög,“ sagði John McCain, repúblikani í öldungadeildinni.