Veganesti Karen Sævarsdóttir með áhugasömum og efnilegum ungum golfnemendum. Hún segist sjálf hafa notið góðs af því að móður hennar var lagið að gera golfæfingarnar bæði fjölbreyttar og skemmtilegar.
Veganesti Karen Sævarsdóttir með áhugasömum og efnilegum ungum golfnemendum. Hún segist sjálf hafa notið góðs af því að móður hennar var lagið að gera golfæfingarnar bæði fjölbreyttar og skemmtilegar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karen segir golfið bæði skemmtilega og aðgengilega íþrótt sem kynslóðirnar geta spilað saman. Golf kennir unga fólkinu aga og heiðarleika og býður upp á ánægjulega útiveru í góðum félagsskap

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Karen Sævarsdóttir var byrjuð að slá golfbolta fimm ára gömul, á meðan jafnaldrar hennar voru enn að leika sér með dúkkur. „Ég var svo heppin að fá að fara með foreldrum mínum á golfvöllinn og stelpur voru alls ekki margar í golfíþróttinni á þessum tíma,“ segir hún, en Karen var komin í golflandsliðið í kringum fermingaraldurinn. Hún segir að árangurinn í íþróttinni hafi hjálpað til við að viðhalda áhuganum, „en mamma áti það líka til að brjóta upp vanann, gera æfingarnar fjölbreyttari og meira krefjandi og gerði um leið skemmtilegri leik úr golfþjálfuninni“.

Golfið hefur fylgt Karen alla tíð síðan og þrátt fyrir að vera með meistaragráðu í viðskiptum og hafa meira að segja verið útibústjóri í bandarískum banka kýs hún í dag að hafa golfþjálfun sem aðalstarf sitt. „Þegar ég flutti aftur heim frá Bandaríkjunum fann ég það svo sterkt hvað ég hef mikið yndi af golfi og finnst það forréttindi að fá að kynna þessa skemmtilegu íþrótt fyrir fólki.“

Aldrei sama höggið tvisvar

Er margt við golfið sem heillar. „Við fyrstu sýn mætti halda að maður þreyttist á því á endanum að spila sama golfvöllinn aftur og aftur, en raunin er að aðstæður eru aldrei þær sömu. Veður, vindátt og aðrir þættir valda því að maður slær í raun aldrei sama höggið tvisvar. Um leið er íþróttin þannig að maður er í stöðugri samkeppni við sjálfan sig og reynir að vera betri í dag en í gær,“ útskýrir Karen.

Áhugi landsmanna á golfi virðist haldast nokkuð stöðugur og segir Karen það meðal annars skrifast á hvað golf er aðgengileg íþrótt. „Allir geta spilað golf og þökk sé forgjafarkerfinu geta byrjendur og lengra komnir keppt sín á milli. Fólk á öllum aldri getur iðkað þessa íþrótt, og jafnvel keppt, og kynslóðirnar stundað golfið saman.“

Þá skemmir heldur ekki fyrir að aðstaðan til golfiðkunar er mjög góð hérlendis, og betri en margan grunar: „Þegar ég bjó í San Antonio í Texas var enginn skortur á golfvöllum og fólkið hér heima á Íslandi hélt að ég væri úti á velli alla daga. Raunin var þó að þegar vinnudeginum var lokið var komið rökkur og enginn tími til að spila golf. Við Íslendingar erum afskaplega rík þjóð að hafa miðnætursólina, og getum því farið heim eftir vinnu, borðað kvöldmat í rólegheitum, og svo farið út á golfvöllinn og spilað eins og okkur lystir.“

Byrjað á grunninum

Sumir mikla það fyrir sér að byrja að spila golf og halda að fyrst af öllu verði að fjárfesta í dýru kylfusetti og golffatnaði frá toppi til táar og borga háar fjárhæðir í félagsgjöld. Karen segir nóg að byrja með eina kylfu, pútter og strigaskó. „Besta leiðin til að byrja í golfi er að taka stutt námskeið hjá golfkennara. Bæði má þannig byrja að læra undirstöðurnar og helstu hugtökin, en líka fyrirbyggja villur í gripi og stöðu sem getur reynst erfitt að leiðrétta eftir á. Flestir finna það strax hvort þeim þykir gaman í golfi og geta þá lagt meiri tíma og pening í íþróttina.“

Í fyrstu golftímunum er reynt að þjálfa góða sveiflu og æfa púttið og vippið, og í framhaldinu er jafnvel hægt að fara út á golfvöllinn. Mælir Karen með að hafa þjálfarann með í för á fyrsta hringnum. „Það væri ákjósanlegt, og ég hef það fyrir sið á byrjendanámskeiðum að fara á æfingavöllinn með nemendur, bæði svo þeir læri betur reglur leiksins og skilji hvað golfarinn er að hugsa og gera úti á vellinum,“ segir Karen.

Að gerast meðlimur í golfklúbbi fer að borga sig þegar fólk er komið á bólakaf í íþróttina en Karen segir að ólíkt því sem þekkist víðast hvar erlendis séu golfvellir landsins opnir almenningi og aðeins þurfi að greiða hóflegt gjald til að spila einn hring. Kostar yfirleitt á við bíóferð að verja nokkrum ánægjulegum klukkustundum á golfvellinum.

Hreyfing og félagsskapur

Spurð um mannbætandi áhrif golfsins segir Karen að í íþróttinni felist bæði holl hreyfing og góð útivist, og kylfingar séu oft orðnir útiteknir og hraustlegir strax í byrjun sumars. Golfið er líka „heiðursmannaíþrótt“ og kennir unga fólkinu aga og heiðarleika, sem verður þeim gott veganesti í lífinu. Síðast en ekki síst býður golfiðkun upp á skemmtilega samverustund með vinum, ættingjum, vinnufélögum og öðrum golfklúbbsmeðlimum. „Ég neita því ekki að það kom sér stundum vel úti í Bandaríkjunum að kunna að spila golf enda vinsælt meðal stjórnenda þar í landi að taka einn og einn hring með kollegum sínum, ræða málin og gera samninga. Endrum og sinnum fékk ég símhringingu frá forstjórum bankans sem þótti ekki amalegt að spila með konu sem getur slegið boltann langt, og ekki var ég að kvarta heldur.“