Hlutabréfamarkaðurinn er viðkvæmt blóm sem sveiflast upp og niður eftir því hvernig vindar blása. Í einfölduðu máli þá stjórnast markaðir af framboði og eftirspurn. Því hækkar gengi þegar fjárfestar kaupa og lækkar þegar fjárfestar selja.

Hlutabréfamarkaðurinn er viðkvæmt blóm sem sveiflast upp og niður eftir því hvernig vindar blása.

Í einfölduðu máli þá stjórnast markaðir af framboði og eftirspurn. Því hækkar gengi þegar fjárfestar kaupa og lækkar þegar fjárfestar selja.

En það eru fleiri kraftar að verki. Það er til dæmis ekki alveg sama í augum markaðarins hver það er sem kaupir, og sér í lagi hver það er sem selur.

Viðskipti með hlutabréf snúast að miklu leyti um upplýsingar. Fjárfestar hafa almennt takmarkaðar upplýsingar um fyrirtæki og því reyna þeir að lesa í öll hugsanleg skilaboð. Það á ekki síst við þegar fjárfestar sem þeir vita að búa yfir meiri upplýsingum en þeir, það er að segja við innherjarnir, eiga viðskipti.

Þetta sást afar skýrt í vikunni þegar forstjóri eins skráðs hlutafélags og fjármálastjóri annars seldu umtalsverða hluta eigna sinna í þeim fyrirtækjum sem þeir eru innherjar í. Hlutabréf beggja fyrirtækja tóku hressilega dýfu í kjölfarið.

Nú er ekkert við það að athuga að selja hlutabréf og innleysa hagnað. Þegar æðstu stjórnendur eiga í hlut er málið hins vegar mun flóknara. Ástæða sölu getur verið annað tveggja, að stjórnandinn telji ekki líklegt að bréfin muni hækka frekar eða að hann sé fjárþurfi. Hvorugt er jákvætt í augum fjárfesta.

Yfirleitt líta hluthafar svo á að það sé jákvætt þegar æðstu stjórnendur tengja hagsmuni sína við hagsmuni þeirra í formi hlutafjáreignar. Með því að selja hlutabréf sín má segja að stjórnandinn taki þá ákvörðun að slíta þessi hagsmunatengsl.

Í kjölfar slíkrar uppsagnar er kannski ekki óeðlilegt að hluthafar velti því fyrir sér hvort sambandið sé til langframa?