Hrefna Birgisdóttir fæddist í Danmörku 4. júní 1951. Hún lést 10. febrúar 2017.

Foreldrar hennar voru Birgir Þorgilsson, f. 1927, d. 2011, ferðamálastjóri, og Jóhanna Theodóra Bjarnadóttir, f. 1931, d. 1990. Seinni kona Birgis er Ragnheiður S. Gröndal, f. 1934. Seinni maður Jóhönnu var Guðjón Guðmundsson, f. 1932. Systur Hrefnu eru Brynja Birgisdóttir, f. 1953, Kristín Elísabet Guðjónsdóttir, f. 1957, Sigrún Birgisdóttir, f. 1960, Anna Margrét Guðjónsdóttir, f. 1961, og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir, f. 1968.

Hrefna ólst upp fram undir unglingsárin hjá afa sínum og ömmu á Hraunteignum, Þorgils Guðmundssyni, kennara, og Halldóru Sigurðardóttur, húsmóður og kennara. Hún var í Reykholti veturinn 1968-1969 og tók þaðan gagnfræðapróf.

Lengst af vann Hrefna á söluskrifstofum Flugleiða í Reykjavík og um tíma hjá Samvinnuferðum á Akureyri. Börn Hrefnu eru: 1) Birgir Kreinig, f. 1971, sjóntækjafræðingur, faðir Gilbert Ólafur Guðjónsson. Börn: a) Adam Breki Birgisson, f. 2000. b) Vigfús Nói Birgisson, f. 2003. 2) Karl Philip Kreinig, f. 1976, sjóntækjafræðingur, faðir Karl Alois Kreinig; maki Melanie Elisabeth Kreinig. Börn: a) Laura Sophie, f. 2007. b) Lilja Elisabeth, f. 2011. c) Elena Isabel, f. 2013. 3) Gunnar Már, f. 1984, mannfræðingur, faðir Gunnar Karlsson; maki Margrét Vera Benediktsdóttir. Börn: a) Bjarnhéðinn Hrafn, f. 2007. b) Kveldúlfur Snjóki, f. 2009. 4) Ragnheiður Diljá, f. 1984, ljósmóðir, faðir Gunnar Karlsson. Börn: a) Jóhann Þórir, f. 2010. b) Emilía Eir, f. 2012.

Útför Hrefnu fór fram í kyrrþey 17. febrúar frá kapellunni í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Það var erfitt að trúa orðum tvíburabróður míns þegar hann hringdi til að segja mér að mamma væri dáin. Óskiljanlegt, sorg og sjokk. Tárin renna og minningarnar streyma fram.

Elsku mamma mín.

Ég veit og skil nú betur en áður að þú gerðir þitt besta. Þér var mikið í mun að börnunum þínum og barnabörnum liði vel, og þú varst svo stolt af okkur.

Finn fyrir miklu þakklæti fyrir að hafa átt þig að í mínu lífi. Þú gafst mér takmarkalausa ást og kenndir mér að elska. Þú kenndir mér að vera góð við aðra, vera þakklát og njóta litlu hlutanna í lífinu. Þú hafðir unun af að hjálpa öðrum, sérstaklega túristunum. Þú gerðir oft góðlátlegt grín að mér fyrir að hafa beðið þig hér á árum áður að hætta að hjálpa túristunum, ein lítil varð jú þreytt á hverju fullorðinsspjallinu á fætur öðru, nú er ég alveg eins.

Minningu þína mun ég heiðra meðal annars með því að hugsa til þín þegar ég fer í langa göngutúra við sjóinn, sem þú hafðir svo mikið dálæti á, og kalla börnin mín af og til „litlu krakkaskítir“ með ástúðlegum glettnisglampa í augunum og brosinu.

Ég elska þig og mun ætíð elska þig, þú verður ávallt hluti af mér.

Hvíldu í friði.

„1.000 Bussi!“

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest

að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Þín einkadóttir

Ragnheiður Diljá.