Ingiríður Helga Leifsdóttir fæddist 25. júní 1928. Hún lést 18. febrúar 2017.

Útför Ingiríðar fór fram 24. febrúar 2017.

Nú ert þú farin, elsku Inga systir mín, þetta er víst leiðin okkar allra, því getur enginn breytt.

Takk fyrir allar góðu minningarnar. Þú varst stórglæsileg kona, hafðir mjög góða nærveru og stutt í hláturinn og skemmtilegheitin. Ein minning stendur þó upp úr öllum öðrum ljúfu minningunum um þig. Við áttum bæði heima á Tunguveginum og þá var Hanna mágkona okkar komin fram yfir tímann með að eiga hann Guðjón. Þá kemur þú til mín og segir: „Grímur, nú verðum við að hlæja strákinn úr henni Hönnu.“ Þetta tókst vel, við Hanna veltumst um af hlátri og...viti menn ... stráksi kom í heiminn um nóttina. Já, hún hafði létta lund hún Inga. Ekki má þó svo skilja að hún gæti ekki spyrnt við fótum, nei, það fór enginn með hana það sem hún vildi ekki sjálf.

Lífið lék ekki alltaf við hana Ingu systur og oft á tíðum þurfti hún að taka á honum stóra sínum, eins og sagt er, en ávallt var öllu reddað og ekki spurning um að létta lundin og seiglan hafði þar sitt að segja.

Inga hafði gaman af að syngja og yrkja og þegar við hittumst var lagið oftar en ekki tekið og vísur kveðnar. Ég geymi í minningunum allar þær fallegu vísur sem þú hefur sent mér, Inga mín, þær eru fjársjóður minninganna.

Mér þótti afskaplega vænt um þig og mun sakna þín, þinnar léttu lundar og hlátursins. Ég veit að þér líður vel núna, því nú ertu frjáls. Guð geymi þig.

Ég votta afkomendum og öðrum ástvinum innilega samúð mína.

Grímur Leifsson.

Þetta fallega ljóð verður hinsta kveðja til okkar ástkæru móður.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Með ástar- og saknaðarkveðjum,

Ingimundur, Helga,

Leifur og Fríða Björg.